10.12.1937
Efri deild: 46. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Pálmason) :

Ég hafði ekki búið mig undir að tala fyrir þessum brtt., sem n. flytur hér. Í fyrri brtt. er dregið úr ákvæðinu, sem er í frv., þannig að það er horfið frá því að ákveða nokkra hámarksupphæð til endurbóta eða nýbygginga á verksmiðjunum. Sannleikurinn er sá, að með eintómum lagaboðum verður afar erfitt að sjá borgið fyrirtæki, ef því er mjög slælega stjórnað, og ég fyrir mína parta hefi gengið inn á, að það væri eðlilegt að fara þá leið að telja upp hver mannvirki það væru, sem stj. verksmiðjanna væri ekki heimilt að leggja fé í nema með samþykki Alþ. Hinsvegar má alltaf deila um, hvort þetta ákvæði sé svo rúmt að undir það megi færa eitthvað af því, sem menn hefðu talið ástæðu til, að Alþ. hefði úrskurðarvald um.

Síðari málsgr. þessarar brtt. er ný, og álít ég nauðsynlegt, að hún komi inn í l., því að eins og frv. er nú, er stj. verksmiðjanna heimilt að gera umbætur á verksmiðjunum innan þess ramma, sem frv. setur, án þess að bera það að nokkru leyti undir ráðh. Það fannst n. ekki viðeigandi, því að ráðh. hlýtur að bera ábyrgð á stjórn verksmiðjanna, og okkur fannst sjálfsagt, að allar meiri háttar breyt. á verksmiðjunum væru alltaf bornar undir ráðh., og töldum við þá eðlilegt að leggja stj. þá skyldu á herðar, að við slíkar framkvæmdir léti hún fylgja ýtarlega grg. og kostnaðaráætlun. Ég held, að allir geti verið sammála um, að þessi síðari málsgr. sé til bóta.

Um 2. brtt. er fátt að segja. Í henni er reynt að skýra það fyrirkomulag, sem á að hafa um greiðslu á þeirri síld, sem kynni að vera lögð í verksmiðjurnar til vinnslu, og ég hygg, að flestir muni fallast á, að sú regla, sem þar er lögð til grundvallar, sé sanngjörn, en hún er sú, að þeir, sem leggja síld í verksmiðjurnar til vinnslu, eigi að fá greitt fullt raunverulegt verð, sem fæst fyrir afurðirnar að frádregnum kostnaði. En hinir, sem selja síldina föstu, ákveðnu verði, eiga engan rétt til uppbótar, þó svo fari, að hagnaður verði á þeirri síld, og okkur virtist rétt, að sá hagnaður, sem yrði á keyptri síld, yrði þá til tekjuauka fyrir verksmiðjurnar. Ef þetta fyrirkomulag verður tekið upp, þá er það í skemmstu máli sagt tilætlun okkar, að verksmiðjurnar eigi þá síld, sem keypt hefir verið föstu verði, og greiði aldrei út á hana meira en ákvæðisverð, en ef hagnaður verður samanborið við afurðasöluna, þá fá verksmiðjurnar þann hagnað. Verði aftur á móti tap á kaupunum, þá bera verksmiðjurnar það tap án þess að það geti færzt yfir á þá, sem lagt hafa síldina inn til vinnslu. T. d. er áætlað eitthvert verð fyrir síldina, og það verð köllum við 100%. Þeir, sem leggja síld til vinnslu, fá 83% útborgað af því, en þeir, sem selja síldina föstu verði, fá 100%. Nú reynist t. d. svo við uppgjör, að ekki hefst upp úr síldinni nema 90%. Þá fá þeir, sem hafa lagt inn síld, 5% viðauka, en verksmiðjurnar bera tapið á keyptu síldinni.

Ég held að n. hafi tekizt að orða þetta á þann hátt, að það valdi ekki ágreiningi við framkvæmdina. Ég tel að þetta atriði sé ekki lítils virði, vegna þess að verði reynt að leggja síldina til vinnslu í verksmiðjurnar, þá er fyrirkomulagið á greiðslunni þannig, að það er hvatning fyrir þá, sem byrja á þannig löguðum viðskiptum, að halda þeim áfram.

Um 1. brtt. má deila, en ég held samt sem áður. af því að það litur út fyrir, að allir aðiljar geti orðið sammála um hana að mestu leyti, að það sé þó viðunandi lausn og að þær skorður, sem reistar eru við því, að verksmiðjustjórnin leggi í óskynsamlegar framkvæmdir á byggingum mannvirkja eða kaupum á vélum, séu undir öllum heilbrigðum kringumstæðum nægilegar.