21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Ég vildi leyfa mér að koma fram með eina fyrirspurn til hv. form. Sjálfstfl. í sambandi við þetta mál. Hann hefir svo lítið látið sína skoðun í ljós. Því vil ég spyrja hann, hvað hann telur rétt síldarverð, sem síldarverksmiðjum ríkisins beri að greiða til sjómanna og útgerðarmanna í sumar. Mér er kunnugt um, að þessi hv. þm. barðist harðri baráttu fyrir, að hátt verð væri greitt hjá síldarverksmiðjum ríkisins bæði árið 1936 og 1937. Hann hefir staðið fremstur í flokki í baráttu fyrir því, að síldarverksmiðjur ríkisins greiddu tiltölulega hátt verð og greiddu það sem fast verð til sjómanna og útgerðarmanna. Árið 1936 var haldinn um þetta stór fundur hér í Rvík, þar sem voru gerðar mjög skarpar samþykktir, og 1937 komu þessar raddir ákaft fram í Morgunbl., og þá sjálfsagt með samþykki form. Sjálfstfl. Þetta voru hvassar raddir, sem síðast töldu það allt of lágt, þegar útborgunarverð var ákveðið 3 kr., en Morgunbl. sagði þó, að hefði fengizt fyrir baráttu Sjálfstfl.

Ég vil nú, þegar þessi hv. þm. er að gera samkomulag við form. Framsfl. um þetta mál, heyra skoðun hans sjálfs á því, hvað hann telji rétt síldarverð í sumar. Mig langar líka til, að hv. framsóknarmenn hér í hv. d. heyri líka, hvaða skoðun þessi nýi bandamaður þeirra hefir um, hvað sé rétt síldarverð, og að þeir heyri nú, hvað form. þess flokks segir, sem hefir þótzt vera að berjast fyrir hagsmunum útvegsmanna og jafnvel sjómanna líka. Ég vona, að nú, þegar þessi hv. þm. hefir eignazt sína eigin síldarverksmiðju, þá hafi hann ekki horfið frá þeirri „pólítík“, sem hann hefir rekið sem form. Sjálfstfl. í þessu máli.

Ég skora á hv. þm. að geta ákveðin svör við þessum spurningum, hvað hann álíti, að verði rétt síldarverð í sumar og hvað hann álíti rétt verð framvegis.