06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Bernharð Stefánsson:

Af því að svo stendur á, að hv. frsm. n. er ekki viðstaddur, og þar sem ég er flm. þessa frv., þá vil ég með fáum orðum láta í ljós álit mitt á brtt. þeim, sem fram eru bornar.

Ég skal þá fyrst nefna brtt. á þskj. 247, frá hv. þm. Hafnf. Fyrri till. á þessu þskj. álít ég, að vel megi samþykkja, og sennilega er hún réttmæt, því það gæti frekar orkað tvímælis, ef frv. yrði að þessu leyti óbreytt, um land, sem ætlað er til opinberra þarfa, en ekki er beinlinis eign bæjarfélagsins. Ég tel því rétt að samþ. þessa brtt. Aftur á móti get ég ekki fallizt á síðari brtt. á þessu þskj., og það er af svipuðum ástæðum og ,þeim, sem vakað hafa fyrir hv. flm. Hann var að tala um, að hann óttaðist, að út af ákvæðunum um sérstakan eftirlitsmann bæjar- og sveitarfélaga myndi rísa upp mikið skrifstofubákn í sambandi við eftirlitið. Hann vildi, að því er mér skildist, fyrirbyggja það með því, að ákveðið væri, að helmingurinn af kostnaðinum við eftirlitið skyldi greiðast úr ríkissjóði. Ég held, að það yrði meiri hætta á því, að þetta yrði dýrt og varanlegt, ef kveðið er svo á, að það skuli greiðast úr ríkissjóði. Það er engin vissa fyrir því samkv. frv., að tekjur þær, sem ætlaðar eru til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, verði áframhaldandi. Það getur farið svo, ef ástandið í landinu batnar, að það þyki óþarfi að hafa þennan jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, svo hann verði þar af leiðandi lagður niður. En þá er líka þetta starf niður fallið, ef ekki er lengur hægt að greiða fyrir það. Ég sé ekki annað en það sé eðlilegt, að ef ríkið ætlar að veita bæjar- og sveitarfélögunum þennan sérstaka stuðning, sem í 2. kafla frv. felst, þá eigi það jafnframt að hafa sérstakt eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarfélaga, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég hýst við, að þetta eftirlit myndi miklu fremur verða lögfest til frambúðar, ef 2. brtt. á þskj. 247 verður samþ. Annars get ég ekki skilið, að þetta muni miklu fjárhagslega eða mikið dragist af þessu fé vegna kostnaðar við þetta eftirlit. Ég get ekkert fullyrt um, hvernig þetta verður framkvæmt, en líklegt þætti mér, að einhverjum starfsmanni stjórnarráðsins verði falið þetta verk sem aukavinna, og það ætti ekki að þurfa að kosta mikið, enda skil ég ekki í því, að þarna komi sérstök skrifstofa.

Þá er brtt. á þskj. 258. frá hv. 3. landsk., sem fer fram á, að skattinnheimtumenn ríkissjóðs innheimti líka þann hluta fasteignaskattsins, sem lagður er á til bæjar- og sveitarfélaga, og ef hann innheimtist ekki að fullu, þá sé greitt hlutfallslega til bæjarfélagsins og ríkissjóðs. Ég tel það ekki heppilegt að fara að blanda skattheimtumönnum ríkissjóðs í það að innheimta bæjargjöldin, sem innheimt eru eingöngu hjá borgurum bæjarfélagsins, og það sé ekki meiri ástæða til þess heldur en að láta þá innheimta útsvörin. (SÁÓ: Það getur vel verið, að það komi siðar). Ég sé ekki annað en að ástæður þær, sem hann nefndi eigi eins við um útsvörin. Ég myndi telja heppilegra, að þessi till. yrði ekki samþ.

Þá er brtt. á þskj. 263, frá hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir ekki verið viðstaddur fyrr en nú og hefir ekki talað fyrir henni. En hún er þess efnis að lækka framlag ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins um 200 þús. kr. Ég er vitanlega alveg á móti því að minnka féð, sem hreppum og bæjarfélögum er ætlað í frv. Nú veit ég, að hv. þm. hefir borið fram brtt. við annað frv., sem liggur fyrir d., þar sem hann mun ætla að bæta bæjar- og sveitarfélögum það upp, ef hann fengi vilja sinn um þetta frv. En ég álít, að með því móti mundu þessar ráðstafanir koma að minna gagni. Ef tillögur hv. þm. við bæði frv. væru samþ., mundu þær draga úr þeirri hjálp, sem ætlazt er til, að veitt sé eftir þessu frv. einmitt þar, sem þörfin er mest. Ég leyfi mér því að leggja til, að brtt. á þskj. 263 verði felld.