18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Einar Olgeirsson:

Viðvíkjandi þessu frv. vil ég geta þess, að við 2. umr. málsins flutti ég brtt. við það, en hefi ekki séð mér fært að reyna að koma fram öðrum brtt. við það. En ég get þó ekki látið hjá líða við þessa síðustu umr. málsins að benda á, hvað er verið að gera í sambandi við álagningu fasteignaskattsins og ráðstöfun til jöfnunarsjóðs. Nú hafa sérstaklega farið fram umr. um afstöðu Rvíkur til málsins, og það hefir verið hér tilhneiging til að segja, að það sé farið illa með hana. Við verðum að muna eftir því, þegar um þetta er rætt, að allir menn, sem eitthvað mega sín hér á landi, eru saman safnaðir í Rvík. Ef litið er yfir skýrslu, sem fylgir sjálfu frv., þá sést þetta greinilegast á því, hversu skattarnir eru miklu meiri í Rvík en annarsstaðar. Það er hinsvegar vitanlegt, að það stendur sérstaklega á um Rvík að því er snertir innheimtu skattanna hjá alþýðunni og um það, hvernig tekjunum er náð í bæjarsjóðinn. Það er nauðsynlegt í þessu sambandi að athuga það, að í Rvík eru útsvörin nú komin yfir 3 millj. kr., og eftir fjárhagsáætlun næsta árs er lagt til, að þau verði hækkuð um 10%. Ef fasteignaskatturinn í Rvík væri notaður til hins ýtrasta, þá mundi það gefa um 1 millj. kr. í tekjur, og þó að hann væri ekki notaður til hins ýtrasta, þá mundi hann þó alltaf geta gefið af sér 600-700 þús. kr. tekjur í bæjarsjóð. Það mundi þýða, að hægt yrði að lækka útsvörin á þeim verst stæðu. En eins og Rvík hefir verið stjórnað, þá er þar skemmst af að segja, að tekjurnar hafa verið teknar af þeim, sem sízt mega við að borga, með óhæfilegri álagningu á ýmsar nauðþurftir manna, sem bærinn selur, svo sem gas og rafmagn. Það er kunnugt, að álagningin á rafmagnið er um 100% og á gasið um 60%. Hér er notuð tollaaðferðin. Sama aðferðin, sem hv. þm. G.-K. var að deila á ríkisstj. í eldhúsumr. fyrir að nota við öflun tekna í ríkissjóð. En viðvíkjandi fasteignaskattinum vil ég benda hv. þm. á það, að þegar útsvör eru lögð á, þá er með l. ákveðið, hvað þau megi vera há. Bæjarstjórnunum er ekki gefið það frjálst að leggja á menn eins há útsvör eins og þeim þóknast í hvert skipti. Ég álít, að Alþ. ætti hér alveg eins að setja fastar skorður um fasteignaskattinn. Mér virðist sem þetta frv., eins og það nú litur út, sé beinlínis í þá átt að gefa meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur ný tækifæri til óheiðarlegrar fjáröflunar í bæjarsjóð.