03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekki miklu að svara. Hv. 1. landsk. vildi halda því fram, að eftir brtt. hans væri heimilt að hafa skattinn mismunandi á húsum, eftir því sem viðkomandi hreppsnefnd eða bæjarstjórn teldi viðeigandi. En það er einmitt ekki. Í brtt. er svo ákveðið, að á húsum, sem notuð eru til verzlunar og atvinnurekstrar, skuli skatturinn vera tvöfaldur á við það, sem hann sé á íbúðarhúsum fyrir neðan víst mark. Það á t. d. að leggja á fiskhús tvöfaldan skatt á við þann, sem lagður er á íbúðarhús. (BrB: Það má vera mismunandi skattur á þeim fyrir þessu). Það nær engri átt að binda þetta við svona þröngt ákvæði. Skýring mín á fiskhúsum, sem notuð eru til atvinnurekstrar, er rétt. Skatturinn á alltaf að vera tvöfaldur. Þetta sannar það, sem ég hefi haldið fram áður, að það er ómögulegt að hafa allsherjarreglu, sem gildi jafnt fyrir Rvík og hreppsfélög úti í landi. Það er þess vegna farin rétt leið að minn áliti í 3. gr. frv., þar sem heimilað er, að skatturinn megi vera mismunandi í hverri sveit, eftir því, til hvers húsin eru notuð.

Hv. þm. hneykslaðist mikið á því, að ég sagði, að með niðurfellingu 20. gr. og 22. gr. væri þingið að lögfesta óskilsemina. Hann sagði, að ef það væri rétt hjá mér, þá væri þegar búið að lögfesta hana. Þetta er misskilningur hjá honum. Þegar komin er fram á Alþ. till. um, að undir vissum kringumstæðum skuli það varða vissum viðurlögum, ef óreiða á sér stað í fjármálum sveitar- og bæjarfélaga, þá má segja, ef Alþ. fellir till., að það sé búið að lýsa því yfir, að það vilji engar skorður setja á þetta. Þetta getur hver maður skilið. Það er því ekki vandalaust að fella niður ákvæði, sem fram eru borin á Alþ., því þar með er þingið búið að lýsa yfir, hvernig það litur á málið í hvert skipti. Ég get ekki skilið niðurfellingu 20. gr. og 2.2. gr. á annan veg en þann, að Alþingi, vilji ekki leggja viðurlög við því, ef sveitarstjórnir fara óhyggilega með fé sveitarfélaga.

Að því er snertir innheimtur, sem víkið er að í 20. gr., að ríkisstj. eða eftirlitsmönnunum sé skylt að halda eftir af jöfnunarsjóði því, sem hrepparnir skulda ríkissjóði, þá sé ég ekki annað en þetta sé sjálfsögð ráðstöfun, því ef á að innheimta frá sveitarfélögunum, þá er ekki hægt að innheimta það af neinu öðru en tekjum sveitarfélaganna, og þá sjá allir, að það er eðlilegast að innheimta það af þeim tekjum, sem koma beint frá ríkissjóði.

Hitt er rauði þráðurinn í till. hv. fhn., sem mér hefir skilizt af till. hans og ræðu hans, að hann vill ekki láta krefja skuldirnar, ef bæjar- eða sveitarfélögin skulda ríkissjóði. Það er sannleikurinn í þessu máli. En við lítum svo á, að það sé ekki eingöngu réttmætt, heldur og sjálfsagt til þess að halda við sjálfsbjargarviðleitni bæjar- og sveitarfélaganna, að ríkissjóður gangi eftir sínum lánum hjá þeim eins og hverjum öðrum. Ríkissjóði ber skylda til að sjá um, að fólkið í þeim sveitarfélögum, sem eru í fjárhagslegum örðugleikum, liði ekki nauð, en það er ekki það sama og að ríkissjóður eigi að taka góðar og gildar allar fjárhagsráðstafanir sveitarfélaga, hversu fjarstæðar, sem þær kunna að vera.