14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Það er náttúrlega ekki von, að hæstv. forseti, sem situr hér einn fastur við sinn stól, viti, hvaða ummæli falla í hv. Ed. En út af þeirri aths., sem hæstv. forseti gerði, vil ég upplýsa það, að ég var nú fyrir nokkrum dögum áheyrandi að ummælum, sem féllu hjá hv. þm. S.- Þ. og voru á þá leið, að ef Alþ. fengist ekki til að ákveða það, að síldin skyldi einungis greidd með 85% af áætlunar- verði við móttöku, skyldi hann nota aðstöðu sína sem bankaráðsmaður til þess að fá því framgengt.

Að öðru leyti ætla ég að nota minn tíma til þess að svara hv. þm. Barð.

Hann talaði um það, að fulltrúi framsóknarmanna í síldarverksmiðjustj. hefði viljað ákveða verðið 7 kr. nú á þessu vori. Þetta er rangt hjá hv. þm., því að samkv. fundarbók verksmiðjustj., sem ég hefi hér fyrir framan mig, þá var það einróma álit stj., að verðið væri rétt áætlað 8 kr. málið. Að Þorsteinn M. Jónsson hafi viljað áætla verðið 7 kr., er alveg tilhæfulaust. Hinsvegar gerði hann þá kröfu, að síldin yrði tekin til vinnslu af framleiðendum og borguð við móttöku með 85% af áætlunarverði.

Nú vildi hv. þm. Barð. ekki sannfærast um það, að verksmiðjustj. hefði ákveðið síldarverðið varlega, eins og ég hafði tekið til orða. Ég hefi hinsvegar bent á það, að frá því að við ákváðum síldarverðið hefir orðið verðfall á síldarlýsi, sem nemur 300–400 þús. kr. á óseldum birgðum ríkisverksmiðjanna. Þetta verðfall þola verksmiðjurnar án þess að tapa í ár, og ég leyfi mér að segja, að það er full sönnun þess, að síldarverðið var mjög varlega áætlað, enda var það áætlað nákvæmlega eftir sömu reglum og 1936. Þá gerðu sjálfstæðismenn hróp mikið að verksmiðjustj. og sögðu, að hún hefði áætlað verðið of lágt, töldu, að það hefði átt að vera 6–7 kr., eða jafnvel 8 kr., eins og form. Sjálfstfl. komst að orði í einni grein sinni í Morgunblaðinu. Ef hv. þm. Barð. vildi nota sínar góðu gáfur til þess að kynna sér þetta mál, þá er ég viss um, að hann sannfærðist um, að það, sem ég hefi sagt um síldarverðið, er að öllu leyti rétt. Og ef hann vildi taka niður nokkrar tö1ur, sem ég get gefið honum, og reikna svo út með hlutfallsreikningi síldarverðið 1936 og 1937, þá hygg ég, að hann hafi í þessu máli fulla sönnun. 1936 höfðu verksmiðjurnar selt fyrirfram 29110 tonn af lýsi, og var verðið á því £ 17–10-0 pr. tonn. Þá var og búið að selja um 2000 tonn af síldarmjöli á £ 8–5–0. Fyrirframsölur 1937 voru 5575 tonn af síldarlýsi á £ 21–0–0 per tonn, og mjölverðið var £ 10–10–0, og fór rétt á eftir að áætlunin hafði verið samin upp í £ 11-0-0. M. ö. o., hlutföllin milli bræðslusíldarverðsins 1936 og 1937 eru nákvæmlega hárrétt. Það er því algerlega út í loftið að vera að tala um það, að verðið hafi verið áætlað óvarlega í ár. Og bezta sönnunin fyrir því er sú, að verksmiðjurnar hafa tekið verðfall á síldarlýsinu, sem nemur hátt á 400 þús. kr., og hafa samt skilað öllu, sem þær áttu að skila, eftir því sem næst verður komizt.

Ég hygg, að ég hafi þá að fullu svarað þeirri ástæðulausu ásökun hv. þm. Barð., að síldarverðið hafi verið ógætilega áætlað, enda sé ég, að hann hefir ekki þolað þessi skýru og ljósu rök, því að hann er flúinn af hólmi út úr d.