22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að segja nokkur orð út af einu sérstöku atriði frv., 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum, sem síldarverksmiðjur ríkisins stofna til eftir næstu áramót. Ég er alveg samþykkur þessu ákvæði og álit, að það eigi að stefna að því, að ríkissjóður beri yfirleitt ekki ótakmarkaða ábyrgð á öðrum fyrirtækjum en þeim, sem hann nýtur arðs af, og verður að draga markalínuna eftir því, hvort ríkissjóður nýtur arðs af viðkomandi fyrirtæki eða ekki. Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri ekki rétt að taka fyrirtækið út úr, heldur ætti að setja um þetta almenna löggjöf, og það gæti komið til athugunar, en ég man ekki eftir nema tveimur stofnunum, sem gætu komið undir skýringu mína á eðli þessara fyrirtækja, og það eru síldarbræðslur ríkisins og landssmiðjan. Ég held, að ríkið njóti arðs af nálega öllum öðrum fyrirtækjum, sem það rekur, og því geti ekki annað komið til mála en að það beri fulla ábyrgð á þeim. Þess vegna held ég, að það sé ekki ástæða til að bíða eftir sérlögum um þetta. Það mætti vel gera ráðstafanir um þetta í sambandi við lög um síldarbræðslur ríkísins. Ég veit ekki, hvort það vakir sami skilningur fyrir öllum á þessu ákvæði í 7. gr. frv., og þess vegna vil ég til athugunar fyrir þá n., sem fær málið, skýra, hvað fyrir mér vakir. Í þessu sambandi mundi það vaka fyrir mér, að ríkissjóður hefði frá 1. jan. 1938 veð í verksmiðjunum fyrir því, sem ógreitt er af stofnlánum þeirra á þeim tíma, þannig að það fé, sem síldarbræðslur ríkisins hefðu sem áhættufé, væri ekki allar verksmiðjurnar án þess að nokkur skuld hvíldi á þeim, heldur verksmiðjurnar og aðrar eignir að frádregnum stofnkostnaði, sem eftir er ógreiddur, m. ö. o., að hvað sem síldarverksmiðjurnar leggja út í eftir að búið er að skera á þann þráð, sem tengir þær við ríkissjóð, þá séu það hreinar eignir, sem þar verða búnar að afla sér um næstu áramót. Þetta vil ég, að komi fram við þessar umr., því að það getur verið að aðrir líti þannig á, að það væri átt við það, að það væri ekki sérstakt veð tekið fyrir því, sem eftir er af stofnlánum, og síldarverksmiðjurnar ættu í raun og veru að hafa, eða að þau lán ættu að hafa jafnan kröfurétt og önnur lán, sem stofnað er til eftir 1. jan. 1938. Ég vil sérstaklega biðja n. að athuga það mjög vel, hvort hún telur fært að taka upp þessa skýringu mína, og ef það er ekki fært, þá hvaða breyt. þarf að gera til þess að sú leið þætti tiltækileg. Ég býst við, að það séu nukkur atriði, sem þarf að athuga í sambandi við þetta „tekniska“ atriði, hvernig hægt er að skilja milli þeirra skulda verksmiðjanna, sem eru með ríkisábyrgð um næstu áramót, og annara skulda af svipuðu tægi, sem myndast eftir 1. jan. 1938. Ég álit, að hægt sé að ganga frá þessu, svo að ekki valdi misskilningi. Mér skilst, að það sé ekki verulegur ágreiningur um það, að það sé eðlilegt, að ríkissjóður beri takmarkaða ábyrgð á verksmiðjunum, og að ágreiningurinn sé aðeins um það, hversu takmörkuð sú ábyrgð skuli vera. Ég held, að það ætti ekki að vera sérstök ástæða til að óttast, að verksmiðjurnar gætu ekki fengið rekstrarfé, ef þær hefðu sæmilegt áhættufé, en ef í nauðirnar ræki, verður að taka þetta til endurskoðunar, en fyrirfram vil ég ekki gera ráð fyrir, að bankar landsins vilji síður lána síldarbræðslum ríkisins en ýmsum einkafyrirtækjum, sem eru ekki betur stæð en síldarverksmiðjurnar yrðu, þó að ríkisjóður bæri ekki sérstaka ábyrgð á rekstrinum.