21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) :

Hv. þm. Ísaf. vill nú vefengja það, sem ég hermdi eftir honum, að hann hafi talið vafasamt, hvort síldarverksmiðjur ríkisins gætu á þessu ári greitt það, sem þeim er ætlað að greiða — og lögboðið, að þær skuli greiða. Þess vegna ætla ég að leyfa mér, með samþykki hæstv. forseta, að lesa nokkur orð upp úr grein hv. þm. Ísaf. Finns Jónssonar, í Alþýðublaðinu 14. des. í greininni: „Sjóðeignir síldarverksmiðja ríkisins hafa þrefaldazt árið 1936–1937“. Þar segir svo: „Nú á þessu ári verður eigi annað séð en síldarverksmiðjur ríkisins geti svarað öllum lögboðnum gjöldum þrátt fyrir hið mikla verðfall, sem orðið hefir á síldarlýsi, falli það ekki verulega frá því, sem nú er, sem ekki telst líklegt, en gjöldin eru — samtals kr. 431092.66.“ Þarna sést, að hv. þm. Ísaf. hefir hreint ekki verið viss um hag verksmiðjanna. Núna heldur hann því fram, að fullkomlega gætilega hafi verið áætlað með því að greiða 8 kr. fyrir síldarmálið, eða 8,50 eins og gert var á Sólbakka. Þarna er hann aftur á móti að verja ráðstafanir verksmiðjustj. og þorir ekki að taka ákveðnar til orða en að áætlunin muni standast, ef síldarlýsi falli ekki verulega frá því, sem orðið er. En nú er spurningin: Eru ekki allar líkur til þess, að lýsið falli langt niður úr því? Ég veit ekki betur en að það hafi fallið í sífellu úr 22 £, sem Alliance gat selt tonnið fyrir, niður í l7 £, 16 £ og enn neðar — og enginn veit, hvað lágt það getur farið. Ég álít ekki nóg, að einhver von sé um það, að hægt sé að standa við lögboðnar greiðslur, heldur sé ástæðan til að ganga einhvern veginn þannig frá verðákvörðun hrásíldarinnar, að sjómenn og útgerðarmenn fái sitt, en ekki meira en sitt, svo að verksmiðjurnar geti ekki aðeins staðið undir því, sem þeim er ætlað að greiða, heldur geti staðið undir nauðsynlegum endurbótum á verksmiðjuhúsum og vélum. Fyrsta skilyrðið til þess, að verjandi sé að hafa slíkar verksmiðjur í höndum ríkisins, er, að þær séu reknar með sem minnstri áhættu og þannig, að þær séu fastur grundvöllur undir einni stærstu atvinnugrein landsins.

Ég skal ekki neita því, að það geti orðið meiri friður í verksmiðjustjórn, þar sem flokksbræður einir ráða. En hv. þm. Ísaf. veit, að ekki er hægt að ætlast til, að friður slíkrar stjórnar út á við sé eins góður, þegar einn flokkur tekur sér þar einræði. Hv. þm. sagði, að meiri ófriður hefði staðið um síldarútvegsnefnd en um stjórn verksmiðjanna, þótt hún væri kosin af þingflokkunum. Ég vil benda honum á, að það hafa verið hafðar frammi algerlega rangar ásakanir á nefndina og formann hennar — Finn Jónsson —, og þó að það sé blandaður kór, sem kyrjar þann níðbrag, þá verður það aldrei sá réttmæti áfellisdómur, sem leggst á hvern flokk, sem tekur sér einræðisvald yfir opinberum fyrirtækjum.