23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Mér þykir það ekki undarlegt, þó að hv. 1. þm. Reykv. finnist Rvík fá lítið samkv. þessu frv., þegar tillit er tekið til þess, að hann flytur frv., sem ætlast til þess, að 13% af tekjum ríkissjóðs séu látin ganga til bæjar- og sveitarfélaga og Rvík verði látin fá liðlega helminginn, sá bær, sem sjálfstæðismenn segja, að sé bezt stæður af öllum bæjum á landinu, til þess að geta létt útgjöldin um 1/3 hér um bil. Hitt er svo annað mál, þörf Rvíkur. Af tekjuskattinum, sem greiddur er nú í Rvík og er 1 millj. og nokkur hundruð þús. kr. eru 700 þús. kr. greiddar af 150 mönnum. Ætli sveitarfélögin væru ekki þakklát ef þau hefðu einn af þessum mönnum til þess að geta lagt á? Rvík hefir þá alla. Það er því ekki undarlegt, þó að hv. 1. þm. Reykv. finnist Rvík fá lítið með frv. því, sem hér liggur fyrir, þegar hann flytur frv. hér í þinginu til þess að geta létt útsvörum af þeim, sem bezta hafa getuna til þess að borga hér í Rvík.

Það er engin furða, þó að hv. þm. Hafnf. sé undrandi, þegar hann sér, hvaða „skala“ er fylgt í Hafnarfirði við niðurjöfnun útsvara. Ég gerði það að gamni mínu í gær, að ég tók 10 tekjuháa menn í Hafnarfirði, líklega 1/3 af þeim, sem hann telur vera þar og athugaði, hvaða útsvör þeir mundu hafa í Rvík og hvaða útsvör þeir hafa í Hafnarfirði, og útkoman var sú, að þeir hefðu átt að hafa 12800 kr. hærra, ef þeir hefðu verið í Rvík. Ef ég hefði tekið þá flesta, geri ég ráð fyrir, að ég hefði náð í þessar 30000 kr., sem hv. þm. talaði um, að Hafnarfjörður hefði ekki getað lagt á.

Ef eftirlitsmaður væri hafður, eins og gert er ráð fyrir í III. kafla l., þá er nauðynlegt, að hann fái aðstöðu til þess að geta gáð að því, að jafnt hreppar og sveitir og kaupstaðir og kauptún noti álagningarmöguleika, sem þau hafa, áður en þau fara að fá af almennu fé styrk, eins og II. kafli frv. ætlast til. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu.