23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Baldvinsson:

Hv. 9. landsk. segist vera á móti 1. og 2. gr. þessa frv., og það er í samræmi við það, sem Sjálfstfl. hefir verið í þessu máli, því að þetta mál er ekki alveg nýtt á þinginu, — samfylking sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í þessu máli er ekki ný. Hún var líka á síðasta þingi, og þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að þetta væri hégómamál. Hann sagðist aðeins vera með því af því, að það væri til þess að spilla öllu og gera allt vitlaust. Það gæti ef til vill vakað eitthvað svipað fyrir hv. 9. landsk. með því að allt í frv. væri nógu vitlaust til þess að koma glundroða á allt, og þó að hann taki ekki svo djúpt í árinni, þá hefir hann lýst yfir því, að hann væri á móti 1. og 2. gr. síns eigin frv. Ég man fyrir víst, að hv. 1. þm. Reykv. kallaði frv. um síldarverksmiðjustj. í fyrra hér í d. hégómamál, og var þó sjálfur með því, en seinna í umr. og deilu við hv. 1. þm. Eyf. lýsti hann því yfir, að hann væri mótsnúinn þessu frv. að öðru leyti en því, ef það gæti komið á einhverjum glundroða. það er eiginlega ekki annað að segja við hv. 9. landsk. í þessu máli. Hann gerði ýmsar fyrirspurnir til hæstv. ráðh., sem hann hefir fengið fullnægjandi svar við.

Hv. þm. S.-Þ. vildi ég segja það, að þó að ekkert frv. yrði samþ. núna um þetta mál, þá gerði það ekki mikið til, því að þá kæmu aðeins í gildi l. frá 1935, og þau gera ráð fyrir, að 4 menn séu kosnir til 3 ára, en formaður sé skipaður af atvmrh., svo að það er engin brýn nauðsyn að samþ. nein ný f., heldur gætu þau l., sem nú gilda um 3 menn, fallið úr gildi um næstu áramót og jafnframt kæmu svo í gildi l. frá 1935, og yrði stj. þá skipuð samkvæmt því. Ég geri ráð fyrir, að það mundi þykja rétt að gera ráðstafanir til þess að kjósa þessa menn áður en þinginu yrði slitið, ef ekkert frv. yrði samþ., og hæstv. atvmrh. skipaði þá formann síldarbræðslustj.

Það má segja, að það sé nýmæli í frv., að það er gert ráð fyrir 5 mönnum, sem allir, séu þingkjörnir, og það er ætlazt til þess að taka þau völd af hæstv. ráðh., sem hann nú hefir til að skipa formanninn. Það er miklu meiri losarabragur á þessu, og það er greinilegt, að þarna hafa verið samkomulagstilraunir á ferðinni, sem endað hafa á því, að orða þetta svo losaralega. að þarna er sett stj., sem enginn veit, hvort getur fengið hæfan mann fyrir formann eða hvort sá maður, sem síldarbræðslustj. skipar, muni hafa nokkurt samband við ríkisstj. við skulum hugsa okkur, að það héldi áfram samfylking í þessu síldarmáli milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna og það væri það sem þeir kalla rauð stjórn við völd, þá gæti farið svo, að kosinn yrði sjálfstæðismaður fyrir tormann, sem þættist ekki þurfa að tala við ríkisstj. um þessi mál, þó að hún beri að vissu leyti ábyrgð á skuldbindingum og rekstri verksmiðjanna.

Annað atriði, sem er nýmæli, er aukið vald framkvæmdarstjóra. Það hefir oft verið svo og mun verða í framkvæmdinni, að framkvæmdastjórinn er sá, sem mest ráð hefir um reksturinn. Og er þá mikils um vert, að val þess manns takist vel. Hann þarf ekki aðeins kunnáttu um reksturinn og vit á sölu afurðanna. Hann þarf líka þá lipurð, sem einkennir góða verkstjóra, og að geta hafi vinsamlegt samband við sína verkamenn. Annars getur hann átt margt á hættu. Hann nær ekki þeirri vinnu hjá fólkinu, sem annars mætti vænta, og allt vili fara í ólestri. Það getur tapazt stórfé, ef stirður og klunnalegur verksmiðjustjóri er skipaður yfir verkafólkið með miklu valdi. Ég veit, að hv. þm. sjá, að það tjón lenti ekki aðeins á útgerðarmönnum og sjómönnum, heldur líka á síldarverksmiðjum ríkísins. Hv. þm. S.-Þ. hélt að ráðið væri að hafa framkvæmdastjórana fleiri en einn. Ég held það henti bezt að hafa hann einn. Hann gæti haft ráðunaut eða verkstjóra sér við hlið, einkum ef hann hefði ekki þá þekkingu, sem þarf á vélum eða öðru sem sérstakur vandi er að fást við eða of tímafrekt fyrir einn.

Þriðja nýmælið er, að endurbætur og nýbyggingar í verksmiðjunum megi ekki kosta yfir 75 þús. kr. á ári, nema með samþykki Alþingis í hvert sinn. Í rauninni sýnir fátt betur en þetta, hvað hv. flm. frv., hv. þm. S.-Þ. og hv. 9. landsk., eru gersneyddir því að hafa vit á þessum málum. (MG: Gersneyddir hverju?) Þeim hefir aldrei dottið í hug, að verksmiðjurnar væru kannske orðnar á 4. millj. kr. að verðmæti, og að þar séu vélar og áhöld, sem þarf að endurbæta á hverju ári. Þeir hafa ekki hugleitt, að það taki neinn tíma og að það er ekki hægt að útvega t. d. vélarnar sumar nema með 4–5 eða 6 mánaða fyrirvara — mismunandi eftir því, hvernig verzlunarástandið er í þann svipinn. Eins og nú er, ætla ég, að ekki sé hægt að fá svo mikið sem smæstu vélarnar öðruvísi en með margra mánaða fyrirvara. Segjum, að verksmiðjustj. sýni ríkisstj. fram á, að það þurfi að útvega vélar fyrir næsta síldveiðitíma. Jú, það er hægt, en þær kosta 76 þús. kr. Þá þarf að bíða eftir samþykki Alþingis, sem kemur saman í febrúar. Svo er rætt um það fram og aftur á Alþingi, þar sem afgreiðsla þess fléttast saman við afgreiðslu ýmissa annara mála, og í apríl er samþ. að heimila stj. þessa ráðstöfun. Það verður þá kannske komið fram í sept., þegar vélarnar nást, og verksmiðjurnar hafa þurft að standa kyrrar yfir sumarið. Er það tilgangur hv. flutningsmanna? Eða kannske vakir það fyrir þeim, að þá sé jafngott, þó að kallað sé saman aukaþing til að samþ. þetta. (MG: Jú, ætli það mætti ekki?) Já, ætli ekki það? Ég heyri það á hv. 2. flm., að ekki yrði sá kostnaður talinn eftir, og sem flm. hefir hann sjálfsagt sett sín fingraför á frv.

Mér detta líka í hug breytingar, sem 9 eða 10 mánuði þarf til. Í öllum verksmiðjum ríkisins er eldþurrkun á síldarmjölinu, og mér er sagt, að það geti valdið því, að eggjahvítuefnin í mjölinu verði lítt uppleysanleg og komi þá ekki að notum við fóðrun. Þessvegna eru umleitanir farnar að berast um það úr markaðslöndunum, að þessu sé breytt og tekin upp gufuþurrkun. Ef það kemst á hjá keppinautum okkar, verður það óumflýjanlegt hér samstundis. Af því leiddi, að miklu meiri fjárhæð en 75 þús. kr. yrði að eyða til breytinga í það horf, sem kaupendur heimta. Okkur yrði nauðugur einn kostur — svo framarlega sem ekki yrði beðið þings og allar verksmiðjur ríkisins fengju að standa óhreyfðar yfir síldartímann — að afnema þetta ákvæði með bráðabirgðalögum, og sæist þá bezt, að það er illu heilli sett í frv. — Ég sé ekki vit í öðru en að ríkisstj. verði að hafa valdið til að ráða fram úr þessu á hverjum tíma, — ekki komi til mála að kalla saman aukaþing í sept., þó að breyta þurfi verksmiðjunum án tafar, eins og ég benti á með dæminu um gufuþurrkunina.

Þá er fjórða nýmælið, að ríkissjóður skuli ekki bera ábyrgð á þeim skuldum, sem síldarverksmiðjur ríkisins stofna til eftir 31. des. 1937, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi. — Ég veit ekki, hvaða áhrif þetta kynni að hafa á möguleika verksmiðjanna til að útvega sér rekstrarfé. Það gætu orðið slæm áhrif. Ég vil þá skjóta því til hv. flm., hvort þeim þætti ekki ráðlegt að bæta við í frv. beinni lagaheimild handa stjórn ríkisverksmiðjanna til þess að afla sér fjár erlendis. Þannig mætti afla rekstrarfjár fyrir vörur frá verksmiðjunum, ef verksmiðjustj. fengi leyfi til að ráða yfir þeim gjaldeyri, lofa honum upp í kostnaðinn. Ég heyri sagt, að nú sé búið að samþ. í hv. Nd., að útgerðarmenn megi ráðstafa einhverju af sinum gjaldeyri til að kaupa útgerðarvörur erlendis, — og að vissu leyti eyðileggur það gjaldeyrismálin. En ef það á að svipta ríkisverksmiðjurnar möguleikum til að fá lán hér í bönkunum, þá er það ekki hægt án þess að opna einhverja möguleika í staðinn. alveg eins og síldarverksmiðjan í Krossanesi hefir leyfi til að ráðstafa gjaldeyri, þannig að hún fær frjáls yfirráð yfir vörum, sem hún framleiðir, og andvirði þeirra til þess að fá erlenda mynt, eins ætti að mega leyfa ríkisverksmiðjunum það. Það verður að taka til athugunar, ef það er virkilega meining hv. flm. að svipta ríkisverksmiðjurnar þeirri ábyrgð ríkissjóðs, sem þær hafa notið til þessa.

Ekki sé ég betur en að dálítið sé rýmkað hér um möguleikana til þess að selja verksmiðjurnar. Það er kannske ekki afarstórt atriði. Það stendur í núgildandi lögum, að til þess þurfi samþykki beggja deilda Alþingis. En samkv. frv. er nóg, að sameinað þing geri ályktun um það. Það þýðir, að þá þarf færri menn til að samþ. — nú þarf 9 í Ed. og 17 í Nd. Þó að ég sé ekki að draga úr því, að það sé fullgild ályktun, sem sameinað Alþingi gerir, álít ég, að betur eigi við, að til þess að sala sé leyfileg, þurfi lög samþ. í báðum deildum.

Ég ætla ekki að ræða mikið um það nýmæli, að verksmiðjurnar skuli aðeins greiða 85% af verði síldarinnar við móttöku, því að hæstv. atvmrh. hefir sýnt, að það er ekki hægt að reka þessar verksmiðjur, ef því ákvæði yrði framfylgt, hvernig sem á stendur. Þær sögur og sannanir, sem hv. þm. S.-Þ. ber fyrir sig í þessu efni. eru í raun og veru einskis virði. Sjómenn úr öllum landshlutum koma með síld sína til Siglufjarðar og selja hana þar, ef ekki eru boðin betri kjör annarsstaðar. Og þegar þeir fara af skipunum í september, er gert upp við þá. Kæmi svo til þess, að uppbót yrði borguð á 85% verðið, væri ekki rægt að ná til þeirra. Það þýddi, að fjöldi sjómanna væri snuðaður um hlut sinn — um þann hluta af þessum 15%, sem á að halda eftir, sem verksmiðjustj. þættist geta borgað að reikningskilum sinum loknum.

Hv. þm. S.-Þ. talar um kaupfélögin eins og heilagan hlut og ætti ekki að misnota þau með samanburði við síldarverksmiðjur, því að þar hagar allt öðruvísi til. Þau ná yfir takmarkað svæði. Framan af ári er bændum lánað fyrir nauðsynjum, sem þeir síðan greiða með framleiðsluvörum sínum síðar á árinu, og þeim gerir svo sem ekkert til, þó að fullnaðar-reikningsskil dragist. Þetta eru menn, sem búa nálægt verzlunarstaðnum og kaupfélagsstjórnin þekkir og á stöðugt vissan aðgang að. Sama má segja um sölusamlagið í Vestmannaeyjum. Þar búa allir viðskiptamennirnir á sölustaðnum og alltaf hægt að gera upp við þá, en það á aðeins við lítinn hluta af þeim, sem verzla við síldarverksmiðjur ríkisins.

Þá vil ég benda á, að fresturinn, sem bæjarfélög, hreppsfélög, búnaðarfélög og samvinnufélög hafa til að panta síldarmjöl, er lengdur frá 31. ág. til 30 sept. Það er gífurlegur ókostur að þurfa að halda óseldu mjöli svo lengi aðeins til þess að vita, hvort einhverjum þóknast síðar meir að kaupa það innanlands. Í sept. getur legið fyrir boð, sem verður að taka þá strax eða sleppa. Verð getur fallið svo á erlendum markaði, að síldarverksmiðjur ríkisins verði fyrir stórtapi. Ég skil ekki, hvaða vit er í þessu — og skil þó, að hv. flm. hafa bara verið einsýnir í málinu, hugsað sem svo, að það væri gott fyrir bændur að vita sem nákvæmast um heyfeng í sept., áður en þeir ákveða fóðurbætiskaup. En þeir hafa ekki hugsað um verksmiðjurnar, sem þeir eru að semja lögin fyrir.

Það er ekki hægt annað en brosa, þegar hv. þm. S.-Þ. talar um ýtrasta sparnað í hvívetna. því að hvort sem menn kalla það last eða lof, verður ekki á móti því borið, að hann eyddi fé, meðan hann var við völd, eins og öllum vill verða, sem eitthvað vilja framkvæma. — Hann sagði líka eitthvað fallegt um, að það ætti að ríkja hlutleysi í verksmiðjustj. og hún yrði að vera ópólitísk. (JJ: Þetta var mjög alvarlega meint!). Vafalaust því að hann leggur til, að stjórnin sé eingöngu kosin pólitískt kosin hlutfallskosningu af öllum flokkum á Alþingi. (JJ: Þeir uppvega hver annan. — MG: Og kemur út núll). Það getur aldrei orðið ópólitískt, sem Alþingi kýs. Pólitíkin, eða öðru nafni þjóðmálin, hljóta að koma verksmiðjustj. við að vísu. En fremur mætti kalla það ópólitíska verksmiðjustjórn, sem t. d. væri þannig kosin, að útgerðarmenn tilnefndu einn manninn, sjómenn annan, en atvmrh. hinn þriðja.

Og það vil ég leggja áherzlu á, að það eru miklu meiri líkur til, að sú stjórn yrði starfsfær, ef 3 menn eru í henni, heldur en ef 5 menn, kosnir af Alþingi, ættu að stjórna saman. Þá eru meiri möguleikar til þess, að verksmiðjustjórnin öll sé viðstödd á Siglufirði um síldveiðitímann, en það mundu þessir 5 menn ekki verða. Hv. þm. S.-Þ. sagði, að rifrildið borgaði sig ekki. Alveg rétt. Og ef þetta verður samþ., sé ég ekki annað en verið sé að vekja upp gamalt rifrildi. Hver hefir heyrt um rifrildi síðasta árið í stjórn síldarverksmiðjanna? –Enginn hefir orð á því. Stjórnin virðist hafa verið alveg sammála um sínar framkvæmdir. Gerum ráð fyrir, að henni missýnist í einhverju; það er mannlegt. En þá eru meðlimir hennar of samhentir til að snúa því upp í brigzl hver um annan. Það hefir ekkert gerzt, sem minnir á það, þegar 5 menn voru í stj. og stóðu í rifrildi út á við og rifrildi hver við annan í blöðunum og í málaferlum hver við annan um meiðyrði. Þá töldu Alþfl.-mennirnir í nefndinni hana óstarfhæfa og sögðu sig úr henni. — Nú mundi hafa heyrzt hljóð úr horni, ef nokkur treysti sér til að segja, að verksmiðjustjórnin sé óstarfhæf. Ég veit vel, að sjálfstæðismenn deila á formann hennar. En hann hefir nú gert hreint fyrir sinum dyrum. Hitt hafa þeir aldrei sagt, að stjórnin væri óstarfhæf af því, að mennirnir í henni gætu ekki unnið saman.

Það er ástæða til að gruna Sjálfstæðisfl. og Framsfl. um undirmál um verksmiðjustjórnarkosning, ef þetta ákvæði frv. verður samþ. Það er grunur á, að þeir ætli að setja þá menn þar að, sem mestum ágreiningi ollu. Og þar sem frv. ákveður, að stjórnin skuli sjálf skipa sér formann, gæti ég trúað, að það væri í undirmálunum, að sá skyldi verða formaður, sem mestum hefir óheillunum valdið, — því vali væri nú þegar til lykta ráðið.

En ég velt, hvers vænta má. Það verður nákvæmlega sama rifrildið og tortryggnin og áður var gagnvart þeim, sem verða í verksmiðjustj., um, að þar sé ekki allt með felldu.

Ég sé því ekki betur en að þetta frv. sé að flestu leyti til hins verra, og í stað þess að draga úr hinu pólitíska rifrildi og skapa hlutleysi í verksmiðjunum framvegis, verði það þvert á móti til að auka rifrildið, gera allt pólitískara og innleiða hlutdrægni í stjórn verksmiðjanna, sem ég held ekki sé kvartað um hjá núv. stjórn. Reksturinn hjá þessari stjórn hefir gengið allsæmilega, eftir þeim tölum að dæma, sem hæstv. atvmrh. kom fram með í gær. Ég vil að vísu enga ábyrgð taka á, að tölurnar, sem voru nefndar, séu réttar. En ég álít, þangað til annað reynist, að yfirlitið sé rétt, og þá er afkoma síldarverksmiðjanna sæmileg, þrátt fyrir þetta verð. Hv. þm. S.-Þ. var alltaf að narta í verksmiðjuna á Seyðisfirði, sem hæstv. atvmrh. kom upp, og held ég sannast að segja, að hann hafi gert þetta til þess að geta nefnt verksmiðjuna á Norðfirði, sem hæstv. fjmrh. mun hafa staðið að. Getur verið, að mætti finna dæmi í sögunni, að svo hafi verið farið að áður.

Ég vil segja út af samanburðinum á kaupfélögunum og rekstri verksmiðjanna, að sá samanburður stenzt ekki, og skal ég nefna eitt dæmi því til sönnunar. Það er sameiginlegt álit allra kaupfélagsmanna nú, að það geti að vísu látið sig gera að lána í sveit, þar sem hver þekkir annan og kaupfélagsstjórinn veit um möguleika hvers eins til að standa í skilum. En í kaupstöðum yfirleitt sé það óhjákvæmileg nauðsyn að selja gegn staðgreiðslu, vegna þess að ekki er hægt að hafa neina hugmynd um, hvernig viðskiptamennirnir eru. Starfsmenn kaupfélaganna í bæjum þekkja þá ekki. Þeir eru í Reykjavík eitt árið, Hafnarfirði eða Akureyri næsta ár o. s. frv., og geta flutt sig með kaupmanna- og kaupfélagsskuldir, og það borgar sig bókstaflega ekki að eltast við að innheimta þessar skuldir. Þess vegna álíta kaupfélagsmenn í bæjum, að staðgreiðsla sé sjálfsögð. Á sama hátt verður að vera ákveðið verð hjá síldarbræðslum ríkisins, sem eiga mjög erfitt með að ná til þeirra, sem við þær hafa skipt, með eftirreikninga. Mér finnst þess vegna dæmið af kaupfélögunum ekki sanna nokkurn skapaðan hlut af því, sem hv. l. flm. vildi láta það sanna.

Það er sýnlegt, að þeir þm., sem að þessu frv. standa, hafa á engan hátt gert sér ljóst, hvílíkt feikna bákn rekstur síldarverksmiðja ríkisins er; það sýna hin ýmsu ákvæði, sem ég hefi bent á og eins hæstv. atvmrh., svo sem um endurbætur verksmiðjanna og hvernig eigi að fá rekstrarfé. Þeir hafa lítið hugsað um það. hvernig hag verksmiðjanna gæti verið borgið, eða þeim mönnum, sem skipta við þær, sem er meginhluti allra útgerðarmanna og sjómanna og stór hluti verkamanna landsins. Ég held, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, þurfi að taka það til rækilegrar íhugunar og bæta úr þeim stórkostlegu ágöllum, sem hlutu óhjákvæmilega að verða á þessu afkvæmi Framsfl. og Sjálfstfl., þegar það fyrst sá dagsins ljós.