23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Ég á hér á þskj. 159 brtt. við frv. þetta, sem er í samræmi við þá skoðun, sem ég lét í ljós við 2. umr. þessa máls hér í hv. deild, að ég teldi tryggilegri afgreiðslu þessa máls á þeim grundvelli, að þeim vátryggingarfélögum, sem nú starfa, yrði gefinn frestur til þess að starfa áfram á sama grundvelli og nú, þar til sýnt væri, hvaða kjör vátryggingarfélög stofnuð á grundvelli þessa frv. hefðu að bjóða. Þetta virðist og vera þeim mun sjálfsagðara. þegar þess er gætt, að nær öll vátryggingarfélögin úti á landi munu hafa óskað þess að fá að starfa áfram og jafnframt andmælt því að ganga undir ákvæði frv. þessa. Það mun aðeins eitt vátryggingarfélag hafa látið í ljós samþykki sitt við frv., en þó með því skilyrði, að gerðar yrðu á því nokkrar breytingar. Hinsvegar er t. d. vitað, að komið hafa mjög ákveðin tilmæli frá vátryggingarfélagi Vestmannaeyja, um að verða undanþegið ákvæðum frv. þessa, ef að lögum verður. Auk þessa er það kunnugt, að útgerðarmenn í þeim kauptúnum, þar sem ekki eru til vátryggingarfélög, en menn hafa tryggt báta sína hjá öðrum vátryggingarfélögum, óska eindregið að fá að halda áfram þeim vátryggingum, sem þeir hafa nú, a. m. k. á meðan ekki sé útséð um, að það fyrirkomulag, sem í frv. felst, sé öruggara.

Með tilliti til þessa hefi ég flutt brtt. um, að sett verði inn í frv. ákvæði til bráðabirgða, sem undanþiggi vátryggingarfélög um 5 ára skeið að ganga undir ákvæði þessara laga, og að þeir einstaklingar, sem vátryggt hafa báta sína í innlendu vátryggingarfélagi fái að halda því áfram. Með þessu er því alls ekki gengið í berhögg við aðaltilgang þessara laga, sem sé að bátar séu almennt vátryggðir. Á öðru þskj. hefir komið fram brtt., sem gengur í svipaða átt og þessi brtt. mín, en tekur aðeins útyfir annað atriði hennar, nær ekki til þeirra, sem vátryggja í öðrum vátryggingarfélögum en bátavátryggingarfélögum. Ég býst við, að samkomulag náist um að taka till. þessa aftur.

Þá er annar liður brtt. minnar. Hann gengur út á það, að skyldutryggingin falli ekki á opna vélbáta hinn sama tíma og undanþágan í fyrri lið till. er miðuð við, eða 5 ára bil. Brtt. þessi er miðuð við það, að til eru lög um vátryggingu opinna vélbáta, sem ekki eru nema 2 ára gömul, og því ekki fengin reynsla fyrir því ennþá hvernig þau muni reynast. Mér er ekki heldur kunnugt um, að frá bátaeigendum hafi komið fram óskir um breyt. á þessum lögum, eða umkvartanir um, að þeir geti ekki notfært sér þau, að svo miklu leyti, sem ástæða þykir til að tryggja opna vélbáta. Annars er það nú svo, að samkv. ákvæðum frv. þessa, þá er bátatrygging hinna opnu vélbáta alltakmörkuð, þar sem ekki á að bæta tjón á þeim, nema ef þeir farast og fyrir þeim skaða, sem á þeim kann að verða, ef þeir nauðlenda. En nú er því þannig háttað um útgerð opinna vélbáta, a. m. k. hér við Faxaflóa, að þeir eru lítið notaðir nema um sumartímann, þann tíma ársins, sem sjósókn að öllum jafnaði er hættuminnst, og því sízt hætta á, að bátarnir skemmist. Er vátryggingin á þeim því ekki mjög mikils virði. Það kann að þykja nokkur bót, að í frv. eru ákvæði um, að ef bátur liggur fyrir festum um nokkurn tíma, þá skuli heimilt að endurgreiða eitthvað af iðgjaldinu, en þetta er ekki ákveðnara en það, að í 32. gr. frv., sem þessi heimild er í, er hvergi sagt, hvað þessar ívilnanir megi vera miklar handa bátaeigendum, sem ekki nota báta sína nema lítinn tíma ársins, því að alltaf á þó einhver trygging að vera á bátunum.

Að þessu athuguðu fæ ég ekki annað séð en að það sé sanngjarnt, að þar sem lögin um tryggingu opinna vélbáta eru til, og ekki eldri en tæpra 2 ára, þá megi nota þau ennþá um 5 ára bil a. m. k., og því sé rétt að heimila þessa undanþágu.