14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bergur Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera með langar umr. um þetta mál við 1. umr. málsins, sízt við hv. þm. Ísaf., vegna þess, að við eigum sæti í þeirri n., sem vantanlega fær málið til meðferðar.

Ég vil þó gera fáeinar aths. við það, sem hv. þm. minntist á viðvíkjandi frv. Hann sagði, að það hefði verið sniðinn burt úr frv. sá aðalgalli, sem þar hefði verið, þar sem ekki var heimilt fyrir ríkisverksmiðjurnar að kaupa síld föstu verði. Ég verð að segja það, að ef maður lítur á þetta mál frá því sjónarmiði, hvað heppilegast sé, til þess að reka hlutaðeigandi fyrirtæki á fjárhagslega öruggum grundvelli, er enginn vafi, að það er það bezta fyrir alla hlutaðeigendur, að það væri algerlega skotið loku fyrir það, að hægt væri í byrjun síldarvertíðar að ákveða innkaupsverð á síld til vinnslu svo hátt, að hætta væri á því, að verksmiðjurnar biðu tjón af. Þetta er það, sem liggur til grundvallar þeim till., sem upprunalega voru í frv. um það, að láta ekki greiða út fullt verð fyrir síldina strax í byrjun, heldur ákveðinn hundraðshluta af því verði, sem gera mætti ráð fyrir, að verksmiðjurnar gætu borgað eða fengju upp úr síldinni, þegar þær hefðu unnið úr henni og selt hana. En hitt er annað mál, að ef menn vilja skoða málið frá öðru sjónarmiði en þessu, út frá því sjónarmiði, að auðvitað vilja þeir, sem selja síldina, fá sem mest verð fyrir hana, þá er ósköp eðlilegt, að menn vilji balda á móti svona ákvæði.

En það er bara eitt, sem verður að athuga í þessu sambandi: Er það til góðs fyrir hlutaðeigendur sjálfa? Er það til góðs fyrir þá, að það sé kannske borgað verð yfir síldveiðitímann. sem verksmiðjurnar þola ekki, — sem reynist hærra en verksmiðjurnar geta staðið undir? Er það til lengdar til góðs fyrir hlutaðeigandi sjómenn og útgerðarmenn?

Það hefir verið mikið talað um, hversu erfitt sé með fjárhag þessa lands, og allir vita, hvernig örðugleikarnir steðja að á öllum sviðum, sérstaklega hvað snertir sjávarútveginn. Hvað lengi gæti það gengið, ef hugsunarlítil verksmiðjustjórn ákvæði alltaf verðið í byrjun síldarvertíðar svo hátt, að það yrði alltaf tap á verksmiðjunum ár eftir ár? Hvað yrði langt þangað til þessi holgröfnu einkafyrirtæki gætu ekki staðizt með því að borga slíkt verð, og hvað væri langt þar til ríkið gæti ekki heldur staðið stuttum af halla síldarverksmiðjanna?

Mér finnst ekki ástæða til að vera með neinn æsing í þessu máli, heldur líta á þetta frá því mikla hagsmunasjónarmiði fyrir alla hlutaðeigendur, bæði ríkið og einstaklingana í landinu. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því, að þessi tæki, sem ríkið og einstaklingar hafa komið upp með stórum fjárframlögum og erlendum lántökum, geti haldið áfram að starfa og halda uppi þeim atvinnuvegi, sem við þau er bundinn.

Hv. þm. Ísaf. taldi, að nú væri leiðréttur þessi ágalli, sem hann sagði, að hefði verið upprunalega á þessu frv. og væri stórvægilegasta atriðið í þessu máli. En ég er hræddur um, að það sé annar stærri ágalli frá hans bæjardyrum séð. Það er sú breyt., sem á að gera á stj. síldarverksmiðjanna. Ég býst við, að það mál sé honum enn viðkæmara en hitt, án þess ég vilji fullyrða neitt um það. En hv. þm. verður að setja sig í spor þeirra manna, sem hér vil,ja breyt. á, og sjá, að það er ekki nema eðlilegt, þar sem um er að ræða fyrirtæki eins stærsta atvinnuvegarins. sem hann á allt sitt undir og ríkissjóður á eins mikið undir og nú er, að þá sé reynt að koma þannig fyrir stj. þeirra, að hinir helztu pólitísku flokkar í landinu fái þar allir fulltrúa. Heildarútkoman gæti orðið eitthvert jafnvægi í störfum þessara fyrirtækja og að enginn einn flokkur geti haft þau sér til framdráttar. Ég er ekki að segja, að núv. stj. verksmiðjanna hafi farið þannig að ráði sinu. En það er vitanlegt, að með því fyrirkomulagi, sem nú er á stjórn verksmiðjanna, þá er það einn einasti flokkur í landinu, sem hefir bæði töglin og hagldirnar í allri verksmiðjustjórninni. Það er vitað, að sá eini framsóknarmaður, sem er í stj., var andstæður ákvæðum um 8.00 kr. verðið í vor, en hann var atkv. borinn af jafnaðarmönnunum í stj.

Hvað sem segja má um þetta, hvort þeir eða hann hafa haft rétt fyrir sér, þá er það vist, að það geta alltaf komið fyrir stór atriði í stj. verksmiðjanna, sem mönnum þykja miklu skipta í pólitískum málum, og þess vegna er sjálfsagt að hafa sem bezt jafnvægi milli flokka í stj., og það verður varla fengið betur en með því að láta stærstu þingflokkana hafa hlutfallslega jafnsterk ítök í stjórn verksmiðjanna eftir þingmannafjölda.

Hv. þm. sagði, að þetta væri óverjandi, sérstaklega að fjölga stjórnendunum úr 3 upp í 5, nema því aðeins, að að baki stæðu samningar milli Framsfl. og Sjálfstfl. um það, hverjir eigi að vera í stj. og hvort þeir geti unnið saman. Ég verð bara í þessu sambandi að segja það, að mér finnst stórkostlega hneykslanlegt, hvernig blað þessa hv. þm. hefir leyft sér að tala um leynisamninga og leynimakk milli Framsfl. og Sjálfstfl. í síldarverksmiðjumálunum. Það hefir ekkert leynimakk átt sér stað. Það var skipuð n. fyrri hluta þessa árs til þess að athuga þetta mál. Í henni áttu sæti menn frá þremur stærstu þingflokkunum, og það varð samkomulag milli fulltrúa Framsfl. og Sjálfstfl. í þeirri n. Það er ekkert leynimakk, þótt orðið hafi samkomulag um þessa till.; það er yfirlýst skoðun þessara fulltrúa flokkanna, sem þarna er um að ræða. Það er talað um eitthvert leynimakk milli formanns Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Þetta er sett fram í lýðskrumstilgangi. Hv. þm. Ísaf. hefir orðið það oft fyrir ádeilum og ómaklegum ádeilum í blöðum andstæðinga sinna, að hann getur dæmt um það, hversu gott er að fá slíkar óréttmætar ákúrur og þarna er um að ræða. Hér er ekki um neitt leynimakk að ræða, og það er ekkert verið að spyrja um það, hvorki af Sjálfstfl. eða Framsfl., hvaða menn hinn flokkurinn mundi setja í verksmiðjustj., frekar en það hefir verið leynimakk milli mín og hv. þm. Ísaf. um það, hvaða mann jafnaðarmenn myndu setja í stj. Fyrst og fremst á frv. eftir að ná samþykki, og það verður hver flokkur að segja fyrir sig, hvaða mönnum hann treystir í þetta.

Mér finnst engin ástæða til að ætla, að menn, sem skipaðir eru af 3 flokkum, séu ekki það samvinnuþýðir og færir, að þeir geti komið sér saman í stj. og verið ábyrgðar sinnar meðvitandi. Ég vona, að valið takist þannig hjá þing- flokkunum, að svo verði.

Þá minntist hv. þm. á það, að vont væri að hafa stj. eins mannmarga og frv. gerir ráð fyrir, vegna þess m. a., að oft þyrfti að kalla hana saman með stuttum fyrirvara. Ég vil benda hv. þm. á 4. gr. frv., en þar er ákvæði um, að stjórnarnefndarmenn skuli hafa fast aðsetur á Siglufirði þenna hluta ársins, sem verksmiðjurnar eru reknar, nema þeir séu fjarverandi í erindum verksmiðjanna. Þetta álit ég nægilegt, en hitt tel ég ekki gerlegt, að setja varamönnum sömu skilyrði. — Hv. þm. telur óþarfa að hafa þrjá endurskoðendur, og vel má vera, að einum færum manni sé jafnvel til þess trúandi. En ég álít, að það sé bezt fyrir stj., að endurskoðendurnir séu hver af sínu sauðahúsi; þeir yrðu þá síður tortryggðir.

Hv. þm. kveðst hafa heyrt talað um ríkisbræðslurnar sem illa stæð fyrirtæki. Ég veit ekki. hverjir hafa mælt slíkt. En ég efa ekki, að sú skýrsla, sem hv. þm. gaf um hag verksmiðjanna, sé rétt, það langt sem hún nær. En ég er bræddur um, að verðið, sem ákveðið var í vor — átta krónur á mál —, kunni að hafa verið ákveðið of hátt. Nú er það svo, að mikið af síldarlýsi liggur óselt, að því er ég bezt veit milljóna króna virði, ef það selst. Og sé skýrslan miðuð við góða sölu á öllum framleiðsluvörum verksmiðjanna, þá er fullsnemmt að slá því föstu. að útkoman hafi orðið góð. Og það er ekki leið til að gera menn örugga um afkomu fyrirtækjanna, að meinast við því að settar séu skorður við, að verðið sé ákveðið of hátt og of mikið greitt út áður en vitað er, hvernig hagur verksmiðjanna verður. Ég hefi ekki heldur séð ástæðu til þess, að fyrningargjöld af vélum og áhöldum eigi að lækka úr 5% í 2%.

Tilgangur ákvæðisins í 12. gr. um að ríkisstj. ákveði hámarksverð á síldarmjöli til samvinnufélaga, bæjarfélaga og hreppsfélaga er sá, að hægt sé á erfiðum tímum að veita þessum aðiljum síldarmjöl við vægu verði. Ég sé ekki annað en eðlilegt sé að taka þá einnig tillit til kostnaðarverðsins. Þetta getur ekki komið að sök, þar sem stjórnin á að ákveða hámarksverðið að fengnum tillögum verksmiðjustjórnar, en annars er ekki hægt að binda hendur ríkisstj. í þessum efnum.

Þá sagði hv. þm., að með 14. gr., er fjallar um það, að verksmiðjurnar skuli greiða ½% af brúttóvirði seldra afurða ár hvert til bæjarsjóðs eða sveitarsjóðs, þar sem þær eru starfræktar, sé verið að leggja þungar álögur á verksmiðjurnar. Hv. þm. gat ekki um það, að jafnframt þessu ákvæði um, að ekki megi leggja á verksmiðjurnar útsvar eða tekju- og eignarskatt, og upphæðin er þar greiða bæjar- eða sveitarsjóði má ekki fara yfir 25% af útsvörum viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags það ár. Og enginn er kominn til að segja, að þessi upphæð verði hærri en samanlagt útsvar og tekju- og eignarskattur myndi hafa orðið samkv. venjulegum reglum. Hv. þm. getur því ekki sýnt fram á, að með þessu sé verið að þyngja byrðar verksmiðjanna.

Þá minntist hv. þm. á ákvæði 7. gr. og taldi það óheppilegt, að ríkissjóður væri ekki látinn bera ábyrgð á þeim skuldum, sem ríkisverksmiðjurnar stofna til eftir 31. des. 1937, nema heimild sé veitt til þess af Alþ. Hv. þm. var þó ekki harður á þessu, enda er það ekki mikið atriði,. ef verksmiðjurnar eru reknar á heilbrigðan hátt, svo að þar sé ekki um aðra áhættu að ræða en þá óhjákvæmilegu, sem leiðir af aflabresti eða vondum eða versnandi markaði og ekki verður séð fyrir.

Að lokum vil ég algerlega mótmæla því, að um þetta mál hafi verið gerður nokkur leynisamningur milli Framsfl. og Sjálfstfl. Hv. þm. Ísaf. getur sannfært sig um stefnu Framsfl. í þessum málum með því að kynna sér samþykktir flokksþingsins, er kom saman í febrúar síðastl., og svo borið þær saman við stefnu þessa frv. Hann mun þá komast að raun um, að frv. er í aðalatriðum í samræmi við þær samþykktir.