13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að segja annað en það, að ég bar þarna fram ósk áðan til sjútvn. um það, hvort hún mundi sjá sér fært að taka til athugunar möguleikana fyrir að færa málið yfir á það svið, sem ég benti á. Ég beindi þessum orðum vitanlega sérstaklega til frsm. n., en ég hefi ekki fengið nein svör um þetta. Ég vil aðeins endurtaka þessa ósk mína og jafnframt óska þess, að ég fengi svarið með nægjanlegum fyrirvara til þess að hafa tóm til að athuga um brtt., sem ég mundi e. t. v. bera fram. Ég mundi bera mig saman við hv. þm. Vestm. um þær till. Eins og kunnugt er, er félag í Vestmannaeyjum, sem hefir í tilefni af þessu frv. sent áskorun og ósk til Alþingis um að fá að starfa sjálfstætt utan þess ramma, sem mynda á eftir þessu frv. Ég vil vita, hvort ekki er hægt að finna líklega leið til að verða við slíkri ósk, og get ég geymt mér frekari umr. um það atriði. En út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að lögð mundu verða til grundvallar við ákvörðun tryggingargjalda í vátryggingarfélögunum þau gjöld, sem gilt hafa í hinum eldri félögum, þá býst ég við, að þetta geti nokkuð raskazt vegna ákvæða frv. um stærð áhættusvæða, þannig að fleiri félögum mundi þurfa að steypa saman,

sem vitanlega hafa mishá iðgjöld, vegna misjafnrar aðstöðu á hinum ýmsu stöðum. Þetta mundi kannske ekki snerta Vestmannaeyjar, ef þær héldu áfram að starfa sem sérstök heild, en mér skildist þó á hv. þm. Ísaf., að bæta ætti við Vestmannaeyjar allri suðurströndinni. Nú sem stendur er að vísu ekki mikil útgerð á suðurströndinni, en þar eru hafnleysur og hættur miklar fyrir skip, einkanlega á vetrarvertíðinni, þegar útgerð yrði þó helzt stunduð þar. Það lítur því út fyrir, að vátryggingargjöldin í Vestmannaeyjum gætu nokkuð farið eftir því, hve mikil útgerð yrði á suðurströndinni, en út í það skal ég ekki fara frekar að sinni.

Hv. þm. Ísaf. var að tala um aðstöðumun og að það mætti ekki miða við vátryggingargjöld af nýjum bátum. Ég miðaði við alla báta á Akranesi, bæði gamla og nýja, sem tryggðir eru hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands.