03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Í 2. gr. laga um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda segir svo: „Stofnfé skuldaskilasjóðs er 1½ millj. króna. Upphæð þessa tekur sjóðurinn að láni, og ábyrgist ríkisstjórnin fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu lánsins, enda skal ríkissjóður leggja fram árlega sem styrk til sjóðsins upphæð, sem svarar árlegum afborgunum og vaxtagreiðslum“. Þetta er sú lántökuheimild, sem í lögunum felst. Þar er ekkert tekið fram, hvort lánið skuli tekið innanlands eða erlendis. Það var rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að lánið var tekið í íslenzkum gjaldeyri og á að greiðast í erlendri mynt, miðað við núverandi gengi ísl. krónu, en það er alveg sama og ef það hefði verið tekið í erlendri mynt. Ef það hefði verið tekið erlendis varð vitanlega að greiða það í erlendri mynt. Þetta er því alveg hliðstætt því, að það hefði verið tekið erlendis. Að lánið var tekið hér var sökum þess, að fé þetta stóð til boða, og það þótti því heppilegra að taka það en leita til annara landa.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort nokkuð hefði verið leitað til erlendra manna, sem hér eiga innifrosið fé, um lánið. Um þetta atriði veit ég ekki með fullri vissu. En það er víst, að ekki var auglýst eftir láninu, enda held ég ekki, að til þess hafi verið ætlazt eftir lögunum. Ég býst líka við, að erfitt hefði reynzt að sameina alla þá, sem hér eiga frosnar innstæður í einn aðilja til lánveitingar.

Vextir af láni þessu eru 4½% og greiðslutími 15 ár, og verður það að teljast hagstætt eftir því, sem um er að gera.