17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1938

*Brynjólfur Bjarnason:

Við kosningarnar í vor unnu vinstri flokkarnir glæsilegan sigur og fengu 30 þm. af 49, sem kosnir voru. Hafa nú þessir hv. þm. allir gert sér ljóst, að þeir fengu ákveðið og bundið umboð frá kjósendum sinum til að framkvæma alveg ákveðin verkefni, sem þeim voru lögð á herðar?

Þennan tíma, sem ég hefi setið á Alþ., hefir mér virzt mikið skorta á, að þm. hafi yfirleitt gert sér ljósa grein fyrir þessu undirstöðuatriði lýðræðisins. Það verður mikið og margt skrafað hér við þessar umr., sem standa í meira en 16 klst. samtals, og þar af margt óþarft og vafalaust til leiðinda einna fyrir þá, sem á hlýða. En það, sem hlustendurnir fyrst og fremst óska að fá svör við, er þetta: Hvernig hafið þið drengir góðir, framkvæmt umboðið, sem við fólum ykkur, hvað liður verkefnunum, sem við sendum ykkur inn á Alþingi til að leysa af hendi?

Alþýðan í landinu, bændur, verkamenn og aðrar vinnandi stéttir í borg og byggð, sendu fulltrúa Framsfl., Kommfl. og Alþfl. inn á Alþ. til þess að vinna þar saman að hinum brýnustu hagsmunamálum þeirra, sem úrlausnar bíða. Og þessi verkefni, sem okkur, er fyrir valinu urðum, voru falin, voru fyrst og fremst þessi: Að framkvæma ráðstafanir, sem duga til að bæta úr atvinnuleysinu, að endurbæta tryggingarlöggjöfina í samræmi við þær ákveðnu kröfur, sem komið hafa frá fólkinu, að leysa úr vandræðum fiskimanna og bænda, að gera ráðstafanir til að draga úr dýrtíðinni í landinu og afla ríkissjóði tekna á kostnað hinna ríku, en ekki hinna fátæku, að kveða endanlega niður allar tilraunir til að koma á þvingunarlögum í vinnudeilum, að gera ráðstafanir til að afstýra þeirri hættu fyrir land og lýð, sem vofir yfir frá fasistaklíkunni, afturhaldsmönnum og ofbeldispostulunum í flokki auðmannastéttarinnar.

Þetta voru veigamestu málin, sem alþýðan fól fulltrúum sínum að hrinda í framkvæmd. En hún fól þeim líka fleira. Hún fól þeim að binda enda á það ástand, sem ríkt hefir í Landsbankanum undanfarið, ástand, sem hefir verið fólgið í eftirfarandi:

Bankinn hefir lánað einni fjölskyldu mikinn part, án þess að tryggingar kæmu á móti, svo gegndarlaust, að þessi fjölskylda komst í 5–6 millj. kr. skuld við bankann, sem engir vextir eða afborganir voru greiddir af í lengri tíma. Bankinn hefir stuðlað að því að eyðileggja lánstraust landsmanna, með því að neita um greiðslu á erlendum gjaldeyri, sem gjaldeyrisleyfi hafa verið fengin fyrir. Veðdeildinni hefir verið lokað, gegndarlaus okurstarfsemi í sambandi við húsabyggingar þar með látin þróast og dafna. Bankanum og útibúum hans hefir verið beitt í kaupkúgunarskyni, jöfnum höndum gegn smáútvegsmönnum og sjómönnum. Ég veit, að margir, sem á mál mitt hlýða, munu kannast við dæmi um það, hvernig útgerðarmönnum hefir verið neitað um nauðsynleg lán, nema með því skilyrði, að þeir gengju ekki að kröfum sjómanna um kaup og kjör. Og loks hefir bankinn með allri þessari ráðsmennsku sinni tapað 15 millj. af veltufé þjóðarinnar á 16 árum.

Þúsundirnar, sem kusu vinstri flokkana, fólu fulltrúum sínum að kippa þessu öllu í lag. Smáútvegsmennirnir fólu þeim að sjá til þess, að þeir fengju umráð yfir nægilegum gjaldeyri, til þess að þeir þyrftu ekki allt undir högg að sækja hjá einokunarhringunum og fengju betri skilyrði til þess að láta útgerð sína, sem svo mjög berst í bökkum, bera sig.

Smákaupmennirnir fólu þeim að sjá til þess, að þeir gætu fengið gjaldeyrisleyfi sín beint, svo að þeir ættu ekki allt undir högg að sækja hjá heildsölunum og hefðu betri skilyrði til að selja vöru sína ódýrt.

Bændurnir fólu þeim að greiða fyrir betri og hagkvæmari sölu á afurðum sínum, ekki með því að hækka verð á landbúnaðarafurðum gegndarlaust og þrengja þannig markaðinn, heldur gera ráðstafanir til að tryggja góðan og öruggan innanlandsmarkað, og þá ekki sízt með því að auka atvinnuna og bæta kjör fólksins í bæjunum. Þeir fólu þeim að gera ráðstafanir til að létta skuldabyrðinni af þeim bændum, sem verst eru stæðir, þeir fólu þeim að gera ráðstafanir til að draga úr skuldaviðskiptunum, sem gera bændurna að efnahagslega ófrjálsum mönnum, og þeir fólu þeim að veita drengilega hjálp gegn því hallæri, sem vofir yfir mörgum héruðum landsins af völdum fjárpestarinnar.

Sjómennirnir fólu þeim að gera ráðstafanir til að reisa sjávarútveginn úr rústum og koma öryggismálum sjómanna í viðunandi horf.

Iðnaðarmennirnir fólu þeim að sjá til þess, að innlendi iðnaðurinn yrði studdur með hagkvæmum lánum o. fl., og að komið yrði í veg fyrir það, að slík hneyksli endurtækju sig eins og innflutningsleyfi á „Persil“ og á vélunum í verksmiðju Lever Brothers.

Fátæklingarnir, sem vegna langvarandi atvinnuleysis og annarar óstjórnar auðvaldsskipulagsins hafa ekki getað komizt af án opinbers styrks, fólu þeim að koma fátækralöggjöfinni í mannúðlegra horf, sem frjálsum mönnum sæmir.

Og þá er spurningin? Hvað hafa þá þm. gert og hvað ætla þeir sér að gera? Og þá verður fyrst og fremst spurt: Hvað hafa stjórnarflokkarnir gert og hvað ætla þeir sér að gera? Hvernig hafa þeir reynzt sem þjónar fólksins?

Við skulum leitast við að svara þessu, og þá er fyrst og fremst að líta á fjárlfrv., sem fyrir liggur og er einskonar brennipunktur, þar sem allar línur skerast. Af því má fyrst og fremst marka stefnu stj. í veigamestu málunum.

Þá er fyrst að líta á mál málanna — atvinnumálin. 30 þús. alþýðumanna og kvenna fólu fulltrúum sínum við kosningarnar í vor að nota ríkisvaldið til að auka atvinnuna í stórum stíl, að gera drengilega tilraun til að létta að einhvern leyti af því hörmulegasta böli, sem nú þjakar þessa þjóð, atvinnuleysinu. Hvaða raun hafa þeir sýnt á því? Í fjárl. frv. eru framlög til vega, brúa, hafnargerða og vita lítið hækkuð, framlög til atvinnubóta eru ekki hækkuð, og yfirleitt ekki til verklegra framkvæmda að neinu ráði. Af þeim millj., sem inn eiga að koma í ríkissjóðinn vegna tollahækkunarfrv. stj. flokkanna, eiga um 400 þús. að ganga til fiskimálan. til stuðnings sjávarútveginum. Þegar tillit er tekið til ástandsins í sjávarútveginum, er þetta eins smásmuguleg fúlga og hægt er að hugsa sér, og reynslan á eftir að sýna það, hvernig henni verður varið og að hvaða notum hún kemur. Nokkrum hluta þessa fjár á að verja til styrktar kaupum á nýtízku togara, en enn er allt á huldu, hvernig menn hugsa sér rekstrarfyrirkomulag slíkrar útgerðar, kaup og kjör, og það er vitaskuld undir þessum hlutum komið, hvaða not verða af þessari tilraun fyrir verkalýðinn.

Þá er jarðabótastyrkurinn hækkaður dálítið, og auk þess verða einhver aukin fjárframlög vegna mæðiveikinnar, en ekki er ennþá vitað, hver þau verða.

Þá eru það endurbæturnar á alþýðutryggingunum. Hvað verður gert í því máli? Um það hefir verið gert samkomulag á milli stj. flokkanna, og nú er komið fram á Alþ. frv. frá þeim um þetta efni. Er þar skemmst frá að segja, að þær breyt. á l. um alþýðutryggingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eru algerlega ófullnægjandi, og að mjög litlu leyti tekið tillit til þeirra krafna, sem alþýða manna hefir svo að segja einróma gert til Alþ. í þessu máli. Nokkur atriði eru þar til bóta, en á móti því koma aðrar till., sem að flestra dómi eru til hins verra.

Það hefir ekki heldur bólað á neinum till. frá hv. stj. flokkum, sem boða nein umskipti í lífi bænda, fiskimanna og annara vinnandi millistétta í landinu. Það hefir ekki bólað á neinum till. frá þeim um að breyta um stefnu Landsbankans, og þeir hafa ekki heldur sýnt neitt snið á sér um djarflegar endurbætur á félagsmálalöggjöfinni, t. d. að koma fátækralöggjöfinni í mannúðlegra horf.

Og hvernig hafa þeir svo staðið sig í því að framkvæma vilja kjósenda sinna um að látu þá ríku bera byrðarnar, en hlífa hinum fátæku við nýjum sköttum og kvöðum?

Í umboði stjórnarflokkanna á Alþ., en sannarlega ekki í umboði flokksmanna sinna og kjósenda utan þings, leggja þeir hv. 10. landsk. Jón Baldvinsson, og hv. 1. þm. Eyf., Bernharð Stefánsson, fram frv. um bráðabirgðatekjuöflun í ríkissjóð, þar sem tolla- og skattahækkanir frá í fyrra eru ekki aðeins framlengdar, heldur bætt við eftirfarandi tollum: Hækkun á aðflutningsgjaldi um 6% á þeim vörum, sem aðflutningsgjald er á samkv. gildandi l., 2% aðflutningsgjald á þeim vörum, sem áður voru undanþegnar þessu gjaldi, og loks er ríkissjóði heimilað að innheimta alla tolla og skatta, að undanskildu útflutningsgjaldi, með 11% álagi. Þessir tollar eiga að gefa ríkissjóði tekjuauka, sem nemur hátt á þriðju milljón króna. Og þessara milljóna er aflað með þeim hætti, að hver biti og sopi, sem hinir fátæku láta inn fyrir sínar varir, er skattlagður, hver spjör, sem þeir klæðast, er skattlögð, hvert áhald, sem bóndinn og verkamaðurinn kaupir, er skattlagt o. s. frv.

Sé þessu jafnað niður, kemur að meðaltali talsvert á annað hundrað króna skattur á hvert 5 manna heimili í landinu, og að því er tekur til mestu nauðsynjavaranna. Þetta er lagt jafnt á bóndann, sem hefir 800 kr. í árslaun, og verkamanninn, sem hefir 1000–1500 kr. í árslaun, eins og hátekjumennina, sem hafa tugi þúsunda í árslaun.

Allt eru þetta kallaðir bráðabirgðatollar, eins og gert hefir verið undanfarin 10 ár í hvert skipti, sem nýir tollar hafa verið lagðir á nauðsynjavörur, og alltaf hafa þessir tollar verið hækkaðir og nýjum tollum bætt við. Þessi hræsni og lítilsvirðing við dómgreind almennings er kannske frá margra sjónarmiði það hvimleiðasta í allri þessari raunasögu. Þeir tala mikið um það, þeir hinir sömu, sem stöðugt eru að stynja undir ábyrgðinni, sem á þeim hvílir, að beinu skattarnir séu orðnir svo háir, að ekki sé hægt að hækka þá meira. Nú eru beinu skattarnir, eins og fjárl. sennilega koma til með að líta út, þegar þau verða afgr. frá þessu þingi, aðeins ca. 12% af tekjum ríkissjóðs, og aðrar tekjur þá ca. 88%. Hundraðshluti beinu skattanna fer lækkandi, en óbeinu skattanna hækkandi á sama tíma, sem þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Hvaða ábyrgðartilfinning er nú það, sem þessir hv. fulltrúar þjóðarinnar, sem að þessari pólitík standa, þjást svo mjög undir? Er það ábyrgðartilfinning gagnvart hinum ríku eða þeim fátæku? Ég bið þá sjálfa og aðra, sem á mál mitt mega hlýða, að leysa úr þeirri spurningu.

Ég mun nú í sem stytztu máli reyna að skýra frá till. þeim, sem þm. Kommfl. hafa borið fram á Alþ. í þeim málum, sem við teljum, að þurfi bráðastrar úrlausnar við.

Þá er fyrst til að taka brtt. okkar við fjárl. til aukningar atvinnunni í landinu. Í fyrsta lagi herum við fram till. um hækkun atvinnubótaframlags ríkisins upp í 850 þús. kr., sem myndi þýða að framlag til atvinnubóta að meðtöldu framlagi bæjar- og sveitafélaga hækkaði úr 1½ millj. upp í 2½, millj., eða hækkun um rösklega 1 millj. kr. Ef menn halda, að þetta sé ekki í samræmi við vilja fólksins þá er skylt að benda á, að verkamannafélagið Dagsbrún hefir margsinnis einróma samþ. kröfu um þessa hækkun á atvinnubótafénu, ásamt fjölmörgum öðrum verkalýðsfélögum, sem einróma hafa samþ. svipaðar kröfur.

Þá leggjum við til, að framlag til Suðurlandsbrautar sé hækkað úr 70 þús. kr. upp í 200 þús. kr. og að vegurinn meðfram Þingvallavatni — frá Þingvöllum til Kaldárhöfða — verði fullgerður, sem myndi ekki kosta ríkið meira en ca. 100 þús. kr., og þannig skapaður nýr tengiliður milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, sem er afaroft fær að vetrarlagi, þegar núverandi vegur er ófær. Ennfremur að vegur verði fullgerður yfir Siglufjarðarskarð og veittar til hans á næsta ári 50 þús. kr., í stað 15 þús. kr. eins og frv. gerir ráð fyrir.

Öll þessi auknu framlög til vegagerðar myndu nema hátt á þriðja hundrað þúsund kr. Hér er ekki aðeins að ræða um aukna atvinnu, heldur og um hin mestu þjóðþrifamál að öðru leyti, sem sé stórlega bættar samgöngur. Það er alveg furðuleg ráðsmennska að byrja á löngum vegalagningum og vera að dunda við þetta kannske áratugum saman, meðan fjármagnið, sem í þetta hefir verið lagt, liggur ónothæft og vegirnir grotna niður jafnharðan, engum til gagns. Með núverandi framlagi yrði t. d. verið a. m. k. 16–17 ár að leggja Austurlandsbrautina um Krýsuvík, en ef farið væri eftir okkar till., myndi vera hægt að gera sér vonir um að fullgera hana á 6 árum.

Þá höfum við lagt fram till. um nýjar vitabyggingar, um að 2 nýir vitar verði byggðir á þýðingarmestu stöðunum.

Þá höfum við lagt fram till. um stóraukin framlög til verkamannabústaða og til byggingar- og landnámssjóðs. Samkv. l. um tóbakseinkasölu eiga tekjur hennar að skiptast jafnt milli verkamannabústaðanna í bæjunum og byggingar- og landnámssjóðs. En á hverju ári hafa verið sett 1., sem mæla svo fyrir, að þessi l. skulu ekki vera í gildi. Nú eru tekjur tóbakseinkasölunnar áætlaðar 600 þús. kr. og áttu því verkamannabústaðirnir að fá 300 þús. kr. og byggingar- og landnámssjóður aðrar 300 þús. kr. En í stað þess fá verkamannabústaðirnir aðeins 30 þús. kr., eða 1/10 af því, sem þeim ber, en byggingar- og landnámssjóður 50 þús. kr. við leggjum nú til, að bæði verkamannabústaðirnir og byggingar- og landnámssjóður fái allt, sem þeim ber að lögum, eða um ½ millj. fram yfir það, sem þeir fá nú. Það myndi þýða, að hægt væri að stórauka byggingarstarfsemina bæði í kaupstöðum og sveitum, sem ekki þýddi aðeins stóraukna atvinnu, heldur og ómetanlegar kjarabætur fyrir alþýðuna, með bættum híbýlakosti, bæði í bæjum og sveitum.

Þá höfum við lagt fram till. um framlag til bæjarfélaga eða einstaklinga til tilraunastarfsemi í ýmsum verklegum framkvæmdum, t. d. til móvinnslu með nýjustu aðferðum, sem mikil líkindi eru fyrir, að sé atvinnuvegur, sem eigi mikla framtíð fyrir höndum hér á landi.

Loks höfum við lagt fram till. um undirbúning nýrra rafveitna og til rannsókna á fallvötnum til framleiðslu rafmagns til hitunar og til iðnaðar, t. d. til áburðarvinnslu. Ennfremur um rannsókn á jarðarauðæfum landsins.

Þessi atvinnuaukning, sem hér er gert ráð fyrir, jafngildir framkvæmdum fyrir ca. 2 millj. kr., sem að mestu leyti myndi fara í vinnulaun. Ef þessar till. okkar næðu fram að ganga, myndi það tákna mikil umskipti í atvinnulífi landsins,

sem þúsundir manna, sem nú ganga atvinnulausir, myndu njóta góðs af. Seinna í þessum umr. mun verða skýrt frá till. okkar um aukning atvinnunnar á sjónum og efling sjávarútvegsins.

Ég ætla þá næst að drepa á þau frv. okkar og aðrar till., sem hafa að einhverju leyti í för með sér útgjöld úr ríkissjóði. Skal þá fyrst nefna frv. okkar og þáltill. um alþýðutryggingar. Þessar breyt. eru í aðalatriðum fólgnar í eftirfarandi: Sjúkrasamlög greiði læknishjálp að fullu, bæði í sjúkrahúsum og utan þeirra. Allir þeir, sem eiga fyrir skylduómögum að sjá, fái fjölskyldudagpeninga. Biðtími dagpeninga verði ekki lengri en ein vika. Iðgjöld almennings verði stórlega lækkuð, með því að hafa þau stighækkandi og létta kostnaði af langvarandi sjúkdómum af sjúkrasamlögunum. Atvinnuleysingjar séu undanþegnir iðgjaldagreiðslu. Foreldrar beri ekki ábyrgð á iðgjaldagreiðslu barna sinna og fósturbarna. 7 króna nefskatturinn til lífeyrissjóðs sé afnuminn og allar tekjur lífeyrissjóðs séu notaðar jafnharðan til ellilauna handa þeim gamalmennum, sem komnir eru yfir 60 ára aldur. Komið verði á viðunandi atvinnuleysistryggingum, eingöngu á kostnað atvinnurekenda, ríkis og bæjarfélaga. Allar þessar till. eru í samræmi við kröfur 5200 Reykvíkinga og flestra verkalýðsfélaga landsins. En þar sem útvarpsumræður hafa farið fram um þetta mál frá Alþ., er ekki ástæða til að fjölyrða um það hér. Kostnaður af þessu er mjög lítill fyrir ríkissjóð, en myndi hinsvegar verða mikill léttir á bæjarfélögum og sveitarfélögum.

Þá flytjum við frv. um að 1/5 hluti af framfærslukostnaði berklasjúklinga og annara, sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum, sem nú er greiddur af bæjar- og sveitarfélögum, ef sjúklingarnir geta ekki greitt þennan kostnaðarhluta sjálfir, verði eftirleiðis greiddur af ríkinu. Kemur þá allur kostnaður af sjúklingum með langvarandi sjúkdóma yfir á ríkið. Er þessi till. ekki einungis flutt til að létta þungum bagga af fátækum bæjar- og sveitarfélögum, heldur er hér um að ræða nauðsynlega réttarbót fyrir berklasjúklinga og aðra.

Þá flytjum við frv. um ráðstafanir til hjálpar þeim bændum, sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum mæðiveikinnar. Samkv. því skulu lánsstofnanir afskrifa skuldir bænda, sem svarar þeirri rýrnun, sem orðið hefir á veðum fyrir þessum skuldum af völdum mæðiveikinnar og skal, ef svo er ástatt, ekki vera heimilt að segja upp lánum né að taka andvirði fjár, sem slátrað hefir verið vegna fjárpestarinnar, til að lækka skuldirnar. Þá skulu lánsstofnanir veita bændum, sem standa höllum fæti vegna þess tjóns, sem þeir hafa orðið fyrir af völdum veikinnar, gjaldfrest á vöxtum og afborgunum um óákveðinn tíma. Sumt af þessu hefir verið tekið upp í frv. því, sem fyrir liggur frá landbn. Ennfremur flytjum við till. um styrk til bænda, til fóðurbætiskaupa, vegna óþurrkanna síðastliðið sumar.

Þá koma till. okkar um tekjuöflun fyrir ríkissjóð og bæjarfélög, til að standast kostnað af allri þessari atvinnuaukningu og öðrum kjarabótum fyrir alþýðuna. Skal ég þá fyrst nefna frv. okkar um stóríbúða- og háleiguskatt, vaxtaskatt og verðhækkunarskatt, stighækkandi fasteignaskatt og hækkaðan skatt á einkabifreiðar. Þessir skattar eru allir lagðir eingöngu á óhófseyðslu yfirstéttarinnar og á fjármagn, sem er í braski og sumpart svikið undan skatti vegnu þess, að núgildandi skattalög ná ekki til þess. Við áætlum, að þessi lög myndu auka tekjur ríkissjóðs a. m. k. um eina millj. kr. Ennfremur höfum við í undirbúningi frv. um sparnað á starfsmannahaldi ríkisins og lækkun á hálaunum embættismanna. Á þann hátt má sennilega spara um 1 millj. kr. Þá flytjum við frv. um bæjarrekstur á uppskipun og útskipun og kvikmyndahúsum, sem myndi gefa bæjarfélögunum riflegar aukatekjur.

Auk þess sem hér er um nauðsynlega tekjuöflun til hins opinbera að ræða, þá fela öll þessi frv. í sér þjóðþrifamál, þjóðfélagsleg umbótamál. Stóribúðaskatturinn hefir þau áhrif, að ýtt er undir þá, sem búa í óhóflega stórum íbúðum, um að draga saman, og myndu þá losna íbúðir til leigu, framboð aukast og draga þannig úr húsnæðisskortinum. Stighækkandi fastelgnaskattur, sem fyrst og fremst er lagður á verzlunarhús, og verzlunarskattur miða að því að draga úr braskinu og stemma stigu fyrir óhæfilegu verði á fasteignum. Skattur á óbyggðum lóðum er hið mesta nauðsynjamál til að koma í veg fyrir, að lóðunum sé haldið í braski, án þess að byggt sé á þeim. Vaxtaskatturinn leggst að miklu leyti á fé, sem nú er dregið undan skatti. Allir þessir skattar miða að því að hrekja það fjármagn, sem nú er í braski, yfir í nytsamari atvinnugreinir. Einkabifreiðaskatturinn miðar að því að fækka lúxusbílunum, til hagsmuna fyrir bilstjórastéttina og til gjaldeyrissparnaðar fyrir landið.

Það er erfitt að halda því fram, að braskararnir, spekúlantarnir og óhófsseggirnir geti ekki borgað þessa skatta, meðan landið er í nauðum statt, meðan þúsundir manna og kvenna skortir föt og fæði, meðan 20 millj. af fjármagni þjóðarinnar eru dregnar undan skatti, meðan innan við 1000 manns í Reykjavík hafa yfir 10 millj. krónur í nettótekjur, sem þeir gefa upp til skatts, meðan gróðinn af verzluninni er árlega 4–5 millj. og hreinn gróði síldarútgerðarinnar í sumar að minnsta kosti 4 millj. Það er líka erfitt að skilja það, hvernig stjórnarflokkarnir fara að afsaka það fyrir fólkinu, að þeir fáist ekki til að sinna till. um stóribúða- og háleiguskatt eða till. um lækkun á launum hálaunaðra embættismanna, þó hér sé um sömu till. að ræða og þeir hafa sjálfir flutt á undanförnum þingum. En nú bregður svo undarlega við, að þegar þeir þurfa á tekjum að halda í ríkissjóðinn, þá er eins og sumir þessara sömu manna kjósi helzt að sjá sínar eigin till. dánar og grafnar.

Þá vil ég aðeins drepa á önnur umbótamál, sem við leggjum fyrir þingið. Við flytjum frv. um gagngerðar endurbætur á fátækralögunum. Helztu atriði þessa frv. eru, að landið er allt gert að einu framfærsluhéraði, til stórkostlegra hagsbóta, bæði fyrir fátæk bæjarfélög og styrkþegana sjálfa. Upphæð framfærslustyrks skal ekki lengur miðuð við duttlunga framfærslunefnda, heldur skal hann ákveðinn með gjaldskrá fyrir hvert bæjar- og sveitarfélag. Þar með er eðli framfærslustyrksins breytt þannig, að hann hættir að vera ölmusa, heldur verður hann ákveðinn réttur. Framfærslumálin færast þá meir í það horf, að verða ein tegund þjóðfélagstrygginga. Meðlög með börnum skulu öll greidd af ríkinu. Ófrelsisákvæði núgildandi framfærslulaga eru öll afnumin, svo sem sérstakir fangelsisdómar fyrir styrkþega, þvingunarvinna o. s. frv. Það er undir öllum kringumstæðum bannað að sundra heimilum vegna fátæktar. Framfærslunefndum er breytt þannig, að verkamannasamtökin fá fulltrúa í þeim. Framfærslueyrir skal allur greiddur í peningum. Framfærsluþurfar eru í öllum atriðum gerðir jafnréttháir öðrum þjóðfélagsborgurum.

Þá flytjum við brtt. við l. um greiðslu verkakaups, sem tryggir það, að verkakaup sé undantekningarlaust greitt í peningum. Brtt. á lögum um aðför flytjum við, sem fer í þá átt, að undanskilja megi lögtaki 500 kr. eign, jafnvel þegar um greiðslur opinberra gjalda er að ræða eins og við einkaskuldir. Ennfremur till. um úthlutun gjaldeyrisleyfa til smásala og útvegsmanna til innkaupa á vörum til útgerðarinnar.

Þessi síðasta krafa okkar hefir borið þann árangur, að komizt hefir inn í frv. um gjaldeyrisverzlun ákvæði um, að útgerðarmönnum sé heimilt að ráðstafa gjaldeyri, sem fæst fyrir útflutningsvörur þeirra.

Till., sem við lögðum fram um innflutning ávaxta, hefir að vísu aldrei komið til umræðu, en virðist hafa verið tekin til greina að nokkru leyti.

Nú spyr almenningur, hvað verði um öll þessi umbótamál, sem þm. kommúnista bera fram. Því er til að svara, að hv. þm. virðast sofa nokkuð fast á þeim. Sú stefna, sem í þeim felst, virðist ekki eiga miklu brautargengi að fagna hjá hv. stjórnarflokkum. Stefna hv. ríkisstj. virðist horfa í allt aðra átt, eins og ég hefi lýst áður. Og þá spyr alþýða landsins, hvernig sé þá hægt að koma þessum málum í framkvæmd, Hvernig er hægt að gera vilja meiri hluta þjóðarinnar gildandi á Alþ.? Hvernig er hægt að láta lýðræðið vera í gildi?

Það varðar mest til allra orða, að undirstaðan rétt sé fundin. er þá fyrst að leita orsakanna fyrir þessari íhaldsstefnu stj., orsakanna fyrir því, að vilji kjósendanna, vilji meiri hluta þjóðarinnar fær ekki að ráða á Alþ., þrátt fyrir þann glæsilega kosningasigur, sem alþýðan vann í vor.

Þá er fyrst að gera sér ljóst, að þessi kosningasigur var vissulega ekki unninn fyrir gýg, þrátt fyrir allt. Hvað hefði gerzt, ef Sjálfstfl. eða Breiðfylkingin hefði orðið í meiri hluta? Sjálfstfl. hefir sýnt svo greinilega klærnar hér á Alþingi, að það þarf nú ekki framar vitnanna við. Það, sem gert hefði verið, ef Breiðfylkingin hefði sigrað, er í stuttu máli eftirfarandi: Það hefði verið komið á þvingunarlögum í vinnudeilum, sem lagt hefðu verkalýðsfélögin í fjötra, og síðan hefði verið látið til skarar skriða að koma á almennri kauplækkun í landinu. Strax og í odda hefði skorizt í stéttabaráttunni hefðu foringjar verkalýðsfélaganna og verkalýðsflokkanna verið fangelsaðir. Sjálfstæðismenn hafa nú lagt hér fram frv. sitt um þvingunardóm í vinnudeilum enn einu sinni, og það var mjög athyglisvert, sem hv. 8. landsk. (GÞ) sagði í umr. um það mál. Hann sagði, að þetta afkvæmi íhaldsins skyldi verða að l., hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Svona er hægt að telja upp ótal dæmi um hótanir afturhaldsmannanna í Íhaldsflokknum, um að ofbeldið skuli látið skera úr. ef þeir fá ekki að ráða. Breiðfylkingarstjórn myndi ekki hafa látið sitja við að leggja verkalýðsfélögin í rústir, heldur líka stefnt að því að leggja samvinnufélögin í rústir, eins og menn hennar hafa margsinnis boðað, bæði í ræðu og ríti. Mikil líkindi eru til, að stjórn Breiðfylkingarinnar hefði lækkað gengi krónunnar, og hefði það þá verið ein aðferðin til almennrar kauplækkunar. Og þið þurfið ekki annað en hlusta á ræður þessara herra til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að þeir hefðu lækkað beinu skattana á auðmönnunum og í stað þess hækkað tollana á nauðsynjavörur enn meir. Verklegar framkvæmdir hefðu verið skornar niður. Það er þetta, sem að baki býr í ræðum þessara manna, þegar þeir eru að barma sér yfir háu sköttunum og skammast út í „eyðslu“ stj. Þegar þeir tala um „eyðslu“, þá meina þeir framlög til verklegra framkvæmda. Lýðskrum sjálfstæðismanna á yfirstandandi þingi er annar þáttur út af fyrir sig, og mun verða komið nánar inn á það mál síðar í þessum umræðum. Því var afstýrt með kosningunum í vor, að þessi íhaldspólitík kæmist til framkvæmda. Og það var mikill sigur. En um leið vil ég minna á það, sem við kommúnistar sögðum fyrir kosningarnar í vor. Við sögðum eftirfarandi :

,;Til þess að tryggja lýðræðið í landinu er ekki nóg að koma í veg fyrir, að íhaldið fái meiri hluta. Það er ekki hægt að búast við því, að hinar vinnandi stéttir verndi það lýðræði sem fjöregg sitt, sem gefur auðvaldinu og afturhaldinu tækifæri til að drottna í skjóli sinu, sem heldur hlífiskildi yfir fjárglæframönnum og lyftir þeim upp í æðstu valdastöður þjóðfélagsins, sem hlífir þeim ríku, en leggur byrðarnar á hina fátæku. Lýðræðið hlýtur nú að byggja áframhaldandi tilveru sína á stuðningi hinna vinnandi stétta, því annars er það dauðadæmt. Og það lýðræði, sem styðst við alþýðuna, verður að sjá hagsmunum hennar borgið. Það er lífsskilyrði þess. Til þess að tryggja lýðræðið dugir ekki sú stefna, sem stjórnarflokkarnir hafa starfað eftir undanfarin þrjú ár. Til þess að tryggja lýðræðið duga hvorki svikin loforð né undanlátssemi og jafnvel samstarf við versta afturhaldið.“

Á þessu þingi sjást engin glögg merki þess, að hv. stjórnarflokkar ætli að hverfa af þeirri braut, sem þeir hafa gengið undanfarin ár. Og orsakirnar eru þær, að áhrif auðmannastéttarinnar á stjórnarflokkana mega sín enn sem fyrr meir en áhrif hins vinnandi fólks. Það er skylt að segja það hér, hverjir eru höfuðábyrgir fyrir þessari íhaldspólitík. Það eru fyrst og fremst örfáir afturhaldssamir menn innan Framsfl. með 1. þm. S.-Þ., formann Framsfl., Jónas Jónsson, í broddi fylkingar. Formaður Framsfl. hótar stöðugt, ýmist samstarfi við Íhaldsfl. um stjórnarmyndun eða hann ógnar með Landsbankanum. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan þessi hv. þm. ógnaði opinberlega hér á Alþ. með valdi Landsbankans. Það var í umræðunum um frv. framsóknarmanna og íhaldsmanna um síldarverksmiðjur ríkisins.

Þá getum við aftur snúið okkur að spurningunni, sem mestu varðar: Hvað geta hinar vinnandi stéttir gert til að skapa það ástand, að þingfulltrúar þeirra þjóni hagsmunum þeirra og vilja, svo ríkisstj. verði mynduð í landinu, sem framkvæmir þá pólitík, sem meiri hluti þjóðarinnar vill? Þetta er meira Grettistak en mörgum virðist í fljótu bragði, því það er einmitt einkenni hins borgaralega lýðræðis, að auðmennirnir geti meira eða minna drottnað í skjóli þess, hvernig sem ríkisstj. er skipuð á hverjum tíma.

Það, sem fyrst og fremst er nauðsynlegt til að hrinda málstað fólksins áleiðis, er, að hinar vinnandi stéttir efli samtök sín, og að öll þessi samtök verkamanna og bænda, smáútvegsmanna og annara vinnandi manna tengist órjúfandi einingarböndum.

Og til þess að þetta megi takast, verður verkalýðurinn, sem á þróttmestu samtökin og þau, sem bezt eru til forystu fallin, að sameinast. Þess vegna er nú brýnni nauðsyn á því en nokkurn tíma fyrr, að náið samstarf takist með verkalýðsflokkunum, Alþfl. og Kommfl. og verkalýðsfélögunum, og að þetta samstarf hafi að takmarki sameiningu Alþfl. og Kommfl. í einn flokk, jafnskjótt og þeir hafa skapað sér sameiginlegan, pólitískan og fræðilegan grundvöll, jafnskjótt og þeir hafa komið að sameiginlegri niðurstöðu um þau mál, sem örlög verkalýðshreyfingarinnar í nútíð og framtíð veltur á og varanleg eining þeirra er tryggð.

Jafnframt verða öll samtök alþýðunnar í landinu að koma sér saman um dægurmálastefnuskrá og mynda með sér traust bandalag. Þátttakendur í þessu bandalagi verða að vera hinir pólitísku flokkar bænda og verkamanna, Framsfl. og deildir hans, verkalýðsflokkarnir og deildir þeirra, og auk þess öll verkalýðsfélög, samvinnufélögin í bæjum og sveitum, samtök þau, sem smáútvegsmenn skapa sér, æskulýðsfélög, frjálslynd kvenfélög og allur annar félagsskapur, sem taka vill þátt í vörninni gegn afturhaldinu og fasismanum og berjast fyrir bættum kjörum alþýðunnar til sjávar og sveita. Öll þessi samtök mynduðu svo með sér sameiginlegar nefndir víðsvegar um landið í sveitum og bæjum. Verkefni þessara nefnda væri svo að samræma pólitík alþýðunnar, bæði í bæjar- og sveitarmálum og í landsmálum, og hafa á hendi framkvæmd hinnar sameiginlegu stefnuskrár. Á grundvelli slíkra styrkra samtaka gætu svo hinar vinnandi stéttir falið fulltrúum sínum á Alþ. að mynda ríkisstjórn. Slík stjórn væri þá ekki aðeins háð þingmeirihluta vinstri flokkanna og styddi sig ekki aðeins við þingmeirihlutann, heldur væri hún háð hinum sameinuðu samtökum hins vinnandi fólks í landinu og nefndum þeirra og styddist jafnframt við þessi samtök.

Það er þetta, sem við köllum þjóðfylkingu, og

þá stjórn, sem þannig er mynduð, þjóðfylkingarstjórn. Slík stjórn myndi vera hin sterkasta stjórn, sem nokkurn tíma hefir farið með völd á Íslandi, því öll hennar verk myndu vera unnin í samvinnu við fólkið sjálft og samtök þess og öll hennar ráð ráðin í samráði við alþýðuna, sem hún styddist við; og samtök fólksins á hverjum stað myndu slá skjaldborg um stjórn sína og túlka málstað hennar meðal þjóðarinnar. Slík samtök sem þessi myndu verða þess megnug að grípa algerlega fyrir kverkar fasismans, og fyrir slíkri stjórn, sem framkvæmdi vilja fólksins og gætti sameiginlegra hagsmuna þess, myndi fylgi afturhaldsins, sem nú veður uppi í Sjálfstfl., hverfa eins og dögg fyrir sólu. Slíka stj. myndi Kommfl. styðja af heilum hug, og þær þúsundir, sem honum fylgja, myndu leggja fram alla sína starfskrafta og allan sinn eldmóð í baráttunni fyrir málstað hennar og fyrir því, að hrinda stefnumálum hennar í framkvæmd.

Því er ekki að neita, að margir spyrja nú með ugg og kvíða. Er samvinna milli Framsfl. og verkalýðsins möguleg lengur? Er ekki Framsfl. að undirbúa vinnulöggjöf, til þess að hugsjónir Eggerts Claessens megi rætast? Hefir ekki Framsfl. lagt fram á þessu þingi frv. um síldarverksmiðjur ríkisins, sem er bein árás á verkamenn, sjómenn og alla útvegsmenn nema Kveldúlf og Alliance, og ætlar hann ekki að gera þetta frv. að l. með fulltingi íhaldsins? Stendur ekki Framsfl. eins og múrveggur gegn öllum sköttum á þá ríku, og getur ekki hugsað sér aðrar tekjuöflunaraðferðir í ríkissjóðinn en að leggja hækkaða tolla á nauðsynjavörur? Er ekki formaður Framsfl. í stöðugum þingum við form. Sjálfstfl., brosandi út í hægra munnvikið? Allt þetta er rétt, og það er vitað, að menn, sem allt til þessa hafa verið og eru áhrifamenn í Framsfl., vinna að því öllum árum, að samvinna takist milli Framsfl. og íhaldsins, þannig að Framsfl. verði gerður að einskonar íhaldsfl. no. 2, íhaldsfl. sveitanna, og þannig mynduð ný breiðfylking, sem myndi gera vesalings Bændafl. aldeilis óþarfan fyrir hina drottnandi auðmannaklíku í landinu. En þessu er til að svara, að ef bændurnir eru á verði, þá er ekki hægt fyrir neina foringja að fremja slíkt fantabragð gegn bændastétt landsins og allri alþýðu. Framsfl. getur ekki verið íhaldsfl. og bændafl. í senn, því bændurnir og peningamennirnir í bæjunum hafa ekki samstæða hagsmuni, heldur andstæða hagsmuni. Hvernig haldið þið, að hagsmunum bændanna væri borgið í samvinnu við íhaldið? Hvernig haldið þið, að skuldamálum bænda yrði skipað? Og hvað haldið þið, að yrði úr skipulagi afurðasölunnar í samvinnu við Eyjólf í Mjólkurfélaginu, hv. þm. G.-K. (ÓTh) og aðra slíka? Og hvernig haldið þið, að jarðræktarlögin mundu líta út eftir nokkurra ára samvinnu við íhaldið? Og hverjir ættu svo að kaupa afurðir bændanna, eftir að búið væri að leggja verkalýðsfélögin í rústir, og verkamenn yrðu að búa við þau smánarlaun, þau sultarkjör og bágindi, sem atvinnurekendur myndu skammta úr hnefa?

Nei, Framsfl. getur ekki tekið höndum saman

við íhaldið án þess að fremja sjálfsmorð. Bændur yrðu þá að bindast samtökum á öðrum vettvangi. Og bændur munu aldrei líða það, að slíkt sjálfsmorð yrði framið. Bændur eiga ekki samleið með neinum nema verkalýðnum. Framsfl. styður sig við fátæka bændur og samvinnusamtök þeirra, og þess vegna á Framsfl. heima í vinstra-bandalagi, — hann á heima í fylkingum þess hluta íslenzku þjóðarinnar, sem vinnur fyrir brauði sínu í sveita sins andlitis. Það eru líka margir, sem líta með ugg og kvíða á samstarf samvinnufélaganna og verkalýðsfélaganna. Menn benda á Akureyri, þar sem þessi samtök fólksins hafa átt innbyrðis í harðri kaupdeilu. Á Akureyri á S. Í. S. iðnfyrirtæki, sem hafa haldið uppi kaupkúgun og telja það óhjákvæmilegan lið í rekstrarfyrirkomulagi þessara fyrirtækja og þess vegna eigi verkafólkið að sætta sig við þessa kaupkúgun. Á Akureyri komust menn, áður en núverandi samningar voru gerðir, ekki upp í eins hátt kaup á 10 árum eins og menn fá við samskonar fyrirtæki hér, eftir eitt ár. Verkafólkið fór nú ekki fram á annað en að sama kaup yrði greitt á Akureyri og iðnverkafólkið í Reykjavík hefir nú samkv. samningi, sem félag iðnverkafólksins hér í Reykjavík hefir sagt upp, í því skyni að fá allverulega kauphækkun.

Út af þessu lögðu hinir afturhaldssömu foringjar sambandsins út í langvinna kaupdeilu, að hætti hinna forstokkuðustu atvinnurekenda. Hér er því miður að rætast það, sem hinn ágæti frömuður samvinnuhreyfingarinnar, Hallgrímur Kristinsson, renndi grun í, þegar hann lét svo um mælt, að hann „óttaðist um framtíðarörlög samvinnustefnunnar, er eldur hugsjónanna félli í fölskva hjá gröfum frumherjanna“.

Þetta er nú komið á daginn, með þeim hætti, sem annar ágætur frömuður samvinnuhreyfingarinnar, Benedikt Jónsson á Auðnum, lýsir í grein, sem hann skrifaði á fertugsafmæli Ófeigs úr Skörðum í fyrsta blað samvinnustefnunnar á Íslandi. Benedikt á Auðnum skrifar eftirfarandi, sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Hálfleiki, hálfvelgja, hugdeigla gagnvart ríkilætinu virðist vera einkenni nútímakynslóðarinnar. Smáhygli og sérgæðingsháttur veður uppi hvívetna í almenningsmálum, eyðir áhrifum þess, sem bezt er gert, og truflar alla skipulagsviðleitni.

Að þetta sé ekki ofmælt, sannar það furðulega fyrirbrigði, að jafnvel þeir menn, sem kalla sig samvinnumenn, gera sig að undirtyllum gamalla selstöðuverzlana og reka erindi þeirra við almenning. Með því auðga þeir þær og efla, en vinna gegn þeirri stefnu, sem þeir þó dingla aftan í með látalæti sín.

Hvernig er þess að vænta, að nokkrir sigrar vinnist með slíku fylgdarliði? Það er ekki til svo gott og réttmætt málefni, að það nái fram að ganga, ef unnið er að því með slíkum smásálarskap, tómlæti og tvöfeldni.“

Svo að ég snúi mér nú aftur að kaupdeilunni á Akureyri, þá vaknar spurningin: Hvaða hag hafa bændur af því, að fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar sé beitt í kaupkúgunarskyni?

Það hlýtur að vera eitthvað bogið við þau samvinnufyrirtæki, sem ekki geta keppt við fyrirtæki einstakra manna í sömu iðngrein, með sama kaupgjaldi, og þá er það vitaskuld hagur allra samvinnumanna, að slíku sé kippt í lag. Og ekki getur það verið hagur bænda, að samvinnufélögin færi meir og meir út kvíarnar með lágu kaupgjaldi og lækki þar með allt kaupgjald í landinu. Þannig myndu samvinnufélögin verða þess valdandi, að bilið milli stéttanna stækkaði, gróði einstakra atvinnurekenda yrði meiri og kjör verkafólksins versnuðu. Og hver vill halda því fram, að bændunum sé hagur að því, að kaupgeta almennings í bæjunum minnki, að verkafólkið neyðist til að kaupa minna af mjólk og kjöti? Hver vill halda því fram, að það sé hagur bænda, að alið sé á úlfúð milli samvinnufélaganna og neytendanna í bæjunum, svo þeir minnki viðskipti sín við samvinnufélögin? Þeir herrar, sem standa að því að etja saman samtökum bænda og verkamanna, eru ekki aðeins andstæðingar verkamanna heldur líka andstæðingar bænda.

Ég vil nú nefna eitt dæmi um það, hvernig samvinnusamtök og verkalýðssamtök geta unnið saman. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis er eitt stærsta samvinnufélag landsins og er byggt upp af róttækum verkamönnum í Reykjavík. Það eru kommúnistar og margir ágætir menn úr öðrum flokkum, sem hafa unnið að því að gera það stórt og öflugt. Þeir hafa unnið að þessu í bezta samstarfi og yfirleitt í samræmi við stefnu Kommfl. í neytendamálum. Kaup og kjör starfsfólksins við kaupfélagið eru yfirleitt betri en tíðkast í Reykjavík. Það er eina verzlunarfyrirtækið, sem gert hefir samning við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Þrátt fyrir þetta getur kaupfélagið selt ódýrara en aðrir og haldið vöruverðinu í Reykjavík niðri. Nú standa yfir samningar milli Verzlunarmannafélagsins og kaupfélagsins og það er almenn skoðun manna í báðum félögunum, að í þessum samningum eigi aðeins eitt sjónarmið að koma til greina, og það er, hvað báðum aðiljum er fyrir beztu. Félögin vilja veita hvort öðru gagnkvæman stuðning. Kaupfélaginu ber að líta á það sem hlutverk sitt að hjálpa Verzlunarmannafélaginu svo sem unnt er til þess að bæta kjörin, og Verzlunarmannafélaginu ber að líta á það sem hlutverk sitt að efla og styrkja kaupfélagið.

Svona samvinna og gagnkvæmur skilningur getur verið og á að vera milli allra samvinnufélaga og verkalýðsfélaga á landinu.

Margur mun nú segja sem svo, að það muni eiga langt í land, að verkamenn og bændur taki þannig höndum saman eins og vera ber. En því er til að svara, að þetta er næsta sporið, sem alþýðan í landinu verður að stíga, til þess að afstýra vandræðum og glundroða og koma í veg fyrir, að afturhaldið noti sér sundrung hinna vinnandi stétta, til þess að hrifsa til sín völdin. vissulega eru margir örðugleikar á þessari leið. En hvers vegna skyldu þeir vera óyfirstíganlegir? Eru ekki hagsmunir allra þeirra, sem vinna í þessu þjóðfélagi, nátengdir? Er það ekki hagur bændanna, að kjör fólksins í bæjunum séu sem bezt, svo að innanlandsmarkaðurinn sé sem öruggastur fyrir afurðir þeirra? Og er ekki samstarfið við bændurna nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að verkamennirnir í bæjunum geti komið málum sínum áleiðis? Er það ekki sameiginlegur hagur smáútvegsmanna og sjómanna, að hlynnt sé að sjávarútveginum og komið í veg fyrir, að peningavaldið og einokunarhringarnir hirði arðinn af stríði þeirra? Hversvegna skyldi þetta fólk þá ekki geta unnið saman, jafnvel þótt menn héldu áfram að deila um lífsskoðanir? Og það er líka alveg víst, að hið vinnandi fólk í landinu vill vinna saman. Bændur og verkamenn vilja vinna saman. Hvað er þá í veginum? Í veginum standa einstakir steingerðir foringjar, sem daðra við auðvaldið og afturhaldið, eða eru gersneyddir öllum skilningi á þeim miklu straumhvörfum, sem nú eru að gerast í íslenzku þjóðlífi. Það þarf að gera slíka menn óskaðlega. Það fyrsta, sem verkamennirnir og bændurnir og aðrir alþýðumenn þurfa að gera, það er að taka sjálfir stjórnina í sínum eigin flokkum og samtökum og sameinast í einu traustu bandalagi. Þar með ern tryggð áhrif alþýðunnar á stj. landsins og þau umskipti í íslenzkri pólitík og íslenzkum þjóðfélagsmálum, sem allir frjálslyndir menn og allir góðir drengir óska eftir.