03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Jón Baldvinsson:

Mér þykir rétt að geta þess, að engar erlendar stofnanir eða erlendir menn munu eiga hér jafnháar upphæðir inni eins og sá, sem lánið var tekið hjá. Hefði því orðið að taka lánið í smáskömmtum, ef leitað hefði verið til annara, og ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur hefði viljað lána þetta fé, nema jafnframt að fá tryggða yfirfærslu á því með ákveðnu gengi. Um lán þetta mun ekki hafa verið leitað til annara en lánveitendanna og eins gufuskipafélags, sem aðeins vildi lána 100 þús. kr.

Í þessu sambandi ber þess að gæta, að olíufélögin voru orðin á eftir með yfirfærslur samanborið við aðra. Hafði þannig safnazt fyrir ársyfirfærsla, sem þau áttu rétt á að fá samanborið við aðra og samkv. gjaldeyrislögunum, því að í þeim stendur, að yfirfærsla vegna kaupa á nauðsynjavörum, svo sem kolum, olíu, matvörum, veiðarfærum o. fl., skuli að jafnaði ganga fyrir öðrum yfirfærslum. Ég hygg því, að það hafi verið rétt af stjórninni að taka lánið hjá þessum félögum, enda hefðu engir aðrir innstæðueigendur hér getað uppfyllt lánsheimildina einir.

Þá gat stjórnin líka farið þá leið að gefa út bréf samkv. 3. gr. l., en ég held, að menn hafi fengið nóg af kreppubréfum í bili, þó að ekki væri farið að bæta við þau 1½ millj. vegna þessara l. Mönnum er líka miklu ljúfara að fá peninga upp í greiðslur sínar en bréf. Ganga því allir samningar greiðara, þegar menn eiga von á staðgreiðslu í peningum, en ef þeir yrðu að taka bréf upp í kröfur sínar. Að öllu athuguðu held ég því, að stj. hafi gert rétt í því að taka þetta lán, og ég hygg, að hún hefði ekki fengið það með betri kjörum annarsstaðar en þar, sem hún tók það, og þó að leitað hefði verið til útlanda, hefði alveg komið í sama stað niður, hvað kjörin snertir.