03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Bernharð Stefánsson:

Hv. 1. landsk. sagði, að skuldir bæjarfélaganna myndu stafa af því, að bæjarfélögin ættu erfitt með að greiða þær. Ég býst við, að þetta sé undir flestum kringumstæðum rétt, en að hinu leytinu sagði hann í fyrri ræðu sinni, að ríkissjóður hefði ráð bæjarfélaganna í hendi sér, og gæti því innheimt skuldir þær, sem bæjarfélögin kynnu að vera í gagnvart ríkinu. Nú hefir hv. frsm. n. bent á, að það er vitanlega ekki önnur heppilegri leið að fara til þess að innheimta skuldirnar, ef á að innheimta þær á annað borð, en sú, sem gert er ráð fyrir í 20. gr., að halda eftir af því fé, sem ríkissjóði er annars ætlað að greiða bæjar- eða sveitarfélögunum. Hann sagði, að það myndi undir flestum kringumstæðum vera ósjálfrátt, að bæjar- eða sveitarfélögin lentu í vandræðum, og þess vegna ætti ekki að setja þau ákvæði, sem í 22. gr. getur um eftirlitið. Nú býst ég við, að hann hljóti að kannast við það, að það geti þó verið sjálfskaparvíti, ef bæjar- eða sveitarfélag lendir í greiðsluþroti. Og mér skildist, að hann vildi þó engar skorður láta reisa. Það er ekki gert ráð fyrir því samkv. frv., að það sé undir öllum kringumstæðum gert að setja eftirlitsmann, þó bæjarfélag þurfi sérstakrar hjálpar við, heldur er þarna ákvæði um, að það skuli vera heimild til þess. Ég geri ráð fyrir, að flestar landsstjórnir muni haga þessu svo, að ef bæjarfélagið hefir gert það, sem í þess valdi stendur til þess að komast fram úr sínum fjármálum, og þyki ekki hafa hagað sér óskynsamlega, þá sé þetta ekki gert. Það komi þá fyrst til, þegar bæjarfélagið eða sveitarfélagið þykir hafa hagað sér óskynsamlega í fjármálunum. En ég fæ ekki séð, hvar það myndi lenda, ef einstök bæjar- eða sveitarfélög gætu átt kröfu á ríkissjóðinn um að hjálpa sér út úr hverskonar vandræðum, sem þau kunna að lenda í, en ríkisvaldið ætti engan rétt að hafa til eftirlits með því, hvernig fjármálum þeirra er farið.

Ég skal svo ekki tefja tímann frekar. Eins og ég sagði áður, þá finnst mér, að þessar 2 gr. séu alveg sjálfsagðar. Þær hljóta að sjálfsögðu að fylgja þeim ákvæðum, sem eru í 2. kafla frv. Það tvennt er óaðskiljanlegt.