21.10.1937
Efri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

2. mál, atvinna við siglingar

*Jóhann Jósefsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég tók það fram þegar í upphafi máls míns, að ég talaði ekki með það fyrir augum að „krítisera“ gerðir hæstv. ráðh. í þessu efni, heldur þvert á móti. En hitt veit ég, að hæstv. ráðh. hlýtur sjáifur að samþykkja, að undanþágur slíkar sem þessar eru óæskilegar, og ætti aldrei að grípa til þeirra nema þegar neyðarástand er fyrir hendi. Mér skildist á hæstv. ráðh., að honum mundi ekki vera fyllilega ljóst það ástand, sem ég var að lýsa, og skal honum það ekki neitt til saka fært, en ég tel, eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið um þessi efni, að í ýmsum iðngreinum sé það að verða að hreinu og beinu böli, fyrst og fremst gagnvart ungum mönnum, hversu þröngur aðgangur er að því að fá að læra nokkrar iðngreinar, og þetta böl verður síðar stærra og umfangsmeira, því að það kemur út í þeirri mynd síðar meir, að það verður hörgull á fullmenntuðum mönnum í ýmsum iðngreinum, og þar af leiðandi leiðir það á vissum tímum til undanþágugjafar af hálfu stjórnanda landsins, eins og hér hefir orðið. Það er bezt að segja eins og er, að orsakirnar að þessum þrengingum liggja aðallega hjá vissum hópi manna, sem hafa öðlazt réttindi í ýmsum iðngreinum og telja sínum hag bezt borgið með því að setja rammar skorður við því, að nokkrir bætist við þennan hóp. Þarna ætla ég, að meinið liggi, en þetta virðist í fyrsta lagi vera mjög mikið óréttlæti gagnvart hinni yngri kynslóð, og í öðru lagi er það ákaflega óviturlegt gagnvart þjóðfélaginu, því að ekki endast menn eilíflega til þess að leysa þessi störf af hendi, og þess vegna verður endirinn sá, að þjóðfélagið verður mjög miklu verr statt með hæfa starfskrafta en ella. Nú má hæstv. ráðh. ekki taka þetta svo, að ég sé að deila á hæstv. stjórn fyrir þetta ástand, en ég tel rétt að vekja athygli hæstv. stj. á þessu ásigkomulagi. Ég er að vísu fyrir löngu búinn að koma auga á þessi vandkvæði við það að brjótast í því að reyna að koma ungum mönnum í atvinnu, en eftir að ég hafði átt tal við einn af þeim mönnum, sem kenna vélstjóraefnunum, og heyrt hann segja frá því, hvernig horfir með framtíð sérstaklega þeirra stéttar manna, sem hér um ræðir í þessu frv., þá sannfærðist ég enn betur um nauðsynina á því að lagfæra þetta.

Ég held, að ég hafi ekki haldið fram áður í ræðu minni, að það væri skortur á lærðum rafvirkjum sem stendur, en ég tel eðlilegt, að með aukinni virkjun vatnsfalla og notkun rafmagns í landinu verði ekki hægt að fá hæfa rafvirkja til ýmissa starfa. Og þar sem við höfum eins góðum mönnum á að skipa í þessu landi sem öðrum, tel ég rétt, að þeim sé gefið tækifæri til þess að beita sínum kröftum, og því illt það ástand, sem nú ríkir í ýmsum greinum, sem fagþekkingu þarf til, að ýms öfl hafa torveldað svo aðgang að þeim, að til vandræða er fyrir þá, sem vilja ganga þessar brautir, og til enn meiri vandræða fyrir þjóðina.