03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég hefi leyft mér að bera fram fjórar brtt. við þetta frv. á þskj. 180, í samræmi við þær aths., sem ég gerði við frv. við 1. umr., og þarf ég í raun og veru ekki að rökstyðja brtt. mínar nánar. Fyrsta brtt. gengur út á það, að undanskilja frá fasteignaskatti í kaupstöðum litla ræktaða bletti, sem eru allt að í ha að stærð. Það er nú svo, að stöðugt er verið að hvetja menn til að rækta, ekki sizt kaupstaðabúana, og fannst mér það þá ekki samræmi, ef farið væri að skattleggja svo mjög smáa bletti, sem hér er um að ræða.

Önnur brtt. mín fer fram á það, að fasteignaskattur af húseignum, sem leigðar eru til íbúðar, skuli vera helmingi lægri, ef hver íbúð er að verðmæti undir 12000 kr., heldur en af húseignum, sem notaðar eru fyrir verzlun, skrifstofur og til atvinnurekstrar. Þetta tel ég nauðsynlegt, til þess unnt sé að koma í veg fyrir, að þessi skattur orsaki hækkun á íbúðaleigu eða að menn skattsins vegna forðist að leggja fé sitt í að byggja hús með smærri íbúðum.

Þriðja brtt. mín er um það, að 20. gr. frv. falli niður, en 20. gr. er um það, að halda megi eftir hluta, eða öllum þeim styrk, er eitt bæjar- eða sveitarfélag á að fá úr jöfnunarsjóði, ef þetta bæjar- eða sveitarfélag getur ekki staðið straum af þeim lánum sínum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir. Um þessa gr. er það að segja, að ríkissjóður hefir nóg ráð til að ná til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem hann er í ábyrgð fyrir, önnur en það að taka jöfnunarsjóðsstyrkinn, og gæti því innheimt þær kröfur með öðru móti, ef á annað borð gæti talizt forsvaranlegt að innheimta slíkar kröfur.

Þá er fjórða brtt. mín um að 22. gr. falli niður, en sú gr. er um það, að taka fjárforræði af þeim sveitar- eða bæjarfélögum, sem þurfa á meiri styrk að halda frá ríkissjóði heldur en jöfnunarsjóðstillaginu eftir II. kafla frv. Við 1. umr. þessa frv. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þessarar gr., og vil ég biðja hv. þdm. að hugsa sig vel um áður en þeir samþ. hana, því það tel ég hið mesta óráð. Það væri þokkalegt ef mjög íhaldssöm og einræðissinnuð ríkisstjórn tæki stjórnina á bæjarmálum t. d. Hafnarfjarðar, Ísafjarðar, Norðfjarðar og fleiri í sínar hendur gegn vilja bæjarmanna sjálfra, en slíkt gæti orðið, ef þessi gr. verður samþ. Ég vil því sérstaklega biðja hv. þdm. að athuga þessa síðustu brtt. mína, sem ég legg höfuðáherzlu á, svo að ég get ekki fylgt frv. nema sérstaklega sú till. og í raun og veru hinar í aðalatriðum verði samþ.