21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Emil Jónsson:

Ég hefi ekki eytt tíma fyrir hv. d. í að tala um þetta mál, og það mun ég ekki heldur gera nú, enda virðist mér það þýðingarlítið, þar sem allt er svo fyrirfram ákveðið, að hv. þm. fást ekki einu sinni til að leiðrétta sannanlegar villur, sem í frv. eru, og heldur en að gera þessa litlu breyt. vilja þeir samþ. frv. með villunni i. Mér finnst þessi málsmeðferð svo léleg og svo ósamboðin hæstv. Alþ., að ekki tekur tali. Sjálfstfl. mætti vita, að þar sem hann hefir um þetta mál samkomulag við annan stórflokk, að þá væri málinu engin hætta búin, þótt þessu væri breytt, en það er tilgangslaust að eyða um það fleiri orðum.

Ég vil benda á ýmislegt, sem mér finnst athugavert í frv. fyrir utan þessa sjálfsögðu leiðréttingu. Það, sem mér finnst merkilegust í frv., er það, að þar er slitið sundur allt samband milli ráðh., sem fara á með þessi mál, og væntanlegrar stjórnar verksmiðjanna. Sþ. á að kjósa alla stjórnarmenn og þeir síðan sjálfl:. formann sinn. Með þessu eru útilokuð áhrif ráðh. og ríkisstj. á þetta mál. Mér finnst, að þegar um þetta stærsta atvinnufyrirtæki ríkisins er að ræða, þá sé þetta óverjandi. Ég vil freista þess, hvort ekki má takast að koma einni sjáifsagðri breyt. á, þannig, að atvmrh. sé fengið það vald í hendur að skipa formann fyrir þessari 5 manna n., og finnst mér, að með því sé ráðin nokkur bót á því, hvernig þetta er dregið úr höndum hæstv. ríkisstj. Ef ráðh. skipaði formann, einn af þessum 5, hefir hann með því fengið beinan aðgang að verksmiðjustj., þar sem þar væri maður, skipaður af honum, sem yrði að bera ábyrgð gagnvart þeim ráðh., sem skipaði hann. Ég hefi hugsað mér að bera fram skrifl. brtt. í þessa átt, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp. Hún fer nánar tiltekið út á það, að 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. skuli orða svo: „Atvinnumálaráðh. skipar formann stjórnarinnar til eins árs í senn“. Ég hygg, að þetta sé öllum, sem um málið hugsa, fyllilega ljóst. Skal ég því til staðfestingar leyfa mér að lesa upp álit hv. stjórnarandstæðinga um þetta frá árinu 1934. Þá var borin fram af minni hl. sjútvn. brtt. við l. um síldarverksmiðjur ríkisins, sem þá voru samþ. Minni hl. lagði þá til, að atvmrh. skipaði form. stj., og vil ég lesa upp kafla úr ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem var frsm. minni hl. n. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Formaður stj. leggjum við til, að sé stjórnskipaður og aðeins til eins árs í senn. Það hefir verið gengið inn á þá hugsun, sem virðist vera rétt og er orðið ríkjandi, að sú ríkisstj., sem situr í hvert skipti, eigi að ráða, hverjir eru hennar trúnaðarmenn við stjórn slíkra fyrirtækja sem þessa. Og það er alveg gefinn hlutur, að ef form. þessarar stj. er skipaður árlega, þá hefir hver stj. þar þann trúnaðarmann, sem hún helzt mundi kjósa.

Þetta hefir verið álit hv. stjórnarandstæðinga þá, og ég vænti, að það hafi ekki breytzt síðan, og þau rök sem giltu þá, gilda einnig nú. — Ég geri ekki ráð fyrir, að það þýði að hafa um málið fleiri orð, enda ætla ég, að ég hafi gert skiljanlegt, hvað ég meina með till. minni, og vona, að þrátt fyrir allt ofurkapp í þessu máli sjái hv. þdm. sér fært að hverfa ekki frá yfirlýstri skoðun í þessu máli og samþ. till.

Um ýmislegt í ræðu hv. 8. landsk., eins og t. d. hlutdrægni í starfsmannavali, þá væri afarhægt að hrekja það, og hafi hlutdrægni verið beitt í síldarverksmiðjum ríkisins, þá er það víst, að hún hefir ætíð ríkt í þeim fyrirtækjum, sem hann og hans flokksmenn hafa ráðið, og mætti draga frekari rök fram í því máli.

Vil ég svo leyfa mér að leggja till. fyrir hæstv. forseta.