03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Jón Auðunn Jónsson:

Það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að það er hvergi tekið fram í lánsheimildinni, hvort bjóða skuli lánið út eða ekki. Það er heldur ekki ákveðið, hvort gefa skuli út handhafaskuldabréf. — Hvað snertir ræðu 4. landsk., þá er ég honum alveg sammála um það, að heppilegra sé að hafa peninga á reiðum höndum við alla samninga en bréf, og í þessu tilfelli sé réttara að hafa peninga til greiðslu en kreppubréf. En það, sem ég vil halda fram, er það, að lánið hefði mátt fá með hagkvæmari kjörum. Þó að félög þau, sem lánið var tekið hjá, væru stærstu eigendur hins innifrosna fjár, þá held ég samt, að réttara hefði verið að bjóða lánið út, svo að fleiri innstæðueigendum hefði gefizt kostur á að kaupa þessi skuldabréf. Það hefði orðið eitthvað seinlegra, en ódýrara, því að ég geri ráð fyrir, að ýmsir erlendir innstæðueigendur hefðu verið fúsir til að láta innstæður sínar á 75 kr. hverjar 100 kr., ef yfirfærsluskylda hefði fylgt. a. m. k. þekki ég eitt firma, sem hefði verið fúst til þess að lána 60–70 þús. kr. með þessum kjörum. Það má vel vera rétt, að félögin, sem lánið var tekið hjá, hafi átt sérstakan rétt á yfirfærslu, en þó hygg ég, að þau hafi ekki fengið neitt hlutfallslega minni yfirfærslur nú að undanförnu en ýmsir aðrir.