14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég mun ekki ræða einstakar greinar frv. við þessa umr., heldur tala um málið almennt. Ég tel ástæðu til þess, þar sem þetta frv. gerir miklar breytingar á stjórnarstefnu síldarverksmiðjanna, og hér á að skera úr því, hvernig Alþ. vill, að þessum stærstu fyrirtækjum, sem ríkið rekur, sé stjórnað í framtíðinni. Það er því mikils um vert, að hv. d. geri sér það ljóst þegar í upphafi, um hvað er hér barizt.

Ég er sammála hv. þm. Barð. um það, að bezt sé að ræða mál þetta æsingalaust. Þó hefir farið svo, að í umr. um þetta mál í hv. Ed. hafa öldurnar risið hærra en um nokkurt annað mál á þessu þingi. Það kom fram í umr. yfirlýsing frá hv. þm. S.-Þ., form Framsfl., á þá leið, að hann sem bankaráðsmaður Landsbankans mundi ekki sætta sig við þá afgreiðslu, sem varð á málinu í hv. Ed., og mundi reyna að koma því í gegn á öðrum vettvangi, sem þingdeildin ekki fékkst til að samþykkja. Ég sé ástæðu til að taka þessa yfirlýsingu til rækilegrar athugunar. — Þegar ákveða skal, eftir hvaða principum síldarverksmiðjurnar skulu reknar, kemur tvennt til greina. Í fyrsta lagi er hægt að stjórna þeim með hag almennings fyrir augum og sjá þó um að verð það, er sjómenn og útgerðarmenn fá fyrir síld sína í hræðslu, sé eins hátt og heilbrigður rekstur verksmiðjanna frekast leyfir. Hin aðferðin er sú, að reka verksmiðjurnar sem gróðafyrirtæki, m. ö. o. í sama anda og einkafyrirtæki. freista þess að láta sem allra mestan gróða verða á rekstri fyrirtækjanna, en það þýðir, að reka verksmiðjurnar á þann hátt, sem aðrir bræðslueigendur í landinu mundu helzt óska þess. Mönnum getur ekki dulizt það, að hér er um tvær ólíkar stefnar að ræða. Í fyrra tilfellinu er fyrst og fremst tekið tillit til sjómanna, smáútvegsmanna, til almennings, en í síðara tilfellinu er fyrst og fremst tekið tillit til gróða verksmiðjanna, og þar með til hagsmuna þeirra einstaklinga, sem eiga samskonar fyrirtæki. Sé miðað við gróðann, verða ríkisverksmiðjurnar að hafa verðið til sjómanna sem lægst, og yrði það til þess að hjálpa auðmönnunum er ei;a síldarverksmiðjur, til að lækka síldarverðið úr hófi fram. Hér er því um það að ræða, hvort á að reka síldarverksmiðjur ríkisins með hag almennings fyrir augum, eða miða rekstur þeirra við hagsmuni þeirra einstaklinga, sem eiga aðrar síldarverksmiðjur. Það munu ekki vera nema 3-4 félög, sem eiga síldarbræðsluverksmiðjur, og stendur því baráttan um það, hvort taka á frekar tillit til hagsmuna yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar eða nokkurra auðmanna.

Í þessu frv., eins og upphaflega var frá því gengið af aðalflm., hv. þm. S.-Þ., var gert ráð fyrir, að verksmiðjurnar mættu ekki greiða út nema 85% af áætluðu kaupverði bræðslusíldarinnar. Þetta ákvæði þýðir, að eftir að búið er að áætla, hvað fást muni fyrir afurðir verksmiðjanna, og ákveða kaupverð síldarinnar þar eftir, verða dregin 15% frá því áætlaða sannvirði og það greitt út í hönd sem borgun til sjómanna og útgerðarmanna, og sjómenn ættu þá óvíst um að fá nokkuð meira. Segjum svo, að bræðslusíldarverðið sé ákveðið 7 kr. á mál, þá yrði borgað út rúmar 6 kr. Allur þorri sjómanna og útgerðarmanna mundi þá vera fús til þess að selja öðrum síldina á ca. 6 kr., þar sem þeir voru ekki vissir með að fá nokkurntíma hærra verð fyrir hana. Með þessu móti hefðu þá ríkisverksmiðjurnar hjálpað til að lækka verðið á einni aðalvöru sjómanna, til þess eins að auka gróða þeirra auðmanna, sem eiga síldarverksmiðjur. — Hv. Ed. breytti þessu ákvæði frv. í það horf sem nú er, að verksmiðjurnar megi kaupa bræðslusíldina föstu verði. Út af þessari breytingu var það, sem form. Framsfl., hv. þm. S.-Þ., gaf út yfirlýsingu sína um, að hann sætti sig ekki við afgreiðslu Alþ. og mundi sjá til þess sem bankaráðsmaður Landsbankans, að þessu yrði ekki svo hagað í framkvæmd. Ég tel, að þm. þeir, sem breyttu þessu ákvæði í hv. Ed., hafi gert það í samræmi við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Hótun hv. þm. S.-Þ. stjórnast af öðrum öflum, sem ég álit fulla nauðsyn á að hv. Alþ. geri sér grein fyrir. Það er ekki í fyrsta skipti, að slíkar hótanir koma fram gagnvart Alþ.

Að mínu áliti er það bæði varhugavert og vítavert, að í lýðræðislandi, þar sem Alþ. á að vera æðsta valdastofnun þjóðfélagsins, að þm. skuli leyfa sér að koma með yfirlýsingu sem þessa. Slík afskipti og þau, sem hér er gert ráð fyrir af hendi sterkustu fjármálastofnunar landsins, eru stórhættuleg lýðræðinu í landinu og eitt alvarlegasta fyrirbrigðið í íslenzkum stjórnmálum nú á dögum. Hér verður Alþ. að .skera úr því, sýna það í verki, hvort löggjafarvaldið er raunverulega í höndum þess, en ekki einhverrar annarar stofnunar. Það verður að fást úr því skorið, hvort það eru hinir kjörnu þjóðfulltrúar, sem eiga að ráða, eða einhverjir aðrir menn úti í Austurstræti.

Ég ætla að líta dálítið aftur í tímann, vegna þess að hér á einmitt í hlut form. Framsfl., hv. þm. S.-P. Ég vil leyfa mér að vitna í ummæli hans. er hann viðhafði eitt sinn er líkt stóð á og nú. Árið 1932 var saltfisksalan komin í öngþveiti, og var talið hæpið, að það hlutafélag, sem sterkast var á sviði saltfisksölunnar, Kveldúlfur, gæti haldið yfirráðum sínum þar. Það þarf ekki hér að skýra hin nánu tengsl, sem eru milli þessa fyrirtækis og Landsbankans, þau eru alþjóð kunn. ekki sízt fyrir þær útvarpsumræður, er fóru fram héðan af Alþ. í fyrravetur. Kveldúlfur skuldar Landsbankanum mikið fé, og Landsbankanum er því umhugað um að viðhalda völdum Kveldúlfs. Árið 1932 var svo komið, að þetta vald, sem segja má, að náðst hafi í frjálsri samkeppni, var í hættu. En til að tryggja völd félagsins, var með tilstyrk bankanna komið á fót fisksöluhring, Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda. Jónas Jónsson, hv. þm. S.-Þ., skrifaði þá í „Tímann“, að. þetta hefði verið hægt að framkvæma með tvennu móti, annaðhvort með löggjafarvaldi Alþ. eða með harðstjórn bankanna. — Hv. þm. setur þarna þessi tvö völd alveg að jöfnu. Hann er það snjall stjórnmálamaður, að hann sér opnar þessar tvær leiðir, að Alþ. setti l. um einkasölu, eða þá að Landsbankinn kæmi á einkasölu fyrir Kveldúlf. Það varð úr, en þegar sú ráðstöfun þótti ekki nógu örugg, þá bætti hv. þm. G.-K., sem þá var atvmrh., úr því með að gefa út bráðabirgðal. um einkasölu á saltfiski og fékk sölusambandinu hana í hendur.

Næst tók Alþ. þessi mál til meðferðar á þinginu 1934. Þá gerði Alþ. tilraun til að lyfta fargi sölusambandsins af smáútvegsmönnum með löggjafarvaldi sínu, og l. um fiskimálanefnd voru samþ. Þau l. voru samþ. eftir harðar deilur, og þrátt fyrir mótmæli Landsbankans. Ég átti um þessar mundir í ritdeilu við hv. þm. S.-Þ. vegna þess að ég hafði sýnt fram á hið óheillavænlega vald fiskhringsins. Hv. þm. S.-Þ. ritaði þá m. a. eftirfarandi í „Samvinnuna“:

„Annars er heppilegt að benda E. O. á, að Alþingi 1934 breytti skipulagi fiskimálanna með löggjöf, sem bankarnir voru mótfallnir. Kjósendur landsins og fulltrúar þeirra á þingi og í stjórn voru, er á reyndi, húsbændur á sínu heimili, jafnvel yfir hinum voldugu bönkum. E. O. brást því spádómsgáfan hér sem endranær“.

Þarna talar form. Framsfl. um samþykkt l. um fiskimálanefnd sem sigur Alþ. yfir bankavaldinn, þingmenn hefðu einu sinni sýnt, að þeir væru húsbændur á sinu heimili. En hvað gerðist? Að nokkrum mánuðum liðnum voru þessi l. um fiskimálanefnd, er samþ. höfðu verið á Alþ. gegn mótmælum Landsbankans. numin úr gildi með bráðabirgðal. af atvmrh. og allir, sem kunnugir voru málavöxtum, vita að það var vald Landsbankans, sem knúði þetta fram samkvæmt óskum Kveldúlfs.

Í fyrra tilfellinu hafði það sýnt sig, að Landsbankinn hafði vald, sem hv. þm. S.-Þ. setti á borð við vald Alþ. Í síðara tilfellinu, eftir að hv. þm. S.-Þ. er búinn að lesa því hróðugur yfir, að allt sé húsbóndi á sínu heimili, þá er l. sem Alþ. hefir samþ., breytt með bráðabirgðal., vegna þess að Landsbankinn krefst þess. Óhætt er að segja, að þessi atburður er sá smánarlegasti og hættulegasti ósigur, sem lýðræði og þingræði á Íslandi hefir beðið á undanförnum árum. Það er ófært ástand að fjármálastofnun, sem á að vera undirgefin ríkisvaldinu, skuli geta sett sig yfir sjálft Alþ. hvenær sem henni þóknast. Slíkt ástand grefur undan lýðræðinu og þingræðinu.

Mér virðist. að nú í sambandi við frv. það, sem hér er til umr., sé verið að undirbúa þetta sama, og nú álít ég, að verði að reyna á það, hvort Alþ. hefir raunverulega það vald, sem því er ætlað að hafa. Ég álít, að þarna komi fram barátta milli tvenns, í fyrsta lagi milli lýðræðisins í landinu og þess einræðis, sem peningavaldið alltaf reynir að beita, og í öðru lagi barátta milli hinna vinnandi stétta, sjómanna, smáútgerðarmanna og annara, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi víð verksmiðjurnar annarsvegar og hinsvegar hagsmuna einkafyrirtækja, sem verksmiðjur eiga hér á landi, og sérstaklega gegnum h. f. Kveldúlf eru nátengd Landsbankanum. Það má þess vegna ætla, að Landsbankinn — til þess að hlynna að gróða þessara fyrirtækja — sé sérstaklega til í það að beita sinu valdi líka gegn löggjafarvaldi A1þ. Ég álít því, að það verði að reyna á það í þessu sambandi, hvort A1þ. á að ráða sínum málum eða ekki.

Einmitt í 9. gr. þessa frv. er það ákvæði sett inn, að verksmiðjurnar kaupi ekki síld af framleiðendum, nema með sérstakri heimild frá atvmrh., en taki við henni til vinnslu fyrir þeirra reikning. — Nú er það vitanlegt, að síldarverksmiðjur ríkisins eru upp á Landsbankann komnar með rekstrarfé, og meiningin hjá form. Framsfl., sem gaf þá yfirlýsingu, sem ég gat um áðan, er að vinna að því í bankaráðinu, að þegar stjórn ríkisverksmiðjanna kemur þangað til þess að biðja um rekstrarfjárlán, þá verði því til svarað, að Landsbankinn láni ekki slíki, nema með því skilyrði, að ekki sé borgað út nema 85% af áætlunarverði síldarinnar. Og þannig ætlar Landsbankinn að koma því inn, sem Ed. nú hefir samþ. og ég vona, að Nd. samþ. líka, að ekki skuli vera.

Ég álít, að nauðsynlegt sé að reyna að koma í veg fyrir þetta, og því verði ýtarlega athugað af þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar. að setja þarna inn ákvæði, sem tryggi það, að síldarverksmiðjur ríkisins verði reknar með hag almennings fyrir augum og þurfi ekki að lúta boði og banni Landsbankans, eða a. m. k. þurfi ekki að framkvæma þá aðferð viðvíkjandi kaupunum á síld, sem er þveröfug við hagsmuni síldveiðimanna og yfirlýstan vilja Alþ.

Ég álít þess vegna, að nauðsynlegt sé að bera fram brtt. við þetta frv., sem tryggi, að Alþ. þori að sína það í reyndinni, sem hv. þm. S.-Þ. talaði svo fagurlega um 1934, að það sé húsbóndi á sínu heimili. — og láti hvorki Landsbankann né aðra taka af sér völdin hvað þetta snertir.