06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég á hér 2 brtt. á þskj. 247. Önnur er í sjálfu sér sjálfsögð, en þar er farið fram á, að aftan við það, sem sagt er í 4. gr. frv., bætist „og lóðir, sem eru til opinberra þarfa“. Það er þannig ástatt, að viða á landinu eru til lóðir, sem eru notaðar til opinberra þarfa, en eru þó ekki í eigu þess opinbera. Þannig er ástatt í Hafnarfirði, að þar er garður, sem ætlaður er til opinberra þarfa, en seinast þegar fasteignaskattur var lagður á í kaupstaðnum, varð töluverð rimma um það, hvort félagið, sem á garðinn, skyldi greiða af honum skatt eða ekki. Nú er það meining mín með þessum viðbæti við gr., að það geti ekki komið til þess, að það verði neinn ágreiningur um þetta og það þurfi úrskurð lögreglustjóra, hvort svona félag á að greiða skatt eða ekki. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá er þessi lóð eingöngu ætluð til opinberra þarfa.

En aðalbreyt., sem ég fer fram á, er á 16. gr. frv., að í stað orðanna „úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga“ komi: að hálfu úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga og að hálfu úr ríkissjóði. — Það er tvennt, sem ætlazt er til, að náist með þessari brtt. Eftir frv. er ætlazt til, að jöfnunarsjóður bæjar- og sveitarfélaga borgi allan kostnaðinn, sem af eftirlitinu stafar. En ég er mjög hræddur um, að ef svo á að verða í framtíðinni, þá muni rísa upp stórt skrifstofubákn og annað, sem því fylgir, sem muni verða til þess að minnka að verulegum mun þá fúlgu, sem annars á að fara til bæjar- og sveitarfélaga. Mér finnst, að beztu skorður við þessu muni verða þær, að Alþ., fjvn. og ríkisstj. húfi á hverjum tíma tækifæri til þess að ákveða, hvað mikið þetta á að verða í framtíðinni. Ég álít, að þetta væri bezt gert með því að það kæmi alltaf til álita þingsins á hverju ári, hve há útgjöldin eiga að vera til þessa. Ég vona, að þar sem hv. þm. eru yfirleitt á því máli, að það beri að hjálpa bæjar- og sveitarfélögunum sem bezt, og þar sem þessi upphæð mun að sumra áliti vera alls ófullnægjandi, þá muni þeir verða með þessari brtt., því ef hún verður samþ., þá hækkar að verulegum mun tillagið til bæjar- og sveitarfélaga frá því, sem það er nú eftir frv.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vona, að hv. d. sýni þessari till. sanngirni, því hún er í sjálfu sér sanngirnistíll. gagnvart bæjar- og sveitarfélögum þeim, sem hér eiga hlut að máli.