03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar aths. við það, og þá sérstaklega með tilliti til afstöðu Rvíkur til þessa frv. og þess, hvernig það snertir hag þess kaupstaðar. Ég hafði hugsað mér að gera eina eða tvær brtt. við frv. við þessa umr., en ég hefi verið svo óheppinn að vera í rúminu undanfarna daga, og málið hefir því farið framhjá mér. Ég mun því geyma að bera þær fram til 3. umr. Ég get þó lauslega drepið á þetta. Það er fyrst og fremst bráðabirgðaákvæði þessa frv., sem ég myndi gera að till. minni, að falli niður. Mér finnst of langt gengið að fara þannig að, eftir að búið er að útbúa svo önnur ákvæði um möguleikana fyrir styrkjum úr jöfnunarsjóði, að Rvík geti ekki komið til greina, að þá sé sá eini þáttur framlengdur um eitt ár, sem Rvík gæti notið góðs af. Það getur vel verið, að hv. þm. séu ákveðnir í því að vinna á móti Rvík í þessu og láta hana borga, án þess að fá nokkuð í staðinn. En ég verð að segja, að það eru viss takmörk fyrir því, hvað heppilegt sé að ganga langt í þessum efnum. Eins og ég sýndi fram á við 1. umr., þá má heita, að eftir 8. kafla framfærslulaganna sé Rvík útilokuð frá því að njóta nokkurs, þó fátækrabyrðin komi þar þyngst niður. Ég tel því sjálfsagt, að l. komi að fullu til framkvæmda þegar í stað, án bráðabirgðaákvæðisins, sem maður veit ekki nema yrði framlengt að árinu loknu. Ég tel sjálfsagt, að úthlutun úr jöfnunarsjóði fari fram eftir öðrum reglum en 11. gr. tilgreinir. Sá grundvöllur, sem þar er lagður, er svo ósanngjarn í garð sumra kaupstaða, að hann er ekki viðunandi. Það yrði að setja reglur um úthlutun úr sjóðnum, og þá jafnframt að breyta ákvæðum 8. kafla framfærslulaganna.

Ég vil ekki bera fram skrifl. brtt. um þetta nú, þó ef til vill væri hægt að fá samþ. afbrigði frá þingsköpum, því ég get komið þeim að við 3. umr. málsins.