13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það varð að samkomulagi í sjútvn. að málið skyldi ganga til 3. umr. Eins og drepið er á í nál., er fylgi eins nm. bundið við það, að brtt., sem hann hefir þegar flutt, nái fram að ganga, en verði ekki svo geri ég ráð fyrir, að fylgi hans við frv. sé þrotið, eins og hann mun sjálfur gera grein fyrir.

Frv. þetta er sama eðlis og mörg önnur frv., sem hafa legið fyrir þinginu fyrr og síðar. Það snertir eitt af þeim málum, sem eru töluvert áhrifarík í okkar þjóðfélagi, þ. e. tryggingamál. Það má með sanni segja, að við séum á ýmsan hátt mjög skammt á veg komnir í tryggingamálum, og það, sem við höfum hingað til bjargazt við, eru aðallega skipti við útlend tryggingafélög. — Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta. Reynslan er sú, að hér á landi hefir ekki lánazt að koma á tryggingum nema þær væru lögboðnar. Frjálsar tryggingar hafa farið í handaskolum, og þau kjör, sem einkum hin smærri skip hafa átt við að búa, hafa verið lítt bærileg. því er ég þeirrar skoðunar, að ekki verði hægt að koma á skipulagningu þessara mála nema með skyldutryggingu, og því er ég fylgjandi þessu frv. Ég skal játa, að það eru atriði í þessu frv., sem ég tel, að betur hefðu mátt fara, en vegna þess, hve ég tel mikla nauðsyn bera til, að þetta mikilvæga mál nái fram að ganga, mun ég ekki að þessu sinni flytja brtt. við frv.

Í 15. gr. er mælt svo fyrir, að þegar greiddar eru tjónbætur fyrir viðgerð á skipi, sem er eldra en eins árs, skuli draga frá viðgerðarkostnaðinum eða matsverð 3% fyrir hvert ár, allt upp að 9 ára gömlum skipum. Eftir að skipin eru orðin 9 ára á ekki að fást útborgað nema 75% af viðgerðarkostnaðinum. Þessi ákvæði eru mjög út í bláinn. Ég játa það, að 9 ára gamalt skip, sem verður fyrir tjóni og fær viðgerð, getur orðið betra eftir viðgerðina en áður, og teldi ég sanngjarnt, að það, sem skipið hefði aukizt í verði við viðgerðina, yrði dregið frá skaðabótaskyldu félaganna. En að miða þetta við 25%, er algerlega út í bláinn. Ég hefði kosið að fá þessu breytt, en mun þó ekki gera það að neinu stóratriði. Ég held, að rétt sé að fá einhverja reynslu um þessi lög; það er þá hægurinn hjá að breyta þeim síðar.

Það eru ýms smærri atriði í frv., sem ég hefði óskað að hafa á annan veg, en ég býst við, að breytingar á frv. úr þessu gætu orðið til þess að það dagaði uppi, og hefi ég því afráðið að flytja engar brtt.

Ég geri ráð fyrir, að þessar tryggingar verði óvinsælar í byrjun, en svo hefir það alltaf verið um tryggingar. Ekki komst neitt lag á brunatryggingarnar, fyrr en þær voru lögboðnar. En nú er komið svo, að flestir þeirra, sem við þær búa, munu viðurkenna, að þær eru til mikilla bóta. Það hefir brunnið við, að við Íslendingar misskildum allar tryggingar. Mönnum hættir við að líta á iðgjöldin sem fé, er sjálfsagt sé að ná í aftur, og það sé ranglæti að borga iðgjöld árum saman og fá ekkert aftur. Ég hefi grun um, að það ólag, sem er á tryggingarmálum skipa, eigi rót sína að rekja til þessa skakka hugsunarháttar. Tryggingarnar eru ekkert annað en félagsskapur til að bera uppi þau slys, er fyrir kunna að koma. Sá, sem aldrei verður fyrir tjóni, er undir flestum kringumstæðum heppnari en sá, sem fyrir tjóninu verður. Okkur er þetta ljóst um brunatryggingarnar. Sá, sem geldur iðgjöld sín alla æfi og aldrei brennur hjá, er heppnari en sá, sem verður fyrir brunatjóni. Annars eru allar tryggingar tvíþættar. Með tryggingum á að bæta tjón, sem verða, en einnig að fyrirbyggja tjón, og á það að vera aðalþátturinn. Í brunatryggingunum er þessi skilningur að sigra, og hefir Brunabótafélag Íslands unnið virðingarvert starf til að gera mönnum þetta ljóst. Þó að nauðsynlegt sé að fá tjón bætt, þá er þó nauðsynlegra að fyrirbyggja, að tjón verði. Brunabótafélagið hefir gengið á undan öðrum í því að veita betri tryggingarskilyrði, ef umbúnaður allar er góður. Það sama er uppi á teningnum með sjúkratryggingarnar. Sá maður er hamingjusamari, sem allt af er hraustur og þarf aldrei að fá endurgreitt af iðgjöldum sínum, en hinn, sem liggur lengi veikur og þarf að fá stórar útborganir.

Ég er sannfærður um, að verði þetta frv. að lögum, verður það til þess að koma betra skipulagi á tryggingar fiskiflotans en verið hefir, en þær eru sannast að segja í svo hörmulegu ástandi, að slíkt má ekki lengur líðast, þó að til séu heiðarlegar undantekningar. — Um brtt. hv. þm. Vestm. mun ég ekki ræða fyrr en hv. flm. hefir mælt fyrir henni.