18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil leyfa mér að bera fram brtt. við þetta frv., á þskj. 346. Fyrir 2. umr. málsins fékkst ekki samkomulag í n. um að gefa sameiginlegt álit. En till. er á þá leið, að aftan við 10. gr. bætist við 2. málsgr.: Ennfremur skulu öll útsvör þeirra manna, sem taka laun sín úr ríkissjóði eða frá stofnunum, sem reknar eru af ríkinu, renna óskipt í jöfnunarsjóð.

Það klingir jafnan hjá fulltrúum Reykjavíkurbæjar, að alltaf sé gengið á rétt Rvíkur. Þarf ekki annað en minna á kreppuhjálp til bæjar- og sveitarfélaga. Ennfremur að með breyt. á fátækralöggjöfinni sé opinberlega gengið mjög á rétt Rvíkurbæjar, og nú einnig með hinni nýju löggjöf um jöfnunarsjóð sveitar- og bæjarfélaga. Þegar maður athugar það, þá kemur í ljós, að af ríkislaunuðum mönnum í Rvík getur bærinn tekið útsvör um hálfa milljón á hverju ári. Það er ekki svo rýr tekjustofn álitinn í hverju öðru bæjar- og sveitarfélagi, og slík hlunnindi fram yfir nokkurt annað sveitarfélag á landinu, að það er sjálfsagður hlutur, að jöfnuði verði komið á. Það eru hundruð og jafnvel þúsundir gjaldþegna í Rvík, sem þjóðfélagið borgar, og eru því einhverjir vissustu gjaldþegnar. En í mörgum sveitarfélögum er ekki einn einasti maður launaður af því opinbera, en þykir hreinasti fengur að hafa þó ekki sé nema einn láglaunamann búsettan í sveitarfélaginu, og er sótt um slíka menn af miklu kappi alstaðar á landinu. En í þessu bæjarfélagi eru svo tiltölulega margir menn, sem borgað er af ríkinu, að það er freklegt ranglæti af hendi hins opinbera, hversu mikil hlunnindi þessu bæjarfélagi eru veitt framar öllum öðrum bæjarfélögum á landinu. Ég sé því ekki annað en þegar nú kemur jöfnunarsjóður, sem á að jafna milli hinna einstöku sveitar- og bæjarfélaga útgjöld þeirra, sé það fullkomlega réttmætt, að gjaldþegnar, launaðir af ríkinu, borgi hlutfallslega jafnt til allra sveitar- og bæjarfélaga á landinu. Ég skal játa, að það er ekki nægilega tryggilega gengið frá því í þessari löggjöf, sem liggur fyrir, hvernig þessu fé skuli varið jafnt til allra, heldur er beinlínis gengið út frá því, að þau verst settu framfærsluhéruð, eins og bæjarfélögin telja sig fremur en sveitarfélögin, njóti sérstakra hlunninda, og verða sveitirnar útundan að nokkru leyti frekar en eftir löggjöfinni, sem er. En ef þetta er samþ. nú, þá sé ég ekki nokkra erfiðleika á, að næsta Alþingi breyti löggjöfinni, til að sjá um jafnari úthlutun á þessu fé til allra sveitar- og bæjarfélaga á landinu. Með þetta fyrir augum hefi ég leyft mér að bera þessa brtt. hér fram. Og ég tel, að ef hún mætir fullkomnu skilningsleysi og andúð hjá þessari hv. þd., sé það sönnun þess, að Reykjavíkurbær eigi allt of mikil ítök í þingmönnum, — ef þeir vilja ekki ganga í þessa átt, sem hér er farið fram á, að jafna nokkuð á því sviði, þar sem nú ríkir fullkomið ranglæti.