23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Það eru tvö atriði í frv., sem ég vildi benda á áður en málið fer lengra. Annað er það, hvort ekki væri hægt að fá eftirlitsmanninum meira vald, sérstaklega til að hafa áhrif í þá átt, að bæjar- og sveitarfélög fullnotuðu sína tekjuöflunarmöguleika áður en þau leita til jöfnunarsjóðs. Við höfum heyrt hv. þm. Hafn. lýsa því, hve mjög nauðulega hans bæjarfélag er statt, en þó er það svo, að bæjarstj. þar hefir ekki fundið ástæðu til að nota eins háan útsvarsskala og gildir hér í Rvík. Þegar kemur upp til eignamannanna í Hafnarfirði, eru útsvörin þar ¼ lægri en hér í Rvík, þannig, að ef Hafnarfjörður hefði sama útsvarsskala og Rvík, þá fengi bærinn það, sem hann vantar af tekjum til að standast útgjöld, og það virðist svo sem þannig sé það í fleiri bæjarfélögum. Ef hv. þm. Hafnf. vildi, þá gæti ég nefnt einstaka menn í hans bæjarfélagi, sem hafa þetta lægri útsvör en jafnefnaðir menn í Rvík. Ég tel, að eftirlitsmaður þyrfti að hafa vald til þess að láta bæjar- og sveitarfélög fullnota sína tekjuöflunarmöguleika áður en þau koma til ríkisins.

Í öðru lagi vildi ég benda á, að annað frv. sama eðlis og þetta var hér í hv. d. sent til fjhn. Það frv. rýrir tekjur ríkissjóðs og var. því fjármál. Þó hér sé um skylt mál að ræða, þá er hér ekki gengið á tekjur ríkissjóðs á neitt líkan hátt og í hinu. Hér er fyrst og fremst að ræða um sveitarstjórnarmálefni, og því tel ég, að frv. eigi að fara til allshn.