21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

52. mál, lax- og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Hv. 6. landsk. fannst alveg nauðsynlegt að afgr. þetta mál nú, ekki vegna hinnar upphaflegu breyt., sem farið er fram á með þessu frv., að framlengja þann frest, sem hér um ræðir, úr 5 árum í 10 ár, heldur vegna 2. gr., sem kom eftir till. frá hv. 6. landsk. Það er rétt, að þessarar breyt. er þörf, þegar það er aðgætt, að búið er að samþ. þáltill. til stj. um að hún láti endurskoða laxveiðilöggjöfina fyrir næsta þing, og þegar hann aðgætir það, að það eru 2 mánuðir til næsta þings, þá hlýtur þetta að vera sprottið af því, að hann treystir ekki hæstv. stj. til að leggja þetta fyrir næsta þing, en á þessu tveggja mánaða tímabili er ekki um að ræða nein veiðileyfi, því að þó að einhver vildi veiða í ánum, þá væri ekkert upp úr því að hafa. Af þessari ástæðu er óþarft, þó að nauðsynlegt sé að breyta l., að gera það nú, nema því aðeins, að maður sé fyrirfram sannfærður um, að hæstv. stj. geri ekkert til þess að leggja málið fyrir næsta þing og við treystum okkur ekki sjálfum til að taka upp breyt. á næsta þingi. Ég ber það traust til hæstv. ríkisstj. — þar erum við ekki sammála —, að hún verði við áskorun þessarar hv. d. um að endurskoða laxveiðilöggjöfina.

Hv. þm. nefndi tvö dæmi þess, að sér væri kunnugt um, að eftir væri að kaupa veiðiréttindi undir jarðir. Þetta mun vera rétt, en hvorttveggja mun vera gamalt, því að þau réttindi munu ekki hafa verið seld undan jörðunum nú siðari árin. Ef hv. þm. les l., eins og þau voru upprunalega, þá sér hann, að það vakir ekki fyrir neinum að innleysa réttindi, sem hafa verið getin fyrir mörg hundruð árum síðan. Það er miðað við veiðiréttindi, sem er nýbúið að selja undan jörðunum. Það er fyrst nú á seinustu árum, sem mönnum er farið að detta í hug að ásælast aftur undir jarðirnar veiðiréttindi, sem voru gefin undan þeim. Og ég tel, eins og ég hefi áður sagt, vafasamt, hvort það er rétt siðferðislega af löggjafanum, þó að það sé kannske rétt lagalega séð, sem hv. 6. landsk. veit betur um en ég, að gripa inn í og ómerkja gjafir, sem hafa verið gefnar á deyjanda degi. Það er ekki um önnur veiðiréttindi, sem eftir er að kaupa undir jarðirnar, heldur en þau, sem þannig hafa farið undan jörðunum, og svo veiðiréttindin í Haffjarðará. Það er ekki eftir að kaupa veiðiréttindi, sem hafa verið seld síðustu 25 ár. Ég hefði gaman af, ef hv. þm. gæti bent mér á einhver slík veiðiréttindi, sem eftir væri að kaupa. Það eru bara eftir þessi gömlu veiðiréttindi, sem hafa farið undan jörðunum fyrir öldum siðan, og þeim réttindum á Alþ. ekki að skipta sér af, því að það hefir engan siðferðislegan rétt til þess að mínum dómi.