13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil bæta því við orð hv. þm. N.- Þ. um undirbúning þessa máls, að tillit hefir verið tekið til ýmissa bendinga úr fleiri áttum en hann taldi, m. a. frá síðasta fiskiþingi, en þar var málið tekið til allrækilegrar athugunar. Ég tel því, að það hafi nú fengið þann undirbúning, að sjálfsagt sé að afgr. það sem lög frá þessu þingi.

Við hv. 6. þm. Reykv. eigum brtt. á þskj. 116. Þar er í a-liðnum lagt til að heimila, að félögin megi hafa í eigin ábyrgð á einu skipi allt að 25 þús. kr., í stað 15 þús., sem frv. mælir fyrir um, þó aðeins með vissum skilyrðum, þannig að fyllilega sé tryggt, að félögin eigi sjóð, er standi fyrir vátryggingunni. Ég tel mjög nauðsynlegt að rýmka svo þetta ákvæði, því að hér á landi starfa nú a. m. k. þrjú félög, sem yrðu að draga verulega saman starfsemi sína, ef hámarkið yrði l5 þús. Eitt félagið er við Eyjafjörð og hefir raunar undir mest allt Norðurland, annað er á Ísafirði, þriðja er bátaábyrgðarfélagið í Vestmannaeyjum. Þessi félög eiga talsvert miklar eignir, og væri hart aðgöngu fyrir þau, ef starfsmöguleikar þeirra væru rýrðir. Eftir þeim upplýsingum, sem n. eða við tveir í minni hl. höfum fengið, verður að álíta það hættulaust að færa hámarkið upp í 25 þús. kr. á skip með þeim varnagla, sem sleginn er í brtt., síðara lið: „Þó skal félögum því aðeins heimilt að hafa yfir 15000 kr. í einu skipi í eigin tryggingu, að félagið eigi fastan sjóð, er nemur minnst 10% af þeim hluta vátryggingarupphæðar, er félagið ábyrgist, og hafi meðmæli banka eða annara peningastofnana, sem ávaxta sjóði félagsins“. — Ég vil því eindregið mæla með því, að meðal þeirra brtt., sem hér liggja fyrir og eru til bóta, verði þessi brtt. frá mér og hv. 6. þm. Reykv. einnig samþ.