21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Breyt. þær, sem gerðar hafa verið á frv. þessu í Ed., eru mjög óverulegar, og engar breyt. gerðar á því frá því það fór úr Nd., sem í rauninni skipta nokkru máli. Ég hefi að vísu ekki haft langan tíma til að athuga brtt. og bera saman, við upphaflega frv., en hefi þó gengið úr skugga um, að sú verulegasta breyt., sem samþ. hefir verið, er bráðabirgðaákvæði, sem undanskilur félag, sem hefir starfað í 50 ár, frá skyldutryggingum. Þetta er varatill., sem hv. þm. Vestm. hefir fengið samþ. við frv., eftir að hans aðaltill., sem gekk út á það sama og till., sem hv. þm. Borgf. er nú að flytja hér í d., hafa verið teknar aftur eða felldar, hvort heldur veit ég ekki. Till., sem hv. þm. Borgf. ber fram við frv., er sama eðlis og hin, sem var borin fram áður en frv. fór úr d., sem sé að fresta framkvæmd l. um ákveðið árabil. Ég fyrir mitt leyti sætti mig við það eftir atvikum, að þetta gamla félag í Vestmannaeyjum fái undanþágu frá að koma undir l. í 3. ár. En hitt sætti ég mig ekki við, að framkvæmd allra laganna verði frestað, eins og hv. þm. Borgf. leggur til. Ég leyfi mér því að leggja til, að frv. þetta verði samþ. eins og það kom frá Ed., en skrifl. brtt. verði felld.