23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð, aðallega út af því, sem hv. 1. landsk. sagði. Hann kveðst vera ánægður með frv. að undanskildum nokkrum atriðum. Ég hélt, að hans flokkur væri ekki ánægður með þá braut, sem hér er farið inn á, að útvega bæjar- og sveitarfélögum tekjur með tollum, en það verða allar tekjurnar, sem koma inn samkv. þessu frv. Ég segi þetta ekki af því, að ég sjái það ekki, að þetta er nauðsynlegt að gera. Það er langt síðan ég sá það. enda var þessi leið farin í frv. mþn. frá 1936, sem ég átti sæti í ásamt hv. 1. þm. Eyf. Það er nú komið svo, að. skattarnir eru orðnir svo háir, að það er ekki hægt að ná inn nægilegum gjöldum til bæjar- og sveitarfélaganna með beinum álögum. Það er gott, að það skuli vera komin viðurkenning á þessu jafnvel frá kommúnistum. Þessu höfum við sjálfstæðismenn haldið fram í mörg ár. en það var hér á þingi 1936 talin ófær leið af hálfu Alþfl. En nú er komið á daginn, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt eftir beiðni hæstv. atvmrh., sem eins og kunnugt er tilheyrir Alþfl. Annars vil ég benda á það viðvíkjandi 1. kafla, að það þarf ekki að búast við miklum tekjum af honum, því að við komumst að raun um það, sem störfuðum í mþn., að það var mjög mikil andstaða gegn því að innleiða fasteignaskatt eða hækka hann. En viðvíkjandi því, til hvaða n. þetta eigi að fara, þá finnst mér, eftir þeirri aðferð, sem tekin var upp í byrjun þingsins, að láta frv. um sama efni ganga til fjhn., að þetta ætti að fara líka til þeirrar n., því ef til vill mundi n. vilja taka eitthvað upp úr hinu frv. því ég held ekki, að frv. sé alveg gallalaust. Ég er sannfærður um að það fjármagn, sem til þessa er ætlað, er allt of lítið til þess að það komi að fullum notum. Þetta verða um 400 þús. kr., sem eiga að skiptast milli allra bæjar- og sveitarfélaga. Það eru dæmi til þess, að útsvörin í Rvík einni hafa á einu ári hækkað meira en 400 þús. kr. þar af sést, að upphæð þessi er allt of lág til þess að fullnægja þörfum bæjar- og sveitarfélaga í þessu efni, enda mun hv. 1. þm. Eyf. líta svo á. Hann hefir líka sjáifur sett undir lekann með að afla á annan hátt tekna fyrir það eina bæjarfélag, sem er í hans kjördæmi. Ég er sammála honum um þá leið, er hann fer þar. Og ég ætla að launa honum framkomu hans, er hann beitti sér gegn því hér um árið, að Sauðárkrókur fengi heimild fyrir nýjum tekjum. Ég ætla þannig að hefna mín á honum með því að launa illt með góðu.