13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Gísli Guðmundsson:

Þetta frv., sem hér er til 2. umr. og prentað á þskj. 64, er, eins og þar segir, flutt af sjútvn., en eftir till. hæstv. ríkisstj. Núna á milli umr. hefir n. tekið frv. til nýrrar athugunar. Þegar það var til athugunar á síðasta Alþingi, var ákveðið að senda það til umsagnar til allra starfandi vélbátatryggingarfélaga á landinu. Umsagnir hafa borizt frá nokkrum þeirra, og þó að einungis ein af þeim hefði ýtarlegar aths. um einstakar greinar í frv., en á öðrum væri lítið að græða, taldi n. sjálfsagt að endurtaka frv. og taka bendingarnar til greina, eftir því sem henni þótti rétt.

Ég skal þá gera grein fyrir brtt. n. á þskj. 115. Þær brtt. er öll sjútvn. sammála um. 1. brtt. er við 2. gr. og snertir stofnsjóðsgjöld. Í frv. er svo fyrir mælt, að skipaeigendur greiði 1% af vátryggingarupphæð hvers skips í stofnsjóð um leið og vátrygging fer fram í fyrsta sinn. En brtt. fer fram á, að undanþegnir gjaldinu séu þeir skipaeigendur, er þá þegar eiga upphæð, sem nemur stofnsjóðsgjaldi eða meiri, í stofnsjóði starfandi bátaábyrgðarfélags, því að þá virðist ósanngjarnt að krefja þá um nýtt stofngjald, þótt bátaábyrgðarfélag þeirra gangi inn undir þessi lög.

2. brtt. er við 3. gr. og þess efnis, að ekki geti orkað tvímælis, hvar skip skuli vátryggja. N. telur það geta valdið ágreiningi, sem í frv. segir, að vátryggja skuli í umdæmi því, sem báturinn er skrásettur í eða gengur til fiskveiða frá, og vill því binda það við skrásetningarumdæmið eingöngu.

3. brtt. er við 6. gr. frv., og er a-liður hennar eiginlega mjög lítil breyting. En í b-liðnum er breytt ákvæði um þóknun til framkvæmdarstjóra. Frv. ákveður, að hann fái að launum 4% af öllum innheimtum iðgjalda. En n. þótti réttara, að þetta væri á valdi stj. í hverju félagi, því að vel mætti vera, að gjöldin sjálf, sem inn væru komin, yrðu ekki réttur grundvöllur til að byggja launagreiðslur á.

4. brtt. er við 7. gr. Þar er stjórn vátryggingarfélags heimilað að setja eftirlitsmenn til að tryggja sér, að vátryggingarskilyrðum sé fullnægt. Þetta er meðfram sett inn í frv. með það í huga, þegar umdæmi vátryggingarfélags nær yfir marga útgerðarstaði, þar sem félagsstj. sjálf getur ekki haft eftirlitið.

5. brtt. er viðbót við ákvæði 8. gr. um það, hverjir hafi atkvæðisrétt. Yfirleitt hafa hann aðeins félagsmenn, en hér er gerð undantekning um þá, sem veð hafa í skipunum.

6. brtt. er við 9. gr., og er þar eiginlega aðeins um leiðréttingu að ræða.

7. brtt. er við 12. gr. Hún er um það, að í stað þess, sem gert er ráð fyrir í frv., að árleg skoðun fari fram á öllum vátryggðum skipum, skuli hún ekki vera lögboðin nema á 2 ára fresti. N. leit svo á, að það skapaði óþarfa kostnað. — Það má ekki blanda þessari vátryggingarskoðun saman við þá venjulegu skoðun, sem fer fram vegna öryggis skipa og helzt vitanlega jafnt fyrir þessu.

8. brtt. er við 13. gr. og um það, að vátrygging falli ekki úr gildi við eigendaskipti, nema nýi eigandinn flytji skipið úr umdæmi félagsins. Þetta hygg ég, að sé svo eðlilegt ákvæði, að ekkert sé við það að athuga.

9. brtt. er viðbót í 18. gr. frv. og þess efnis, að þegar úrskurðað hefir verið,að skip sé óbætanlegt, hafi vátryggingarfélagið þó ávallt rétt til að láta gera við skipið á sinn kostnað, ef það getur síðan skilað því í skoðunarfæru standi.

10. brtt. er við 31. gr. og um það, að gera skuli veðhafa aðvart, áður en trygging er felld úr gildi vegna vangreiðslu iðgjalda. Þá geta veðhafar greitt iðgjöldin, ef þeir vilja.

Loks er 11. brtt. við 33. gr., um gerðardóm. Það eru aðeins orðabreytingar til þess að gera lagaákvæðin alveg ótvíræð.

Um þessar brtt. varð n. sammála. En á þskj. 116 er brtt. í tveim liðum borin fram af tveim mönnum í n., hv. þm. Ísaf. og hv. 6. þm. Reykv., og var meiri hl. n. andstæður þeim till. Meiri hl. taldi, að sú aukna áhætta, sem af þeim ákvæðum leiddi fyrir félögin, sé mjög varhugaverð, og mun greiða atkv. móti þeim.

Ég vil að lokum rifja upp nokkuð af sögu þessa máls. Á Alþingi 1936 var frv. fyrst borið fram af sjútvn. að tilhlutun ríkisstj. Það hafði upphaflega að mestu verið samið af forstjóra Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og forseta Fiskifélags Íslands. Einnig hefir frv. gengið til erlends sérfræðings, sem gerði við það ýmsar aths. Með hliðsjón af þeim og öðru, sem fram kom, gerði sjútvn. breytingar á frv. áður en hún bar það fram hér á þingunum 1936 og 1937. Á síðasta vori var það sent til allra starfandi vátryggingarfélaga á landinn með þeim árangri, sem ég hefi þegar getið.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Öllum er vitanlegt, að það er mesta nauðsynjamál, að löggjöf sé sett í þessu efni. Vitanlega er það óviðunandi ástand, að mikið af veiðiflotanum sé ótryggt og að t. d. skip, sem verða fyrir árekstri við önnur skip ótryggð, fái ekki réttmætar bætur. — Það er líka mjög æskilegt fyrir þá stofnun, sem sett er upp með l. til að annast tryggingar fyrir fiskiflotann, að tryggari grunnur sé settur undir þá starfsemi, og sérstaklega að eftirlitið með skipunum sé gert öruggara.