06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Bernharð Stefánsson:

Ég ætla aðeins að segja fá orð. Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki sjá, að Rvík hefði meira gagn af I. kafla frv. en aðrir kaupstaðir og benti á að Rvík hefði þegar fasteignaskatt. Ég hefi bent á það, að fasteignir í Rvík væru meira arðberandi en á öðrum stöðum; þar af leiðandi gæti verið fært að hækka skattinn hér jafnvel á hámark, þó það væri ekki fært á öðrum stöðum.

Þá sagði hv. þm., að ákvæðunum um jöfnunarsjóð væri frestað til óhagræðis fyrir Rvík. Ef honum finnst þetta vera svo, ætti hann að koma fram með brtt. um að feila bráðabirgðaákvæðin niður. En þessi bráðabirgðaákvæði eru ekki sett til að skaða Rvík, heldur í þeim tilgangi að koma þeirri jöfnun á fátækraframfærinu í kring, sem átti að vera framkvæmd nú þegar. Eftir að náð er fullum fátækrajöfnuði, sé ég enga ástæðu til, að bráðabirgðaákvæðin verði framlengd, og það er ekki nema óþörf tortryggni að búast við því.