14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Hv. þm. Barð. kom í sinni ræðu nokkuð inn á það spursmál, hvort réttara mundi vera að kaupa síldina föstu verði eða hafa þá aðferð, sem sérstaklega hefir verið barizt fyrir af hv. þm. S.-Þ., að greiða vissan hluta af áætlunarverði við móttöku og svo síðar það, sem fram yfir verður, þ. e. a. s. ef það verður nokkuð. Ég vil minna hv. ]nn. á það, sem ég að vísu geri ráð fyrir að mönnum sé fullkunnugt um, að í lögunum hefir alltaf verið gert ráð fyrir því, að síldin væri ekki keypt föstu verði, heldur væri greiddur viss hluti út á hana við móttöku, en jafnhliða því hefir í l. verið heimild til þess að kaupa síldina föstu verði. M.ö.o. hefir verið gert ráð fyrir því, að meginreglan væri sú, að verksmiðjurnar keyptu ekki síldina föstu verði. En kaupheimildin í þessu frv. er nákvæmlega sú sama og alltaf hefir verið í l. þó að gert hafi verið ráð fyrir af hálfu löggjafans, að hún yrði ekki notuð nema með þyrfti. Heimildin hefir þó alltaf verið notuð, að undanteknu árinu 1930. Þá hafði síldarverðið verið áætlað, að ég hygg, á 7 kr. málið, og borga átti út 70%, eða 4,90 kr. fyrir málið. En svo var bara aldrei borgað neitt meira, og síðan hefir enginn maður stungið upp á því í verksmiðjustj., að verksmiðjurnar yrðu reknar á þann hátt, að þær keyptu ekki síldina, þangað til nú að Þorsteinn M. Jónsson lagði til, þegar verið var að ákveða verð síldarinnar á síðastl. vori, að þessi aðferð yrði viðhöfð, þ. e. a. s. að ekki yrði greitt nema 85% af áætlunarverði við móttöku. Það er langt frá mér að vilja vera með aðdróttanir í garð þessa mæta manns, en ég hafði það á tilfinningunni, að honum væri ekki nein sérstök alvara með þessa till., því að það hefir sýnt sig í rekstri verksmiðjanna og mun halda áfram að sýna sig, að þessi leið, sem framsóknarmenn hafa talað um sem eitthvað sérstakt flokksmál sitt — sem það reyndar alls ekki hefir verið í framkvæmdinni — er ófær. Það er ekki hægt að reka verksmiðjurnar á þann hátt. Ég skal að vísu játa, að ég fyrir mitt leyti teldi það heilbrigðara, en það er bara ekki framkvæmanlegt, og liggja til þess margar ástæður. Fyrsta ástæðan er sú, að ríkisverksmiðjurnar fá nú ekki nema 40% af þeirri bræðslusíld, sem hér er lögð í land, og ef þær tækju upp þá aðferð, sem framsóknarmenn nú hafa stungið upp á, mundi það brátt koma í ljós, að verksmiðjur einstakra manna gætu, þegar hörgull er á síld eins og oft kemur fyrir, sett síldarverðið örlítið hærra, t. d. 10–15 aurum hærra á mál, og afleiðingin yrði sú, að þær fengju alla síldina. Og í öðru lagi gæti þetta orðið til þess undir vissum skilyrðum, að þær þyrftu ekki að borga fullt verð fyrir síldina, því að það er nú einu sinni svona, að menn vilja heldur vera vissir með lægra síldarverð heldur en að eiga von í uppbót einhvertíma seinna, og er ekki hægt að lá mönnum það. Nú get ég ímyndað mér, að hv. þm. Barð. komi og segi við getum líka lögleitt það, að verksmiðjur einstakra manna megi ekki borga nema 85% út á síldina við móttöku. (BJ: Slíkt er ekki hægt að lögleiða). Mér þykir vænt um að fá þessa yfirlýsingu frá lögfræðingi sjútvn., vegna þess að formaður Framsfl. var að hóta þessu við umr. í hv. Ed. nú fyrir nokkrum dögum. Og ef þetta er rétt. sem hv. þm. Barð. segir, sem ég á engan hátt vil draga í efa, að ekki sé hægt að lögleiða það, að verksmiðjur einstakra manna megi ekki greiða nema 85% af síldarverðinu við móttöku, mun það þá ekki vera nokkuð þverlega brotið gegn landslögum, ef Landbankinn með fjármálaalmætti sínu knýr fram mál, sem Alþ. sjálft hefir ekki leyfi til að lögfesta. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Barð. muni vera mér sammála um það, að æðsta valdið í landinu á að vera hjá Alþ. Það má ekki gera neitt, sem fer í bága við stjskr., og ef það er stjskr.brot af Alþ. að ákveða það, að verksmiðjur einstakra manna skuli aðeins borga út 85%við móttöku, hvaða vit væri þá í því, að Landsbankanum héldist uppi að ákveða slíkt?

Það er margt fleira en þetta, sem gerir það að verkum, að í framkvæmdinni er ekki hægt að fara eftir þeim lögum, sem ákveða það, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli aðeins greiða 85% af verðinu við móttöku. M. a. það, að síldarverðið hefir í mörg ár verið svo lágt, að það hefir bókstaflega verið ómögulegt fyrir útgerðarmenn og sjómenn að stunda síldveiðar, ef ríkisverksmiðjurnar hefðu ekki borgað út fullt áætlunarverð. Ríkisverksmiðjurnar hafa ekki starfað lengur en síðan 1930, en á 4 árum af þessum 8 árum hefir síldarverðið ekki verið nema 3 kr. Og ég fullvissa hv. þm. um það, að bókstaflega hefði verið ómögulegt að gera út á síldveiðar, ef ekki hefðu fengizt útborgaðar strax þessar 3 kr. út á síldina við móttöku. Ég vil líka benda hv. þm. Barð. á það, að verksmiðjustjórnendur, hverjir sem þeir hafa verið. og hvort sem þeir hafa tilheyrt Alþfl. Framsfl. eða Sjálfstfl., hafa alltaf allir verið á einu máli um þetta atriði, að kaupa síldina föstu verði, því að annað er ekki framkvæmanlegt. Og fyrst það er staðreynd, að þessi aðferð er ekki framkvæmanleg, hvaða þýðingu hefir þá að setja þetta ákvæði í lögin? Og fyrst Alþ. hefir ekki leyfi til þess gagnvart stjskr. landsins að lögbjóða einstökum verksmiðjum, að þær megi ekki borga meira en 85% við móttöku, hvaða vit er þá í því, að Alþ. leyfi nokkurri annari stofnun landsins að gera slíkt?

Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann vildi halda því fram, að ég hefði ekki gagnhugsað þetta mál, en ég get fullvissað hann um það, að ég hefi velt þessu rækilega fyrir mér, og þegar ég þar á ofan hefi sömu skoðun á þessu og allir þeir, sem í stjórn síldarverksmiðjanna hafa setið fyrr og síðar, þá virðist mér allar líkur benda til þess, að ég muni hafa rétt fyrir mér. enda fór það svo, að heimildin til þess að kaupa síldina — þessi heimild, sem alltaf hefir verið notuð nema árið 1930 — var sett inn í lögin í hv. Ed., og ég veit ekki betur en, að a. m. k. þrír framsóknarmenn sætu hjá við þá atkvgr.

Hv. þm. Barð. taldi, að þessi kaupaheimild mundi verða ákaflega tvíeggjuð í höndum „ábyrgðarlítillar og hugsunarlítillar verksmiðjustjórnar“, eins og hann orðaði það. Nú langar mig til að spyrja hv. þm., hvort hann geri ráð fyrir því, að sú lagabreyt., sem hans flokkur nú ber hér fram á Alþ. muni verða þess valdandi, að í stjórn verksmiðjanna veljist ábyrgðarlitlir og hugsunarlitlir menn. Ef hann gerir ekki ráð fyrir því, þá er þessi varnagli hans viðvíkjandi síldarverðinu alveg tilefnislaus. Geri hann hinsvegar ráð fyrir því, að á þessu sé nokkuð mikil hætta, þá vil ég skora á hann að benda á einhverja aðra leið um skipun verksmiðjustj., svo ekki þurfi að óttast, að þangað veljist ábyrgðarlitlir og hugsunarlitlir menn.

Þá var hv. þm. Barð. eitthvað að tala um það, að þetta mál þyrfti að ræðast án allra æsinga. Ég fyrir mitt lyti þakka fyrir ágætt ráð, en ég þykist hafa hagað orðum mínum þannig, að þau séu í alla staði þingleg og án allra æsinga, og ég hefi ekkert farið út fyrir það málefni, sem hér er á dagskrá.

Hv. þm. Barð. hélt því einnig fram, að mér mundi vera sárara um annað atriði í þessum lögum heldur en um það, hvort kaupaheimildin væri í lögum eða ekki, og átti hann þar við kosninguna í stjórn verksmiðjanna. Ég væri miklu meira á móti frv., ef það hefði komið óbreytt eins og það upphaflega var, heldur en þó þetta ákvæði sé um stjórnarkosninguna, sem ég þó tel, að geti verið skaðlegt fyrir verksmiðjurnar. Ég teldi það t. d. mjög skaðlegt fyrir ríkisverksmiðjurnar, ef þessi lög yrðu til þess, eins og hv. þm. virðist allmjög óttast, að í stjórnina veldust ábyrgðarlitlir og hugsunarlitlir menn. Ég tel það einnig mjög áríðandi fyrir svona stórt fyrirtæki, að tryggt sé, að í stjórn þess veljist menn, sem geta unnið saman. Ég hefi t. d. enga trú á því, að menn. sem ár eftir ár hafa borið hvern annan brigzlum, geti yfirleitt unnið saman á þann hátt, að þeir æfinlega hafi fyrir augum heill og framgang þess fyrirtækis, sem þeir vinna fyrir. Og því er ómögulegt að neita, að með því fyrirkomulagi, sem hér er stungið upp á að lögleiða verði um kosningu í stjórn verksmiðjanna, er talsverð hætta á, að svona geti farið, enda varð ræða hv. þm. ekki skilin öðruvísi en svo, að hann sæi þá hættu. Nú verð ég að samsinna því, sem hv. þm. sagði, að það væri óeðlilegt, ef Alþ. hefði ekki verulega íhlutun um stjórn þessa fyrirtækis, þar sem ríkissjóður á svo mikið undir þessum verksmiðjum. Hinsvegar vil ég benda hv. þm. á. að það er í raun og veru alveg óeðlilegt, að þeir, sem fara með ríkisstj. á hverjum tíma og eiga þess vegna að bera ábyrgð á stjórn þessa mikla fyrirtækis, tryggi sér það ekki fullkomlega fyrirfram, að í verksmiðjustj. veljist menn. sem geta unnið saman og ríkisstj. treystir til þess hvorutveggja, að gæta hagsmuna verksmiðjanna og ríkisins. Og vil ég í þessu samlandi benda á, að við hv. þm. Barð. vorum svo sammála um þetta 1934, að við fluttum þá á haustþinginu frv. til l. um stjórn síldarverksmiðja ríkisins, og í því frv. var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. skipaði þrjá menn í verksmiðjustj. Ég veit ekki, hvað hefir komið til þess, að hv. þm., minn ágæti meðflm. að frv. 1934, hefir skipt svona um skoðun. Ekki er því til að dreifa, að einn flokkur hafi haft eitthvert sérstakt einræðivald yfir verksmiðjunum nú síðustu tvö árin og vil ég í því sambandi benda á, að Sjálfstfl. var gefið ekki eitt heldur mörg tækifæri til þess að eignast fulltrúa í verksmiðjustjórninni. Var fyrst leitað hófanna við einn þekktan sjálfstæðismann hér í bænum um það, að hann færi í verksmiðjustj., þegar nýskipun hennar fór fram samkv. bráðabirgðal. frá 1935. og var hann þegar búinn að lofa því. En þegar það vitnaðist, neyddu helztu forvígismenn Sjálfstfl. hér á Alþ. þennan mann til að láta af því áformi, og brigðaði hann því loforð það, sem hann hafði gefið ráðh. Alþfl. Og ekki nóg með það, svo var fenginn annar ágætur sjálfstæðismaður, sem á heima á Siglufirði og er einn af forvígismönnum flokksins þar, til þess að fara í stjórnina. Og það fór á sömu leið. Það var gerð að honum svo harðvítug árás af hálfu Sjálfstfl., að einnig hann varð að bregðast því loforði, sem hann hafði gefið Alþfl. um að fara í verksmiðjustj. Með þessu er það sannað, að Sjálfstfl. vildi ekki eiga neinn af þeim mönnum, sem framarlega stóðu í flokknum, í verksmiðjustj., og að það er Sjálfstfl. sjálfum að kenna, að hann hefir ekki átt neinn fulltrúa þar síðastl. 2 ár. Að það, að sjálfstæðismenn drógu sína fulltrúa til baka hafi á nokkurn hátt verið notað til pólitísks einræðis yfir verksmiðjunum, mótmæli ég sem algerlega tilhæfulausu, enda skildi ég ekki hv. þm. Barð. svo, að hann héldi því beinlínis fram. En ef hann hinsvegar skyldi hafa átt við, að pólitísks einræðis hafi kennt þar, vil ég ráðleggja honum að leita um það upplýsinga hjá fulltrúum Framsfl. í stj. ríkisverksmiðjanna. Ég er viss um, og get vitnað um það í fundarbækur ríkisverksmiðjanna, að í þau 2 ár, sem núv. stj. hefir setið, hefir ekki orðið neinn ágreiningur innan stj., sem gæti stutt þau ummæli, að um pólitískt einræðisvald væri að ræða. Hitt er annað mál, að ekki er hægt að neita því, að sá friður, sem ekki fékkst árið á undan og þann part af árinu 1936, sem liðinn var, þegar nýja stj. tók við, hefir fengizt með núv. stj. En það er ekki starfsfriður pólitísks einræðis, heldur starfsfriður manna, sem fyrst og fremst unnu með hag ríkisverksmiðjanna fyrir augum.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði um framkvæmd þess að taka við síld í bræðslu með óákveðnu verði, vil ég benda á, að ef ekki væri til staðar það einræðisvald Landsbankans, sem minnzt hefir verið á, til þess að knýja verksmiðjur einstakra manna inn á þær brautir, sem hv. þm. Barð. segir, að Alþ. sjálft geti ekki leyft sér að fara vegna stj.skrárinnar, mundu þeir, sem lögðu inn síld í ríkisverksmiðjurnar síðastl. sumar hafa fengið fulla greiðslu, og þeir, sem lögðu inn hjá einstökum mönnum, sem notuðu sér hið hagkvæma lýsisverð síðastl. sumar, sömuleiðis fulla greiðslu. En þeir, sem lögðu inn síld í verksmiðjur einstakra manna, sem ekki notuðu sér hið góða verð á lýsi, eins og t. d. Kveldúlfur, hefðu haft litla von til að fá fullt verð, því að verð á lýsi hefir farið svo mjög lækkandi síðan.

Þetta eina atriði, er ég hefi bent á, gerir það ómögulegt að koma á því, sem Framsfl. hefir haldið fram, að ætti að vera aðalstefnan um rekstur ríkisverksmiðjanna. Það er vitanlega rétt hjá hv. þm. Barð., að Alþfl. hefir í rauninni borið ábyrgð á stj. verksmiðjanna í þessi 2 ár. Þó hygg ég, að verksmiðjustj. sé svo skipuð nú, að í henni sé auk alþfl.mannsins og framsóknarmannsins einn maður, sem telur sig utan flokka. En á hitt vil ég benda og leggja þar á sterka áherzlu, að um ágreiningsmál innan verksmiðjustj. hefir ekki verið að ræða. Og ég neita því ákveðið, að komið hafi til mála, að menn væru valdir til vinnu við verksmiðjurnar af pólitískum ástæðum. Það hefir verið höfð sú regla í verksmiðjustj. að taka þá menn áfram, sem höfðu verið þar áður, og í rauninni hefir ekki mörgum mönnum verið bætt við í tíð núv. verksmiðjustjórnar.

Ég neita því einnig, að bræðslusíldarverðið síðastl. ár hafi verið ákveðið of hátt, og ég vil skora á hv. þm. Barð. að færa fram einhverja sönnun fyrir þeirri ásökun sinni. Ég skal taka það fram, að bræðslusíldarverðið var síðastl. vor ákveðið eftir nákvæmlega sömu reglum og árið 1936. En þá fekk verksmiðjustj. hart aðkast frá Sjálfstfl. fyrir, að verðið hefði verið ákveðið allt of lágt. Framsfl. stóð þá að því með Alþfl. að verja þá verðáætlun, og hefði með sama rétti getað staðið að því að verja bræðslusíldarverðið þetta ár, því að eftir öllum þeim gögnum og upplýsingum, sem fyrir lágu, var það ákveðið eins rétt og mögulegt var að gera sér hugmynd um. Ég skal taka það fram, að það er eitt atriði, sem sýnir betur en nokkuð annað, að verðáætlunin er ekki of há. Það er sem sé ekki annað fyrirsjáanlegt en að síldarverksmiðjurnar geti svarað lögboðnum afborgunum og lögboðnum sjóðagjöldum og staðið straum af venjulegum kostnaði, þrátt fyrir verðfall á lýsinu frá því að síldarverðið var ákveðið. Það kann að vera, að verksmiðjur einstakra manna, sem ekki notuðu sér sölutækifæri eins og ríkisverksmiðjan hefir gert, fari illa út úr 8 kr. bræðslusíldarverði. En erfitt hefði verið að setja undir þann leka, að verksmiðjur, sem ekki hafa notfært sér möguleikana til að selja lýsi háu verði, geti ekki greitt sama verð og hinar. Ég er fyrir fram viss um, að hv. þm. Barð. er mér sammála um þetta. Þá færði hv. þm. það fram sinu máli til stuðnings, að 2 verksmiðjur á Austurlandi hefðu ekki staðizt þetta verð. En það er ekki af því, að síldarverðið hafi veri ákveðið of hátt, heldur vegna þess, að þær eru svo litlar, að rekstur þeirra svarar ekki kostnaði í samanburði við hina stærri verksmiðjur. Ég er líka sannfærður um, að ef hv. þm. Barð. væri spurður, hvort hann áliti, að ákveða ætti síldarverðið með tilliti til verksmiðja, sem ekki væru samkeppnisfærar í rekstrinum, og setja þannig niður síldarverðið fyrir sjómönnum og útgerðarmönnum, þá mundi hann svara því neitandi.

Hv. þm. sagði, að því hefði verið haldið fram í Alþýðublaðinu, að leynisamningar væru á milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í þessu máli, og benti á, að samningarnir hefðu í raun og veru verið opinberir. En þó að ekki hafi verið gerður um þetta samningur, hvorki leynilegur né opinber, þá fela þær till., sem einn framsóknarmaður og einn sjálfstæðismaður hafa borið fram, í sér samning um þetta efni, a. m. k. hvað viðvíkur flutningi málsins á Alþingi, en mér þætti vænt um, ef hv. þm. Barð. upplýsti mig um, að svo væri ekki.

Um varamennina vil ég segja það, að þó að ég flytji till. um varamenn, hefir það aldrei verið ætlun mín að fara fram á, að þeir tækju nokkurntíma sæti í stj. verksmiðjanna nema í forföllum eða við fráfall aðalmanns. Sé ég því ekki ástæðu til, að þeir þurfi að eiga heima á Siglufirði. Væntanlegar till. um varamenn hafa því ekki í sér fólgna hættu um aukin útgjöld.

Hv. þm. Barð. spurðist fyrir um það, hvort komið væri í ljós, að vegna verðfalls á síldarlýsi hefði bræðslusíldarverðið verið of hátt. Ég er búinn að svara því. Það hefir ekki komið í ljós hjá ríkisverksmiðjunni, heldur hefir áætlunin þvert á móti reynzt mjög varlega ákveðin. Það eru að vísu enn óseld nokkur þús. tonn af síldarlýsi, en af því eiga ríkisverksmiðjurnar ekki nema 1500 smál., og nemur verð þess um ½ millj. kr., en ég tel ekki líkindi til, eins og verð á lýsi er nú orðið lágt, að á því verði verðfall, sem verksmiðjurnar dregur nokkuð að ráði. [Fundarhlé].

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég muni hafa ræðu mína miklu lengri, þar eð ég var búinn að svara mestu í ræðu hv. þm. Barð. Ég var búinn að sýna fram á það, að það væri ástæðulaus ásökun í garð stjórnar síldarverksmiðjanna, að verðið í vor hafi verið ákveðið óhæfilega hátt. Þessu til sönnunar nefndi ég það, að ríkisverksmiðjurnar hefðu orðið fyrir mjög miklu verðfalli á síldarlýsi, eins og raunar aðrir, sem varð þess valdandi, að verksmiðjurnar biðu mikið tjón, en það yrði sennilega ekki tap á heildarrekstrinum. En það má af þessu sjá, að ef verksmiðjurnar hefðu ákveðið verðið of hátt, þá hefðu þær sennilega orðið fyrir meira tapi í ár, eins og sennilega verður á verksmiðjum vissra einstakra manna, sem ekki notuðu sér háa síldarverðið í jan.—febrúar til að selja meginhluta síldarlýsisins, eins og síldarverksmiðjur ríkisins gerðu. Ég hefi einnig bent á, að það er ekki hægt að binda síldarverð ríkisverksmiðjanna við það verð, sem einstakir menn kunna að vilja greiða fyrir síldina, meðfram af þeirri ástæðu, að það er ekki víst. að sölur fari fram á sama tíma hjá öllum verksmiðjunum.

Ég vil víkja aftur nokkru að því pólitíska einræði, sem hv. þm. Barð. taldi, að hefði ráðið um stjórn verksmiðjanna. Ég vil benda á það, að ákvarðanir verksmiðjustj., svo að segja allar, eru gerðar ágreiningslaust. Ef um ásökun á hendur verksmiðjustj. um, að eitthvert pólitíska einræði hefði verið haft í frammi í stjórn verksmiðjanna þessi 2 ár, sem núv. stjórn hefir setið, þá er það um leið ásökun á hendur fulltrúa framsóknarmanna í verksmiðjustj., ásökun. sem ég hefi þegar bent á, að ekki hefir við nein rök að styðjast.

Viðvíkjandi því gjaldi, sem frv. ætlazt til. að greitt verði framvegis af ríkisverksmiðjunum til Siglufjarðarkaupstaðar, þá vil ég benda á, að ríkisverksmiðjurnar greiða nú þegar til hafnarsjóðs Siglufjarðar gjald, sem hinir aðrir keppinautar verksmiðjanna greiða ekki. Ennfremur hefi ég sýnt fram á, að þó ekki yrði ákveðið nema ½% af umsetningu ríkisverksmiðjanna í útsvar, þá yrði það þó meira, sem þær þyrftu að borga í útsvar til Siglufjarðarkaupstaðar en keppinautar verksmiðjanna greiða í þeim sveitum, þar sem þeir hafa sinn rekstur. Það er ætlazt til, et þetta frv. nær fram að ganga óbreytt, að lagðar verði á ríkisverksmiðjurnar um 76 þús. kr. í nýjum og gömlum sköttum. eða sem svarar 760 kr. á hvert skip, sem við þær skipta. Ég vil benda á það, að samkv. útsvarslögum á Siglufjarðarkaupstaður rétt á hluta af útsvari skips, sem leggur þar upp síld. Þetta mundi því verða tvöfaldur skattur á útgerðarmenn, et þetta ákvæði yrði að l. Hv. þm. Barð. benti á þessu til réttlætingar, að ríkisverksmiðjurnar væru tekjuskattsfrjálsar. Ég verð að segja, að þakka skyldi ríkinu, þó það ekki færi að leggja tekjuskatt á sin eigin fyrirtæki.

Hv. þm. Barð. hóf mál sitt á því, að vel gæti svo farið, að að ríkisverksmiðjunum veldist ábyrgðarlítil og hugsunarlítil verksmiðjustjórn. Með þessum orðum er hann raunverulega að fordæma það fyrirkomulag, sem lagt er til í þessu frv., því að hvað sem þessi hv. þm. kynni að segja um núv. verksmiðjustjórn, þá trúi ég því ekki, að hann segi, að hún hafi verið ábyrgðarlítil um hag verksmiðjanna. Ef hann segði slíkt, þá mundi ég a. m. k. fara fram á, að hann fyndi þeim orðum sinum stað.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar við þessa umr. Ég vænti þess, að málið komi til sjútvn. og að ég fái þar tækifæri til að fjalla um það.