22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefi ýmsu að svara og verð að fara fljóti yfir, en það eru einstaka atriði, nokkrar fyrirspurnir, sem mér finnst ég ekki geta látið ósvarað. Hv. 9. landsk. tók undir það, að mér skildist, með mér, að óhyggilegt væri, að afnema með öllu heimild verksmiðjustjórnar til þess að kaupa síld föstu verði, og tók fram til viðbótar því, sem ég sérstaklega hafði drepið á, að þegar síldarverðið væri lágt, þá gæti það verið skilyrði fyrir því, að hægt væri að gera út á síldveiðar, að menn fengju fullt verð borgað þá um leið. Nú hefir það verið svo, að árin 1931–1934 hefir verðið aldrei komizt yfir 3 kr. málið í bræðslu. Ef af þessum 3 kr. hefði átt að taka 50 aura og borga þannig kr. 2,50 fyrir hvert mál af síld í bræðslu, þá hefði það getað riðið baggamuninn, þannig að það hefði alls ekki verið gert út. Það ber ekki eingöngu heldur að miða við verðlagið á síldinni, heldur einnig við kostnað útgerðarinnar, svo sem verðlag á kolum, olíu o. s. frv., þannig að þó að verð síldarinnar hækki, bætir það ekki aðstöðu þeirra, sem síldveiði stunda, nema sú hækkun nemi meiru en hækkun á verði nauðsynja til útgerðarinnar.

Hv. þm. spurði, hvers vegna sjómenn og útgerðarmenn ættu ekki eins að vilja kjósa að leggja síldina inn upp á hlutagreiðslu, þegar verðið væri sæmilega hátt, heldur en hitt að fá fast verð. Það er af því, að þegar þeir fá fast verð, hafa þeir tryggari grundvöli til að byggja á fyrirætlanir sínar um útgerð til síldveiða heldur en þegar verðið er ekki fast, heldur háð sveiflum, sem iðulega mundu koma fyrir. Getur það eðlilega valdið tilfinnanlegri vöntun á síld í verksmiðjur ríkisins, þegar t. d. væri ekki mjög mikill síldarafli, et þar væri ekki borgað fast verð, sérstaklega þegar þess er gætt, að afkastageta þeirra er sú, að það er ekki nema mikill minni hluti af allri bræðslusíld á landinu, sem þær geta tekið á móti. Síldarverksmiðjur einstakra manna og félaga til samans geta tekið á móti meiri síld í bræðslu en síldarverksmiðjur ríkisins.

Þá spurði hv. þm. ýmissa eðlilegra spurninga, sem ég get að vísu ekki svarað alveg til hlítar. Skal ég þó leitast við að svara þeim að svo miklu leyti sem gögn eru fyrir hendi.

Hv. þm. spurði, hvort það væri satt, að á yfirstandandi ári hefði verið varið um hálfri millj. kr. til nýbygginga og endurbóta í sambandi víð verksmiðjurnar. Það mun láta nærri. Þessar endurbætur og nýbyggingar hafa verið ákveðnar af stjórn síldarverksmiðjanna í samráði við ríkisstj. að því er snerti þær almennu endurbætur og nýbyggingar við verksmiðjurnar. Og sömuleiðis að því er snertir byggingu þróarinnar, þó ekki nema upp að því marki, að hún kosti 175000 kr. En hún kostaði þegar til kom 23000kr.

Nú telur hv. þm., að þar sem um 500000 kr. hafi verið á árinu, sem er að líða, varið til endurbóta og nýbygginga í sambandi við verksmiðjurnar,þá hafi þarna verið um að ræða stærri upphæð en svo, að afsakanlegt sé að láta það í hendur verksmiðjustj. og ríkisstj. að ákveða notkun þessa fjár. Ég er ekki viss um, að hann verði sömu skoðunar, ef hann athugar hvernig þessar breyt. eru, sem gerðar hafa verið fyrir þetta fé, og hvernig ástatt var áður í verksmiðjunum.

Árið 1935 brást síldveiðin, og varð það tapar fyrir verksmiðjurnar og hagur þeirra þess vegna þrengri en annars hefði orðið. Árið 1936 varð sæmileg útkoma á rekstri þeirra, þannig að þá var 230000 kr. tekjuafgangur, auk sjóðgjalda. Þegar síldarbræðsluverksmiðjan á Raufarhöfn var keypt, var ómögulegt að reka hana án þess að gera á henni umbætur. Auk þess var nauðsynlegt að setja þangað lýsisgeyma, til þess að losna við kostnað, sem því er samfara að hafa lýsið á fötum. Síldarverksmiðjustjórnin taldi, að árið 1936 næmi umframkostnaður á lýsi á Raufarhöfn 26000 kr., sem ekki fengist greiddur, sem stafaði af því, að það varð að hafa lýsið á fötum. En kostnaður var 54000 kr. við byggingu lýsisgeymisins á Raufarhöfn. En aðrar aðgerðir þar við verksmiðjuna munu hafa numið 21000 kr. Er þetta þá samt. 75000 kr. Ég hygg, að ekki orki það tvímælis, að þetta hafi verið nauðsynlegt að gera. Þá hafa verið keyptar skilvindur á þessu ári í allar verksmiðjurnar. Sú aukning, sem með því móti fæst á lýsinu, gerir miklu meira en að borga það, sem þær kosta, þ. e. a. s. ekki á einu ári, heldur þannig, að hún borgar miklu meira en vexti og eðlilegar afborganir af kostnaðarverðinu, miðað við lán. Þetta voru því sjálfsagðar ráðstafanir. (MG: Hvað kostuðu skilvindurnar?). Ég held um 15–20 þús. kr. ein skilvinda, og tvær saman munu þá kosta 30–40 þús. kr.

Í SR 30 á Siglufirði var nauðsynlegt að stækka þurrkofna, því að með auknum afköstum pressunnar urðu þurrkofnarnir of litlir. Ýmislegt fleira var og gert í sambandi við það við þá verksmiðju, keyptar 2 skilvindur, byggður reykháfur o. fl., samtals fyrir um 60000 kr.

Í SRP þurfti að koma fyrir nýrri kolakyndingu og endurbæta reykháf, sem kostaði alls 14000 kr. Í SRN þurfti að kaupa nýja pressu, því að gamla pressan var óhentug. Auk þess voru keyptar þar skilvindur, breytt olíuhúsi o. fl., sem samtals kostaði um 94000 kr.

Þá hefir einnig eftir að rafstöðin var stækkuð á Siglufirði, rafmagnsleiðslukerfi síldarverksmiðja ríkisins þar verið selt í samband við rafstöð bæjarins til öryggis. Til þess hefir þurft að breyta mjög raflögnum, þar með leggja „kapal“ um verksmiðjulóðina alla. Auk þess var lóðin girt. Þetta allt hefir kostað yfir 30000 kr.

Þá hafa verið keypt tæki, sem að nokkru leyti eru komin á eignalista, sem nema um 30000 kr.

Þessar breyt. allar á síldarverksmiðjum ríkisins nema samtals 250000–280000 kr. Þessar umbætur voru mjög vel athugaðar áður en þær voru gerðar, bæði af síldarverksmiðjustj. og þeim fróðleiksmönnum, sem hún hafði í ráðum með sér. Sömuleiðis af ríkisstj. Ég er þess fullviss, að þessar umbætur allar á verksmiðjunum voru nauðsynlegar, og að allir menn í sporum þeirra manna, sem þarna höfðu um að ráða, hefðu gert hið sama. Og ég vil benda á það, að þessi upphæð, sem nefnd er í frv. 75000 kr., sem hámark fyrir því, hvað má leggja í kostnað til endurbóta og aðgerða á síldarverksmiðjunum án sérstaks samþykkis Alþingis nær ekki nokkurri átt.

Í sambandi við þróarbygginguna vil ég geta þess, að upphaflega var gert ráð fyrir, að slík þró yrði byggð undir 20000–25000 mál, sem kostaði 150000–175000 kr., og var rætt um það við ráðh. Svo þegar til framkvæmdanna kom, varð kostnaðurinn 232000 kr., og var þróin nokkuð stækkuð.

Hv. 1. flm. frv. (J. J.) sagði, að það væru skiptar skoðanir um nauðsyn á þróarbyggingunni. Skal ég geyma mér að ræða um það. En um aðrar breyt., sem gerðar hafa verið í sambandi við síldarverksmiðjur ríkisins og ég hefi getið um, hygg ég, að ekki geti orkað tvímælis, að hafi verið nauðsynlegar. Það hefði verið háski að bíða með þær viðgerðir og endurbætur eftir því, að Alþ. hefði samþ. þær breyt., þannig að ekki hefði verið hafizt handa um þessar endurbætur fyrr en að fengnu því samþykki

Þó að ég óttist, að það e. t. v. komi ekki heim við skoðanir hv. 1. flm., þá er það alveg ómótmælanlegt, að það er skylda allra, sem koma að stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að sjá um, eftir því sem auðið er, að verksmiðjurnar séu hafðar í svo góðu ástandi, að þær geti skilað sem mestu af andvirði síldarinnar til sjómanna og útgerðarmanna, hvort sem verksmiðjurnar borga fast verð eða ekki. Verksmiðjurnar verða því að búa sig svo vel að tækjum, að þær geti fengið sem mest verðmæti úr síldinni með sem minnstum kostnaði. Og allar þessar breyt. og endurbætur hafa verið gerðar með það fyrir augum.

Þá vil ég víkja að fyrirspurnum hv. 9. landsk. Viðvíkjandi þeim vil ég segja honum, að hann getur fengið þennan lista, sem ég hefi hér í höndum, og sú n., sem fær málið til meðferðar. Og viðvíkjandi fyrirspurn hans um það. hvernig rekstrarafkoma verksmiðjanna muni verða á þessu ári, þó að það sé eðlileg spurning, getur hann skilið það, að ég get ekki svarað því til fulls nú þegar. En eftir áætlun, sem fyrir liggur — þ. e. a. s. hún kemur með Goðafossi í dag –er gert ráð fyrir, að ef lýsistonnið selst á 15 £ nettó hér heima — og nú mun vera á fjórða þús. tonn af því óselt —, þá muni rekstrarafgangur verksmiðjanna á árinu verða 50–60

þús. kr. auk gjalds í fyrningarsjóð, 50–60 þús. kr. og gjalds í varasjóð 230 þús. kr. og ennfremur afborgana, sem nema 130–150 þús. kr. og sömuleiðis vaxtagreiðslna, þannig að það, sem gengur til afborgana, vaxta og sjóða og rekstrarafgangur, eftir þeirri áætlun, sem ég gat um, verður nálægt 500 þús. kr. En hvort þetta lýsisverð stenzt, get ég vitanlega ekki fullyrt um.

Ég verð að segja það við hv. 1. flm. frv., að ef hann vill tala um „glæfraspil“, að bankaráð þurfi að „taka í taumana“, þá verður hann, ef hann hefir tilhneigingu til að viðhafa þess háttar orð um síldarverksmiðjur ríkisins, að kynna sér málið, áður en hann hefir slík orð í sambandi við þær.

Þá spurði hv. 9. landsk., hvað sjóðir ríkisverksmiðjanna væru miklir og hvort þær hefðu þurft lán til þeirra endurbóta, sem gerðar hafa verið á verksmiðjunum á síðasta ári. Ég hefi nú ekki við hendina efnahagsreikninga verksmiðjanna. Á síðasta ári runnu til varasjóðs og fyrningarsjóðs samtals um 170 þús. kr. Hinsvegar er ekki auðvelt að segja nákvæmlega til um það, hvort lán hafi verið tekið sérstaklega til þessara nýbygginga og endurbóta, vegna þess að verksmiðjurnar hljóta alltaf um hver áramót að eiga talsvert af framleiðsluvörum óselt, nefnilega af afurðum síðastl. árs, sem eitthvað af skuldum hvíla á.

Í byrjun ársins 1936 hvíldi 300 þús. kr. víxill í Landsbankanum á verksmiðjunum. Og þegar gert var upp fyrir það ár, var sá víxill líka framlengdur. En rekstrarlán verksmiðjanna á árinu 1936 voru borguð upp. En í árslok 1936 mun hafa verið miklu meira óselt af afurðum verksmiðjanna heldur en í lok ársins á undan, þannig að víxillinn mun hafa verið meira en „dekkaður“ með þeim vörubirgðum. Um útkomu verksmiðjanna fjárhagslega 1937 verður ekki séð enn til fullnustu. En ég hygg, að stjórn síldarverksmiðjanna telji, að líklegt sé, að víxillinn verði borgaður upp við uppgjör síldarverksmiðjanna fyrir yfirstandandi ár. En það fer vitanlega eftir því, hvort búið verður að selja afurðir verksmiðjanna áður en til þess kemur að kaupa vörur til rekstrar verksmiðjanna á næsta starfsári, svo sem kol og annað slíkt, tilheyrandi rekstrarkostnaði þeirra.

Hv. 9. landsk. er á móti l. og 2. gr. frv. Það er broslegt, að hv. þm. skuli vera á móti svo þýðingarmiklum gr. sins eigin frv. (MG: Hefir hæstv. ráðh. ekki lesið grg?). Jú, en þungamiðju frv. eru flm. yfir höfuð sammála um. Það er broslegt, að þm. sé mótfallinn þungamiðju þess frv., sem hann sjálfur flytur, þó með öðrum sé.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið, að hann skildi svo ákvæði frv. um ríkisábyrgð, að það bæri fyrst að tryggja það, sem eftir væri af stofnlánum, sem ríkissjóður hefði tekið ábyrgð á f. h. verksmiðjanna, þannig að aðrar lausaskuldir yrðu tryggðar með veðrétti, sem kæmi á eftir þeim veðrétti, sem ríkið hefði í verksmiðjunum. Í sambandi við þetta þarf að koma fram tryggingu fyrir því, að síldarverksmiðjurnar þurfi ekki vegna vöntunar á ábyrgð að bíða eftir vörum, sem gæti orðið til tjóns, ef ekki er betur um hnútana búið en í frv. er nú. Þá kem ég að hv. 1. fim. frv. Hann sagði, að það mundi vera pólitískur stefnumunur milli mín og hans og þeirra fl., sem við tilheyrum, sem valdi ágreiningi um afgreiðslu þessa máls. Ég er ekki alveg viss um, að það sé nú a. m. k. af hans hálfu, fyrst og fremst pólitískur stefnumunur, sem kemur því til vegar, að hann fylgir fram þessu frv. En get látið mér detta í hug, að annað sé þyngra á metunum hjá honum í því efni heldur en stefnumunur flokkanna í þessu máli. Mér hefir fundizt, að gætt hafi annara sjónarmiða hjá honum meira heldur en þeirra, sem hann nú nefndi. Hv. 1. flm. telur það mjög misráðið að blanda ríkisstj. mjög inn í starfsemi ríkisverksmiðjanna og að hverri ríkisstj. mætti þykja það fengur að þurfa ekki að skipta sér af þeim málum, og ég ætti því að vera þakklátur fyrir að losna við hrellingar út af að mæta því, sem ég mundi mæta, ef ég væri áfram við ábyrgð út af þeim störfum bundinn. Að því er afskipti ráðh. snertir af starfsemi síldarverksmiðjanna, þá hefir hv. 1. flm. lánazt illa í frv. að létta af ráðh. þeim afskiptum, sem mestu varða. því að það er ráðh., sem samkv. frv. á að ákveða það á hverju ári, hvort síldarverksmiðjurnar verða reknar eða ekki. Ef hv. 1. flm. vill nú létta þessu alveg af ráðh., þá verður hann að fara eitthvað öðruvísi að. (JJ: Hæstv. ráðh. á þá að veita því af sér sjálfur með brtt.). Það er algerlega ómögulegt að komast hjá því að viðurkenna, að hér er um svo mikið mál að ræða, að ráðh. verður að skipta sér af þessu. En þannig þarf að búa um, að ráðh. geti á hverjum tíma metið, hvað rétt er í þessu. En með frv. er stefnt að því að girða fyrir það, að ráðh. geti haft slíkan aðgang.

Hv. 1. flm. sagði, að breyt. á verksmiðjunum og endurbætur væru mjög umdeildar, hvað nauðsyn þeirra snerti. Ég hefi nú gert nokkra grein fyrir því máli, þannig að hv. þdm. er það kunnugra en áður.

Þá sagði hv. 1. flm. einnig, að mínir feður og frændur hefðu verið miklir samvinnumenn og fylgt mjög eindregið fram þeirri stefnu að takmarka útborgun innlagðra vara við einhvern vissan hluta af andvirði afurða og bíða svo eftir því að vita, hvort hægt væri að greiða uppbót. Það er rétt, að hans og mínir ágætu frændur hafa margir verið í þessum hópi manna. En ég vil biðja þennan hv. þm. að gleyma því ekki, að svo margt gott sem segja má um starfsemi kaupfélaganna, og að ýmsu leyti þær reglur, sem þau byggja sína starfsemi á, þá hafa hvorki mínir né hans frændur megnað að koma í veg fyrir, að mikill hluti bændastéttar landsins, sem nýtur aðstoðar hinna að mörgu leyti góðu starfshátta kaupfélaganna, hefir orðið að leita ásjár hins opinbera og þiggja þá hjálp ríkissjóðs, sem er svo mikil. að engri einni stétt í landinu hefir með einu átaki verið veitt nokkuð svipað því eins mikil hjálp af ríkissjóði eins og bændastéttinni –þrátt fyrir þá miklu sjálfsbjargarviðieitni í lífsbaráttunni, sem sú stétt hefir sýnt (JJ:

Mjög mikla og mjög ólíka því, sem hv. þm. þekkir annarsstaðar). Og mér er kunnugt um, að úr föðurlandi eða móðurlandi samvinnustefnunnar hér hjá okkur hefir sú vitneskja fengizt, að kaupfélögin þar hafa nú eins og komið er beðið meira afhroð og orðið að hlíta þeim vandræðum, sem a. m. k. eru fullkomlega til jafns við það, að ég ekki segi meira, sem á ýmsum öðrum stöðum á landinu á sér stað um slíkan félagsskap, þar sem ekki hefir gæti aðstoðar eða styrks minna eða hans ágætu frænda.

Það er ekki hægt að benda á það, hvernig kaupfélögin hagi sölumeðferð kjöts fyrir bændur sem einhverja óbrigðula fyrirmynd um rekstur síldarverksmiðja ríkisins. Þann hátt er ekki hægt að viðhafa þar eins og sakir standa nú. Og þessi aðferð kaupfélaganna hefir ekki komið að haldi án sérstakrar hjálpar þess opinbera.

Hv. 1. flm. hætti undir lok ræðu sinnar að tala sem þm., eftir því sem hann sjálfur sagði, en kvaðst þá tala hér sem bankaráðmaður og flytja d. þann boðskap, að þjóðbankinn yrði að taka í taumana. Ennfremur sagði hann, að verðið á síldinni, sem ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði hefðu greitt fyrir hana, hefði verið svo hátt, að síldarbræðslur á Seyðisfirði og Norðfirði hefðu gersamlega komizt í fjárhagslegt öngþveiti. Þess vegna gæti hann ekki sem bankaráðsmaður látið ganga svo lengur þetta glæfraspil. Fór hann um þetta mjög hjartnæmum orðum. Hann sagði, að verðið, sem ákveðið hefði verið á Siglufirði í sumar fyrir síldina, hefði verið hreinasta „spekulation“ og glæfraspil, og bætti því svo við, að það hefði orðið til þess að drepa fjölda af annars heilbrigðum fyrirtækjum. Mér skildist hann vera að reyna að komast að þeirri eftirtektarverðu niðurstöðu og einkennilegu, að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði eigi að miða það verð, sem þær gefa fyrir síldina, við það, að aumustu síldarverksmiðjurnar á landinu geti borið sig með því að borga sama verð. En við hv. 1. flm. getum aldrei orðið einnar meiningar í þessu. Besta síldveiðin er fyrir austan, í kjördæmi hæstv. fjmrh. og minn. Þó er því miður þar um að segja, að það hefir sýnt sig — og var nokkuð vitað áður — að síldin þar er ekki eins feit, gefur ekki eins mikla olíu og síldin fyrir Norðurlandi, sem til Siglufjarðar kemur. Auk þess er það vitað, að verksmiðjur með 300 og upp í 1000 mál hafa að sjálfsögðu miklu dýrari vinnslu á máli en stórar verksmiðjur. Og sennilegt er, að sá munur verði því meiri að öðru jöfnu, sem stærðarmunurinn er meiri á verksmiðjunum. Nú eru byggðar hér stórar verksmiðjur, 2400–3000 og upp í 5000 mál, á Hjalteyri og Djúpuvík, að ég ætla, og hefir verið haft við orð af sumum að bæta við. Samtals komu á Siglufirði, þegar bezt gekk í sumar, 10 þús. mál á dag. og þar lækkar og vinnslukostnaðurinn nokkuð hin sameiginlega stjórn. Nú er það ætlun hv. þm., að verðlagið sé ákveðið þannig, að tryggt sé, að minnstu verksmiðjurnar geti borið sig með því verði, sem hinar greiða út. Ef síldarverksmiðjan á Seyðisfirði hefði ekki greitt nema 7 kr. fyrir mál, þykir mér líklegt, að hún mundi hafa komizt hjá rekstrarhalla. Ef verðið hefði verið ákveðið 7 kr. um allt land, hverju munar það? Ég ætla, að síldaraflinn í sumar hafi verið alls eitthvað kringum 1400–1500 þús. mál. Það er sama og 1½ millj. kr., sem sjómenn og útgerðarmenn hefðu misst af verði afla síns, ef kenningu hv. þm. hefði verið fylgt. Ég játa, að eðlilegt hefði verið að ákveða þetta verð, ef síldarverksmiðjur ríkisins hefðu ekki risið undir að greiða 8 kr. En eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir nú og ég hefi ekki ástæðu til að rengja, þá er útlit fyrir það, að þær fái öll sín gjöld og sínar tilskildu afborganir, þrátt fyrir það, að þær greiddu þetta verð í sumar. Ég tel því, eftir því sem enn liggur fyrir, að síldarbræðslustjórn hafi ekki lagt neitt „spekulations“ verð á síldina í sumar, heldur hafi hún miðað það við sína getu til að greiða, getu, sem fyrst og fremst er undir því komin, að verksmiðjan sé búin þeim tækjum til að vinna síldina, sem ná úr henni því mesta verðmæti og jafnframt eru svo ódýrar í rekstri, sem hægt er við að koma. Það verður að sjálfsögðu til mestra hagsbóta fyrir síldveiðimenn, útgerðarmenn og sjómenn og þjóðina í heild sinni.

En frv. hv. þm. S.-Þ. gerir engan mun á smáverksmiðjum eins og t. d. á Austurlandi gagnvart síldarverksmiðjum ríkisins, hvort sem greitt verði 85% eða fast verð. Ef þessar verksmiðjur taka upp þetta ákaflega álitlega fyrirkomulag í augum þm., að greiða líka 85%, þá standa þær engu betur að vígi. Ef þær borga fast verð, þá fylgir áhætta, sem hv. þm. telur óhæfa. Ég verð að segja það, að l. um rekstur síldarverksmiðja ríkisins megi aldrei miðast við það að skapa afkomumöguleika fyrir smáar verksmiðjur hér og þar á landinu, sem hafa við allt önnur skilyrði að búa. Og við ákvörðun þess verðs, sem þær borga út, er ómögulegt að taka tillit til verlamiðjanna á Seyðisfirði og Norðfirði og Hólmavík. Þær verða að miða við sína afkastamöguleika. Ef þessar litlu verksmiðjur hafa að sumu leyti óhægari aðstöðu, þá verður einhver annar aðstöðumunur að geta hætt það upp, ef þær eiga að geta haldið áfram. Og að því er snertir Austfirðinga, þá vona margir, að karfamiðin og innfjarðasíldin geti bætt þann aðstöðumun, sem er á því að taka á móti sumarsíldinni.

Ég held það hafi ekki verið fleira í sambandi við ræðu hv. þm., sem ég þurfti að víkja að, og læt þetta því nægja.