21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Ég bar fram við 2. umr. brtt., þar sem farið er fram á, að þetta ½% gjald, sem á að fara til bæjar- og sveitarfélaga. væri hækkað upp í 1%. Ég tók þessa till. aftur til 3. umr. og mun nú taka hana alveg aftur. ekki vegna þess, að ég telji ekki sanngjarnt, að verksmiðjurnar greiði svo hátt gjald, heldur af því, að ég vil ekki stofna málinu í hættu með því að fá þessa till. samþ., svo að frv. þurfi aftur til hv. Ed.

Annað, sem ég vildi minnast á, er atriði úr ræðu hv. þm. Ísaf. Hann lagði mikla áherzlu á, að það væri þinginu til skammar, ef það afgreiddi l., þar sem stæði, að eftir væru tvær greiðslur til dr. Paul, þar sem eftir væri aðeins ein, og endurtók þetta við 2. umr., þótt það væri margupplýst, að greiðslurnar væru tvær. Ég hefi athugað málið nánar og get upplýst, að hv. þm. Ísaf. fer þar með rangt mál. Stjórn síldarverksmiðjanna mun hafa skrifað stjórn Landsbankans um 1. okt. og beðið bankann að skulda verksmiðjurnar fyrir þessari upphæð, sem átti að greiða dr. Paul og mun nema um 160 þús. kr., en bankinn hefir ekki skuldað verksmiðjurnar fyrir þessari upphæð enn og millifærsla hefir engin átt sér stað, svo að upphæð sú, sem hv. þm. hefir beðið að færa út af reikningi verksmiðjanna, stendur þar enn. Þótt svo hefði verið, að síldarverksmiðjurnar hefðu greitt þetta af reikningi sínum í bankanum, þá hefði samt sem áður engin greiðsla farið fram í raun og veru, þar sem svo er um samið, að greiðslurnar skuli fara fram í erlendri mynt. Það væri því ekki lögleg greiðsla, þótt síldarverksmiðjurnar greiddu þessa upphæð inn á reikning í Landsbankanum og ef t. d. yrði gengishrun, þá yrði það á ábyrgð verksmiðjanna, en dr. Paul mundi ekki tapa á því.

Mig furðar, þótt hv. þm. Ísaf. vilji þetta mál feigt, að hann skuli leggja það mikla áherzlu á að fá það svæft, að leggja sig niður við að fara með slík ósannindi, sem hægt var að upplýsa með þeim gögnum, sem ég hefi fengið hjá yfirbókara bankans. Má marka allan málaflutning þessa hv. þm. af því, að hann skirrist ekki við að nota sér ósannindi um svo lítið atriði.

Ég skal ekki tefja afgreiðslu málsins með því að fara inn á þær ræður, sem haldnar hafa verið, en eitt þykir mér einkennilegt í ræðu hv. 5. þm. Reykv., að hann og sósíalistar, sem eru fylgjandi lýðræði og lýðræðisreglum, skuli vera andvígir því, að í Sþ. fari fram hlutfallskosning um skipun stjórnar þessa fyrirtækis. Ég hélt þó, að í Sþ. væri að miklu leyti rétt hlutföll miðað við kjósendur landsins, og það því ekkert brot á lýðræði, að fara eftir vilja Sþ. Þá má og benda á. að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir áður verið kosin af Sþ., þ. e. a. s., 4 stjórnendur af Sþ. og einn skipaður af ráðh.

5. þm. Reykv. og aðrir sósíalistar bera því við, að þeir hafi á. móti þessu frv. vegna þess, að þeir álíti, að vinnuveitingar við verksmiðjurnar verði svo mjög misnotaðar af stjórn, sem verði þannig skipuð, en það hefir upplýstst svo frekleg misnotkun á úthlutun vinnu þar áður, að mönnum mun vera það minnisstætt, sérstaklega vegna umr. á síðasta þingi. Það er auðvitað engin ástæða til þess fyrir löggjafarvaldið að þola það, að stjórn svona fyrirtækis skuli vera í höndum eins stjórnmálaflokks.

Það, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði um það verð, sem sjómenn myndu nú fá fyrir síldina, að með þessu frv. væri girt fyrir, að þeir fengju sannvirði, þá er því til að svara, að þetta er nákvæmlega eins í frv. eins og í núgildandi í., og í frv. eru einnig samskonar reglur og í f., sem þó hefir aðeins einu sinni verið framkvæmd, að greiða síldarseljendum aðeins út 85% verðsins. Þetta hefir aðeins verið framkvæmt eitt ár, annars hefir verið greitt fast verð fyrir síldina. Það er því ekkert nýtt í þessu máli, sem hv. 5. þm. Reykv. og aðrir sósíalistar ættu að berjast svo mjög gegn sem þeir gera. Það, sem að þeim er, en það, að þeir vilja fá meiri völd í þessu máli en atkvæðamagn þeirra leyfir. Þeir eru minnihlutaflokkur og verða að hafa völd samkv. því, en ættu ekki alltaf að vera að tala um ranglæti í sambandi við þetta mál.