21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Pétur Ottesen:

Við 3. umr. hér í deildinni flutti ég brtt. við þetta frv., þar sem farið var fram á, að ákvæði til bráðabirgða í lok frv. veitti undanþágu frá þessari skyldutrygging. um fimm ár. Till. mínar náðu ekki fram að ganga þá. Nú hafa verið gerðar á frv. ýmsar verulegar breyt., sem fullkomlega sanna, að það hefir verið flaustursleg afgreiðsla á frv. í upphafi og mikil þörf að lagfæra það. Og enn skortir mikið á.

Það hefir verið sett í frv. bráðabirgðaákvæði á þá leið, að vátryggingarfélög, sem starfað hafa í 50 ár, skuli vera undanþegin ákvæðum laganna næstu 3 ár. Ég sé reyndar ekki, hvað 50 ára tímatakmark á að þýða hér. Ég man, að þegar tekinn var upp styrkur til ljósmæðra, voru tilgreindar sérstaklega þær, sem höfðu starfað 50 ár og kallaðar „júbilljósmæður“. Ég sé ekki sérstakar ástæður til að koma upp löggjöf um „júbilfélög“ og hinda við 50 ár. Ef inn á það er gengið á annað borð að virða aldurinn við félögin, þá verður bráðabirgðaákvæðið að ná til allra þeirra, sem nú hafa starfað nokkurt árabil. Þess vegna flyt ég brtt. í þá átt.