21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

28. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Ísleifur Högnason:

Ég skal ekki verða langorður um þetta mál. En þetta frv. er alveg einsdæmi, eins og l., sem leyfa bæjarsjóði Vestmannaeyja að tolla vörur, sem um höfnina fara, umfram það, sem þær annars eru tollaðar. Það er einsdæmi, að ríkissjóður skuli leyfa bæjarfélagi að tolla vörur þannig til tekna fyrir bæjarsjóð.

En ef Alþ. samþ. l. um jöfnunarsjóð fyrir bæjar- og sveitarfélög, þá álít ég óþarft að veita meiri hl. bæjarstj. í Vestmannaeyjum leyfi til þess að taka af borgurum þessa bæjar aukaskatt, sem nemur 30–40 þús. kr., þó mér sé það ljóst, að þegar búið er að koma á óbeinum skatti, þá er erfitt að afnema hann. Það sýna þetta bezt dæmin frá Alþ., þar sem alltaf er verið að framlengja bráðabirgðatolla. En þar sem Alþ. mun samþ. l. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, og Vestmannaeyjar munu þar fá 30–40 þús. kr., ef allt fer að sköpum, þá mæli ég á móti því, að þetta frv. sé samþ. og þessi heimild veitt áfram.