21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. Barð. endaði mál sitt með því, að ég vissi, að ekki væri hægt að skapa mönnum með l. rétt til þess, sem þeir hefðu ekki átt kröfu til áður. Ég veit ekki betur en að mikill hluti af löggjöf snúist einmitt um það, að skapa mönnum kröfur, sem þeir hafa ekki átt áður, og ég er hissa á þessum ágæta lögfræðingi, að hann skuli bera það fram, að með l. sé ekki hægt að skapa mönnum nýjar kröfur, og vona, að hann leiðrétti þetta.

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Barð. miklu; það hefi ég áður gert með mínni fyrstu ræðu. En ég mótmæli þeim ásökunum á hendur fulltrúa Framsfl. í verksmiðjustj., að Alþfl. hafi einn öllu ráðið þar. Hv. þm. Barð. sagði, að ekki mundi finnast mikill ágreiningur á milli mín og Þórarins Egilssonar. Það er rétt, en það mun ekki heldur finnast mikill ágreiningur 6 milli mín og Þorsteins M. Jónssonar, og það kemur ekki til af því, að við Alþfl.menn höfum einir öllu ráðið. Það er ekki annað en tilhæfulausar aðdróttanir til meðstjórnenda minna. við höfum ráðið sameiginlega fram úr öllum málum, án alls ágreinings. Ég held að ég þurfi þá ekki frekar að svara hv. þm. Barð.

Stjórnarskipun verksmiðjanna hefir verið þannig frá fyrstu tíð og þar til í ársbyrjun 1935, að verksmiðjustjórnina hafa setið 3 menn, en ekki 5. Þá var þessu breytt með lögum og voru stjórnendur 5 til maí mánaðar 1936, að tölunni var aftur breytt í 3 með bráðabirgðal. Ég vil leggja áherzlu á þetta út af því, sem hv. þm. Ak. sagði, en hann hefir auðsjáanlega ekki kunnugleika til að vita, að svo var. Það er því allt, sem gera á með þessum l., að koma stjórnarskipuninni í sama horf og var 1935 til 1936, sem reyndist svo, að ekki var hægt að stjórna verksmiðjunum, og má mikið vera, ef ekki fer á sama hátt nú, ef þetta ákvæði verður að l.

Í framsöguræðu minni leiddi ég rök að því, hvers vegna þetta frv., ef það yrði afgr. frá Alþ. eins og lítur út fyrir að eigi að verða, mundi verða þess valdandi, að engin samvinna tækist áfram milli núv. stjórnarflokka í verksmiðjustjórn. Ég leiddi svo föst rök að þessu, að ég held. að enginn maður geti mælt þeim í móti, og ég vil benda á það enn á ný, að þetta frv. er eingöngu sett fram til að eyðileggja samvinnuna milli flokkanna. Ég hefi bent á, hvernig fara muni, ef í stjórnina veljast menn, sem aldrei sitja á sáttshöfði og vinni jafnvel hver öðrum líftjón, eins og fyrir hefir komið með stjórnendur verksmiðjanna áður.

Viðvíkjandi öðrum atriðum frv., sem ég hefi minnzt á, þarf ég ekki að fjölyrða. Ég hefi fært rök fyrir öllum þeim brtt., sem ég hefi borið fram, en vil benda á, að ákvæðið um, að útsvarsgreiðslur verksmiðjanna megi aldrei fara fram yfir 25% af útsvörum viðkomandi bæjareða sveitarfélags, er ekki til annars en að þrengja hag þeirra fátæku bæjar- eða hreppsfélaga, sem hafa fengið verksmiðjur hjá sér. Þá get ég ekki fallizt á, að útlendingur, sem á ekki nema eins árs afborgun hjá ríkinu, eigi eftir tveggja ára afborganir. Það er hneyksli, að Alþ. afgr. lög, sem slík vitleysa stendur í.

Ég á ekki nema lítið eftir af ræðutíma mínum, en ég þurfti að svara 3 mönnum, svo ég verð að hlaupa yfir mikið af því, sem ég vildi segja.

Út af ummælum hæstv. forsrh. vildi ég segja, að sú rannsókn, sem hann talaði um, að hann mundi láta fram fara, mun ekki sanna annað en það, sem ég hefi sagt um þetta mál. Ég hefi fært fyrir því skjalfestar sannanir, að ríkisverksmiðjurnar hafa ekki fengið greiddan afslátt þann, sem venjulegt er að greiða af sjóvátryggingu. Þó að ekki hafi verið um tryggingarnar fastir samningar, þá hefir viðskiptunum verið hagað eins og venjulegt er um samningsbundin viðskipti, því allar eignir verksmiðjanna hafa alltaf verið tryggðar hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Mér er kunnugt um, að aðrir fá þennan afslátt, þótt þeir hafiekki fasta samninga, og ég vil benda á, að Þormóður Eyjólfsson hefir sagt, að þessi afsláttur hafi alltaf staðið verksmiðjunum til boða. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mikilsvarðandi atriði, sem mundi upplýsast við rannsókn, hvers vegna þessi afsláttur hefði ekki fengizt. Ég er hæstv. forsrh. alveg sammála um, að heppilegt væri að fá opinbera rannsókn í þessu máli, en hinsvegar er algengt, að ýmsir opinberir starfsmenn hafa orðið fyrir aðkasti án þess að hafa aðstöðu til að fara í meiðyrðamál út af því. Hæstv. ráðh. mun t. d. fullkunnugt um þær aðdróttanir, sem hv. þm. G.-K. hefir komið fram með hér í þinghelgi gegn mér, en ég hefi enga aðstöðu til að koma fram ábyrgð gegn honum fyrir nema hann endurtaki þau utan þinghelgi. Á fundi utan þings hefir hv. þm. G.-K. rætt um þessi sömu mál við mig, en hagað sinum orðum þar mjög gæfilega og m. a. lýst því yfir, að hann mundi lýsa kostum mínum betur seinna á Alþ., og það hefir hv. þm. gert, en notað þinghelgina til þess að koma fram með aðdróttanir sínar, svo ég á þess engan kost að fara í meiðyrðamál við hann.

Það fer auðvitað einnig eftir því, hve orðsjúkir menn eru, út af hverju þeir fara í meiðyrðamál. Ég skal t. d. segja um hv. þm. S.-Þ., að um hann hafa verið notuð þau orð utan þinghelgi, að ég veit ekki, hvort mér er einu sinni leyfilegt að endurtaka þau hér, og vildi ég þó sizt gera þau að mínum eigin orðum. Ég veit ekki betur en að menn úr Sjálfstfl. hafi ár eftir ár sagt um þennan hv. þm. í Morgunblaðinu, að hann væri ærulaus, opinber lygari og rógberi. Var margskorað á hann að hnekkja þessum svívirðilega áburði með meiðyrðamáli, sem vitanlega hverjum borgara öðrum en örgustu glæpamönnum hefði reynzt auðvelt, en hann sá aldrei ástæðu til þess. Ég bið hæstv. forseta að afsaka, að ég skuli taka þessi orð upp hér, en ég tek þetta sem sýnishorn af því að það er misjafnt, hve menn eru orðsjúkir og af hverju þeir fara í meiðyrðamál.