21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Án þess að ætla að fara að ræða málið í heild, vildi ég svara fyrirspurn hv. þm. Ísaf., sem spurði, hvað þessi rannsókn ætti að sanna, sem Þormóður Eyjólfsson hafði beðið um og búizt hefir verið við, að dómsmálaráðuneytið myndi láta fram fara. Mitt álit er, að þó að ekki sé hægt að segja, að í þessari grein í Alþýðublaðinu sé beinlínis verið að drótta að Þormóði Eyjólfssyni óheiðarlegu athæfi, þá verði ekki hjá því komizt að lesa slíkt milli línanna. Því verður að teljast eðlilegt, að Þormóður Eyjólfsson óski eftir þessari rannsókn. Það skiptir miklu máli, hvort Sjóvátryggingarfélagið hefir greitt þessi umboðslaun eða ekki, en í greininni er dregið í efa, að yfirlýsingar félagsins um þetta séu réttar. En ef umboðslaunin hafa ekki verið greidd, er það mikilsvert rannsóknaratriði, hvers vegna það var ekki gert. Þormóður Eyjólfsson segir það vera af því, að verksmiðjurnar hafi ekki gert fasta samninga við Sjóvátryggingarfélagið, en það sé skilyrði fyrir greiðslu umboðslauna. Þetta er sjálfsagt að athuga, ekki sízt þar sem hér er um að ræða mann í opinberri stöðu. Hann sagðist hafa farið fram á það við stj. verksmiðjanna, að gerðir yrðu skriflegir samningar, og þá hefðu þessar prósentur fengizt. Hv. þm. Ísaf. telur þetta ekki rétt.

Ég tel nú orðið, að meðlimir vinstri flokkanna hafi gert of litið að því að heimta opinbera rannsókn, þegar þeir hafa orðið fyrir aðdróttunum, og þetta á einnig við um sjálfan mig. En ég hefi að nokkru breytt um skoðun á þessu máli. Opinberir starfsmenn og embættismenn hafa yfirleitt gert of lítið að því að láta andstæðingana sæta ábyrgð orða sinna. Hv. þm. Ísaf. lýsti t. d. nýlega yfir því, að hinn myndi ekki gera gangskör að því að láta hv. þm. G.-K. sæta ábyrgð fyrir ummæli þau, er hann hafði um hv. þm. Ísaf. hér við útvarpsumr. Samkv. þeirri skoðun, er ég hefi nú á þessum málum, er þetta rangt af hv. þm. Það er rangt að ala það upp í mönnum, að þeir geti viðhaft hér á þingi slíkt orðbragð sem hv. þm. G.-R. viðhafði. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að verða við þessari beiðni, því að það á að vera hægt með þeirri rannsókn að skera úr því, hvort hér er nokkuð óheiðarlegt á ferðinni eða hvort að öðru leyti er um vanrækslu að ræða af hendi hins opinbera starfsmanns.

Það hefir verið talað um það hér, að einhverjir leynisamningar væru um þetta mál milli Framsfl. og Sjálfstfl. Þetta er vitanlega gripið úr lausu lofti, eins og líka sést bezt á því, að einmitt um meginatriðið í frv. voru það sjálfstuðismenn og jafnaðarmenn, sem tóku höndum saman gegn framsóknarmönnum. Á ég þar vitanlega við ákvæðið um útborgunaraðferðina hjá síldarverksmiðjunum. Og getur ekki annað sannað það öllu greinilegar, að hér var ekki um neina samninga að ræða milli Framsfl. og Sjálfstfl.

Jafnframt hefir verið talað um einhverja samninga milli formanns Sjálfstfl. og form. Framsfl. um það að sparka Finni Jónssyni, eins og það hefir verið orðað, úr stjórn verksmiðjanna. Það, sem þetta virðist vera byggt á, eru ummæli hv. þm. G.-K., sem hann lét falla við útvarsumr. nú um daginn, en allir sjá, þegar þetta er athugað, að sögð voru til að glettast og ekkert stendur á bak við þau, vegna þess að það er ekki á valdi Framsfl. og Sjálfstfl. að koma Finni Jónssyni úr verksmiðjustj. Eins og allir vita, hefir Alþfl. aðstöðu til þess að setja hvern, sem hann óskar, inn í verksmiðjustj. samkv. þeim styrktarhlutföllum, sem flokkarnir hafa hér á Alþ. Og þess vegna hefir þetta ekki við neitt að styðjast.

Frekar ætla ég ekki að fara út í þetta mál að svo komnu.