17.04.1937
Efri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

112. mál, síldveiðar með botnvörpu

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Frv. þetta er komið hingað frá Nd. Þar var það flutt af þeim hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Rang. Um það var enginn ágreiningur í sjútvn. Nd. eða í deildinni. Hið sama má og segja um undirtektirnar í sjútvn. þessarar deildar.

Það, sem farið er fram á í frv. þessu, er, að leyft sé að veiða síld á fjörðum inni með þar til gerðri botnvörpu. Það vill nfl. oft koma fyrir, að síld liggi á fjörðum inni, sem erfitt er að ná í reknet. Hitt þykir nokkurnveginn sannað, að þar, sem þessi veiðitæki eru til, er hægt að ná síldinni, þó að hún liggi í botni og ómögulegt sé að ná henni með öðrum tækjum. Þetta fer frv. fram á. Þegar svo reynsla er fengin fyrir því, að slíkt veiðitæki komi að gagni, og líkur benda til, að hér sé um verulega veiði að ræða, þá er hægt að veita sérstökum félögum leyfi til að hagnýta sér þetta. Eins og nú er ástatt um hag sjávarútvegsins, þá lítum við svo á, að sjálfsagt sé að styðja að þessari nýbreytni, er getur fyrr eða síðar orðið arðvænleg og aukið okkar framleiðslu.