10.12.1937
Efri deild: 46. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. 3. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hafði gert nokkra grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt, við 2. umr., en sumar voru teknar aftur, eins og kunnugt er, til 3. umr. Ég hefi ekki tekið upp allar þær brtt., sem ég þá flutti, m. a. af því, að ein af þeim er tekin upp af n. við 6. gr. Aftur á móti flyt ég hér á ný, eins og ég þá boðaði, brtt. við 4. gr. 1. málsgr., um skipun síldarverksmiðjustjórnarinnar. Ég hygg að með minni till. væri nokkuð náð því marks, sem ég hygg, að sé almennur vilji allra þeirra, sem við verksmiðjurnar skipta og þurfa að hafa þeirra not. Með minni till. er það tryggt, að Alþ. hafi þarna fullkominn íhlutunarrétt með kosningu 2 manna í stj. verksmiðjanna. Ennfremur er mér fyllilega ljóst, eins og ég hefi áður drepið á, að hver ráðh., sem með atvinnumálin fer, hefir svo mikil afskipti af þessum stóra rekstri, að honum ber að tilnefna l mann til þess að eiga sæti í stj. verksmiðjanna, og það sé sá maður, sem hafi svo formennsku stj. á hendi. Ég gat þess nokkuð við 2. umr. málsins, hvað hér þarf að vera náið samstarf milli atvmrh. og formanns verksmiðjustj., svo að það væri ekki nema eðlilegt, að á hverjum tíma væri í stj. maður, sem nokkurn veginn er tryggt, að ráðh. telji sig geta haft sæmilega samvinnu við. Hinsvegar hefi ég nú gert till. um það, að stj. verksmiðjanna sé skipuð 5 mönnum, þó að ég áliti 3 manna stj. í raun og veru heppilegri margra hluta vegna, en þar sem sýnt er, að hv. d. vill ekki fallast á þá till. um 3 manna stj., þá sé ég mig knúðan til þess að fara að vilja hv. d., og geri ég því till. um 5 manna stj., sem í minni till. er að vísu gert ráð fyrir, að kosin verði með nokkuð öðrum hætti en frv. ætlast til. Í till. minni er ætlazt til, að þeir 2 menn, sem eru umfram hina 3, eigi að koma fram sem fulltrúar þeirra, sem gera út skipin og við verksmiðjurnar skipta og sjómannanna, sem á skipunum vinna, sem eins og ég hefi margsinnis tekið fram, eiga mjög mikilla hagsmuna að gæta, með tilliti til sinnar atvinnu, um það, hvernig rekstur þessara verksmiðja fer úr hendi. Þar sem enginn sérstakur félagsskapur er til meðal útgerðarmanna, ætlast ég til, að settar verði reglur af ráðh. um það, hvernig kosningin skuli fara fram. Ég gæti hugsað mér, að það mætti gera þannig, að allir þeir menn, sem hefðu viðskipti við verksmiðjurnar árið áður en kosningin fer fram, sem er sennilegt að yrði í byrjun árs, hefðu rétt til þess að greiða atkv. um fulltrúa útgerðarmanna. Að vísu geta komið til greina fleiri reglur, en mér hefir dottið þessi í hug. Það er engin ástæða til þess, að þeir útgerðarmenn, sem alls ekki skipta við verksmiðjurnar, hafi íhlutunarrétt um, hvaða maður skuli skipaður í stj. Aftur á móti lít ég svo á, að Alþýðusamband Íslands geti komið fram sem aðili fyrir hönd sjómanna um tilnefningu á fulltrúa þeirra í stj. verksmiðjanna, því að mestur hluti sjómanna, ef til vill að nokkrum prósentum undanskildum, sem á skipunum vinna, eru skipulagðir í því. Ég tel, að mín till. hafi miklu meiri kosti í sér fólgna heldur en sú till., sem í frv. felst um skipun stj. verksmiðjanna, því að í minni till. koma þeir réttu aðiljar til greina, sem mestra hagsmuna eiga að gæta í þessu sambandi, en það eru útvegsmenn og sjómenn og Alþ. að 2/5.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um ýmssa till. mína. Ég tel, að sú skipun, sem nú er ætlazt til að sé, muni fyrr eða síðar verða óframkvæmanleg. Þetta er ekki ólíkt því, sem áður hafði verið reynt og búið var að sýna, að var aðeins til niðurdreps fyrir þetta mikla fyrirtæki, sem ríkið með alþjóðarvelferð fyrir augum hefir nú með höndum.

Ég tek hér upp brtt. mína við 7. gr., en ég gerði nokkra grein fyrir henni við 2. umr., og skal ég því að þessu sinni láta það duga. Sömuleiðis hefi ég tekið upp brtt., sem tekin var aftur við 2. umr., við 14. gr., og gerði ég henni þá nokkur skil, svo að ég sé að svo komnu ekki ástæðu til þess að bæta þar fleiri rökum við, en ég sé, að tekin hefir verið til greina ábending mín um, að það hefði sínar verkanir, ef svo færi þar, sem síldarverksmiðjur ríkisins eru í litlum hreppsfélögum, að öll sú fjárhæð, sem hreppsfélögin þurftu til sinna nota, væri greidd af verksmiðjunum einum. Fyrir þetta er girt með brtt. frá hv. 2. þm. S.-M., sem ég er samþykkur. Það má ekki minna vera en að íbúar hlutaðeigandi hrepps verði að leggja á sig nokkrar byrðar, og hvort sem það gjald, sem ríkisverksmiðjurnar greiða, er hærra eða lægra, þá verður það ekki nema viss hluti af þörfum hvers bæjar- eða sveitarfélags. Mér er það fyllilega ljóst. að gagnvart einu bæjarfélagi, Siglufirði, hefir þetta sennilega enga þýðingu, því að það eru ekki líkur til, að sá hluti, sem verksmiðjurnar þar greiddu, þó að hann væri 1% væri nálægt því í af útgjöldum þessa bæjarfélags.

Þá skal ég gera grein fyrir skriflegum brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja. Um þá fyrri er það að segja, að annaðhvort hefir fallið niður í handriti hjá mér eða í prentun á þeirri till., sem þessi er brtt. við, til hvað langs tíma stjórn síldarverksmiðjanna skuli skipuð, sem sé til 3 ára. Síðari brtt. er við brtt. hv. þm. Vestm., en till. hans er um það, að í stað þess, að samkv. frv. eigi verksmiðjurnar að greiða 1% af brúttó andvirði seldra afurða í bæjar- eða sveitarsjóð, komi, að þær greiði ½%. Ég hefi lýst afstöðu minni til þessa atriðis. Ég er andvígur því, að þetta gjald sé lagt á og hefi fært rök fyrir því, en ef hv. d. finnst hún geti ekki skilið við þetta mál án þess að verða við ósk þeirra, sem hæst gala um þetta efni, þá tel ég, að þessi upphæð megi ekki hærri vera en ¼%. Ég álít, að það sé nægilegur skattur, sem yfirleitt er lagður á þá, sem við verksmiðjurnar skipta. Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þetta. Ef mig minnir rétt, þá var á þinginu í fyrra eða 1936, þegar um þetta var rætt, uppi tili. um ¼ %, og var mjög um deilt, hvort sú upphæð ætti að standa eða ekki. Ég var einn af þeim, sem voru mótfallnir því, en þar sem mér virðist nokkurt fylgi með því að skattleggja verksmiðjurnar, þá vil ég hafa þessa upphæð sem minnsta, rétt til þess að sýna nokkurn lit í þessu efni.

Um brtt. n. hefi ég það að segja, að ég hefi lýst mig samþykkan brtt. við 6. gr., sem virðist vera nokkur trygging fyrir því, að ekki sé settur óhæfilegur hemill á nauðsynlegar umbætur á verksmiðjunum. Ég mun einnig greiða atkv. með brtt. við 11. gr., þó að mér sé ekki fyllilega ljóst, hvort hún hefir nokkur bætt áhrif fyrir þá, sem við verksmiðjurnar skipta, en ég vil ekki skera mig út frá n., svo að ég hefi gengið inn á þessa till., enda á þetta mál eftir að ganga í gegnum þrjár umr. í hv. Nd., svo að þar býst ég við, að krufið verði til mergjar, hvort þetta ákvæði, sem n. leggur til, eigi að standa eða ekki.