23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og hv. 9. landsk. tók fram, kemur fyrsti kafli frv. ekki að fullum notum fyrir þau bæjar- og sveitarfélög, sem verst eru stödd. Ef setja á það sem skilyrði fyrir styrk úr jöfnunarsjóði, að fasteignaskattur samkv. fyrsta kafla frv. sé áður fullnotaður, eins og hæstv. atvmrh. hélt fram, þá gæti hér verið dálítið mismunandi, í hvaða bæjarfélagi fasteignin er, t. d. hvort hún er í Hafnarfirði eða í Rvík. Fasteignirnar á þessum tveimur stöðum eru mjög ólíkar. Í Hafnarfirði cr varla nokkurt stórt íbúðarhús; mest eru það lítil einnar fjölskyldu hús, þar sem fátækir verkamenn búa. Í Rvík er aftur á móti mikið af stórum og arðsömum húseignum, bæði íbúðarhúsum, verzlunarhúsum og dýrum skrifstofubyggingum. Ég efast því um, að tiltækilegt væri að leggja háan fasteignaskatt á í Hafnarfirði, vegna þess, hve það yrði þungur baggi fyrir verkamennina, sem með sparnaði og iðjusemi hafa barizt fyrir því að eignast skjól yfir höfuðið. Slíkur skattur yrði ekki annað en nokkurskonar hefnd á þá fátæklinga, sem mestan dugnað hafa sýnt. En það skiptir öðru máli, og ég álít, að vel geti komið til greina að setja slíkan skatt á í Rvík, og þar mundi hann gefa góðar tekjur vegna hinna dýru húseigna

og svokölluðu luxusíbúða, en í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og öðrum útgerðarbæjum mundi hann koma að mjög litlum notum.

Það hefir verið á það minnzt, að tilagið til jöfnunarsjóðs væri of lítið. Ég er á sama máli. Það, sem koma mundi í hlut Hafnarfjarðar, yrði tæplega nóg til að vega á móti því, sem bænum var íþyngt með nýju sveitarstjórnarlögunum. Það hafa undanfarin ár verið greiddar úr bæjarsjóði um 90 þús. kr. vegna utanbæjar þurfamanna, og af því fengizt verulegur hluti endurgreiddur frá þeim bæjarfélögum, sem bezt eru stæð, eins og t. d. Rvík, og það er sannanlegt, að styrkurinn úr jöfnunarsjóði hrekkur ekki einu sinni til að fylla þetta skarð, hvað þá meira.

Hv. 1. þm. N.-M. var að segja, að það væri lægri skali notaður við útsvarsálagningu í Hafnarfirði en í Rvík. Þetta hefi ég nú bara aldrei heyrt, því hefir einmitt verið haldið fram, að útsvör væru há í Hafnarfirði, en ef það er meiningin, að útsvörin í Hafnarfirði séu hærri á lágtekjumönnunum heldur en hátekjumönnunum í hlutfalli við það, sem er hér í Rvík, þá er það merkilegt fyrirbrigði í þessu landi sósíalismans. Ég á bágt með að trúa þessu, en úr því hv. 1. þm. N.-M. heldur þessu fram, og þar sem ég hefi ekki reynt hann að ósannindum ennþá, þá ætla ég að rannsaka þetta seinna. Hitt er annað mál, ef hv. þm. heldur, að hægt væri að bæta upp það, sem Hafnarfjarðarbæ vantar í tekjur, með hækkuðum útsvörum, þá er það misskilningur.

Það er óhætt að segja, að frá 1. okt. eru ekki nema 15–16 manns í Hafnarfirði, sem ekki mega vera í sjúkrasamlagi Hafnarfjarðar vegna þess að þeir hafi svo háar tekjur, svo að hann getur af þessu skilið, að það eru ekki margir menn, sem kæmu þarna til greina, og það er ekki um svo mikið fjárframlag að ræða þarna, að ekki sé réttlætanlegt að fá nýja tekjuöflunarleið. Hitt ætla ég að athuga, því að mér finnst það mjög einkennilegt fyrirbrigði, sem hvergi „existerar“ nema í Hafnarfirði, að sósíalistar skuli gleyma hátekjumönnunum. (PZ: Það er til víðar).