15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

52. mál, lax- og silungsveiði

Fram. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég hefi ekki mikið að segja um þetta mál. Það varð aldrei tekið fyrir á fundum landbn. verulega, og fékkst þar ekki — eins og sagt er í nál. minn — tekin ákvörðun um það. En svo þegar taka skyldi málið á dagskrá, gaf ég út nál., til þess að það yrði ekki þessu máli til tafar. Þetta mál er svo einfalt, að það þarf ekki mikillar útlistunar við; það er aðeins framlenging í eldri lögum, sem ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þdm. séu sammála um að veita. Það er talið af flm. frv., hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. þm. Skagf., að ennþá séu ýmsir menn, sem ekki hafa notað sér þann rétt, sem l. frá 1932 um lax- og silungsveiði veita, nefnilega að landeigendur fái að innleysa veiðirétt, sem tekinn hefir verið frá löndum þeirra. Og það eru yfirleitt flestir þeir, sem seinfærastir eru og hafa minnst andvara á sér, en þurfa þess ef til vill helzt við að ná í þennan rétt. Og mér finnst ekki geta komið til mála að aftra því, að þeir geti náð þessum rétti eins og aðrir, þó að þeir hafi orðið seinir í tíðinni.

Eins og getið er um í nál. mínu, sé ég ekki ástæðu til annars en að mæla með því, að það atriði verði samþ. hér. En svo er brtt., sem ég hefi gert við þetta frv. Það er þannig ástatt um það atriði, að í áður nefndum l. er það ákveðið, að brot út af veiðiréttindum, þegar veiðiþjófar fara í veiðivötn og draga þar fisk, skuli fara með sem einkalögreglumál. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá þurftu þeir, sem fyrir óréttinum urðu og vildu kæra, ekki að vinna mikið við þá málafærslu, heldur kæra fyrir dómara, sem svo tók málið í sínar hendur, upplýsti sjálfur málið og gekk frá því. En við breyt. á meðferð einkamála í héraði var þessu breytt, og nú er svo komið, að sá, sem verður fyrir óskunda af veiðiþjófi, verður til þess að ná rétti sínum að sækja manninn til sekta; hann verður að stefna honum eins og í almennum málum, og sjálfur verður hann til að byrja með að greiða málskostnað og fá málafærslumann, eins og í öðrum málum, og þó að hann fái einhvern málskostnað tildæmdan að síðustu, þá er sýnt, að hann verður að greiða einhvern hluta hans. Af þessari ástæðu þykir mörgum skárra að þola óréttinn heldur en að leggja mikið fé í að sækja þann rétt, sem að sjálfsögðu á að hjálpa honum til að ná, og það opinbera á að sjá um, að ekki sé gert allt of torvelt. Það er svo komið, að yfirgangsmönnum er nú hægara um vík að ganga á rétt manna, sem veiði hafa, og hvað sem öðru líður, tel ég sjálfsagt, að svona mál sé rekið sem almennt lögreglumál, eins og ég legg til í þessari brtt., og hafa höfundar l. um einkamál í héraði játað, að það hafi verið af vangá hjá þeim, að gengið var framhjá þessu atriði, og ég veit, að a. m. k. annar þeirra telur sjálfsagt, að þessu sé kippt í lag í þessu tilfelli. Eiginlega á borgarinn rétt á því, að hann sé verndaður af því opinbera gegn yfirgangi og lögbrotum ófyrirleitinna manna. Ég tel sjálfsagt, að þessi breyt. nái fram að ganga og trúi varla, að nokkur sé á móti henni.