21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég er hræddur um, að hv. þm. G.-K., ef hann er hér nærri, verði örðugar kjósendaveiðarnar, eins og hann komst að orði, ef hann leggur út í kosningar með þeirri yfirlýsingu, sem hann kom með áðan. Hann er í fyrsta lagi búinn að hopa það, að hann hefir svarið af sér Morgunbl., og það er þó alltaf gott. Árið 1936 gekk ekki hnífurinn milli form. Sjálfstfl. og Morgunbl. Þá átti Kveldúlfur bara eina verksmiðju. Vorið 1937 er Hjalteyrarverksmiðjan byggð. Því er svo komið, að Morgunbl. stendur eitt uppi með þetta. Nú er svo komið, að hv. þm. sver það algerlega af sér, og það með svo sterkum orðum, að þegar farið verður að athuga, hvernig þetta stendur, þá er ég hræddur um, að það verði allt annað en vænlegt.

Ég skora nú á hv. þm. G.-K. að hlýða á það, sem ég ætla að lesa upp, og segja svo til, hvort hann stendur við allt. sem hann hefir skrifað. Hann sagði áðan ég held, að ég hafi það rétt: „Allt, sem ég hefi þar skrifað, stend ég við“. Svo ætla ég með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla. sem hann skrifaði um okurlögin, sem hann var að enda víð að samþ. í 11. gr. þessa frv. Þessi gr. er í Morgunbl. 28. maí 1936, og sá kafli, sem ég les upp, heitir „Okurlögin“. Hann hljóðar svo:

„Samkv. lögum frá í fyrra er þess krafizt, að sjómenn og útvegsmenn greiði þessi gjöld fyrir afnot af verksmiðjunum:

1. Afborganir af stofnkostnaði, eftir því sem um semst við lánveitendur eða ríkisstjórnina.

2. 2% gjald í fyrningarsjóð.

3. 5% gjald í varasjóð.

Ég vil nú í fyrsta lagi slá því föstu, að gjöld þessi eru svo óeðlilega há, að tæplega getur talizt ríkinu vansalaust að okra þannig á sjómönnum og útvegsmönnum. Hvaða vit er í því að krefjast þess, að fyrst greiði útvegurinn allan stofnkostnað verksmiðjanna með því að greiða alla vexti og allar afborganir í gjalddaga, síðan greiði útvegurinn stofnkostnaðinn í annað sinn á fyrstu 12–15 starfsárum verksmiðjanna með svokölluðu varasjóðsgjaldi, og loks greiði svo útvegurinn í þriðja sinn 2/5 hluta stofnkostnaðar á sömu 12–15 árum með fyrningarsjóðsgjaldi. Slíkt mætti orða, ef sjómenn og útvegsmenn eignuðust sjálfir þessa sjóði, en svo er ekki.

Útvegnum er ætlað að greiða gjöldin, ríkinu að eiga sjóðina. (Leturbreyting blaðsins). En við þetta bætist svo, að enda þótt þessum gjöldum væri í hóf stillt, er heldur ekkert vit í því að heimta þau alveg án hliðsjónar til árferðis“.

Þetta skrifaði hv. þm. G.-K. og nú lýsti hann því yfir, að allt, sem hann hefði skrifað, stæði hann við, og hafði þá fyrir 5 mín., nú líklega fyrir stundarfjórðungi, greitt atkv. með samþ. þessara okurlaga, svo og að fella allar till. frá öðrum hv. þm. um að lækka þessa liði eitthvað pínulítið. Samt hafa þeir liðir, sem hann taldi þarna upp, hækkað síðan. Fyrningargjaldinu, sem áður var 2%, er nú skipt í tvennt, þannig að nokkur hluti þess er 5%. Í báðum d. var reynt að fá þetta gjald lækkað, en hv. þm. G.-K. lagðist á móti því. Og svo staðhæfir hann: „Allt, sem ég hefi skrifað, stend ég við“.

Ég þykist bara með þessu smádæmi vera búinn að sýna fram á, að það, sem hann hefir skrifað, hefir hann ekki staðið við. En hann hefir ennþá tækifæri við 3. umr., ef hann vill flytja brtt. til þess að sýna, að hann sé á móti því, að okrað sé á sjómönnunum.

Svo er það annað, sem barizt var um 1936, en það var, hvernig ætti að borga út síldina. Form. Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., stóð þá með því að kaupa síldina föstu verði, en nú hefir hann snúizt á móti því. Og þegar svo hefir tekizt að koma því í gegn í Ed., að það væri þó a. m. k. heimild til þess, þá stendur hv. þm. með öðrum ákvæðum, sem gera ómögulegt að nota þessa heimild, að kaupa síldina föstu verði.

Ég vil nú spyrja hv. þm. G.-K. Ef hann vill standa með því, sem hann hefir skrifað 1936, standa með því, að eigi að kaupa síldina fast, vill hann þá í fyrsta lagi vera með því að breyta þarna til og gera ákvarðanir um, að síldin skuli keypt fast, og í öðru lagi, ef hann vill það ekki, heldur láta heimildina standa, með hverju ætlast hann þá til, að síldin sé borguð? Í 7. gr. þessara nýju l. er gert ráð fyrir, að síldarverksmiðjurnar geti borgað sjómönnum og útgerðarmönnum út með föstu verði. Ég vil því ítreka þá spurningu til hv. þm. G.-K., ef hann ætlar að standa við það, sem hann hefir skrifað, með hverju eiga verksmiðjurnar að borga? Nú er verið að setja l. og ákvarða, hvernig eigi að búa þetta út í hendur stj., og það er ekki til neins fyrir hv. þm. að koma á eftir og segja:

„Okkur er ómögulegt að borga síldina út, af því að það er ekki hægt að fá peninga að láni“.

Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. mundi í sumar og vor sýna, hvernig hann stæði í þessu máli, og þá mundi hann gera okkur örðugar kjósendaveiðarnar, eins og hann orðaði það. En hv. þm. misskilur „situationina“, sem nú er, svo hrapalega. Sjálfstfl. er búinn að skapa sér svo örðuga aðstöðu til kjósendaveiða, að nú er annaðhvort fyrir hann að gera, sjá að sér — og það má að mínu viti enn, meðan umr. er ekki lokið, — eða þá að flokkurinn er búinn að innsigla sín örlög í þessu máli. Form. Sjálfstfl. hefir sem sé ennþá tækifæri til þess að sýna, hvernig hann ætlar að standa við það, sem hann hefir skrifað. Enn er ekki of seint að iðrast. En það er of seint að iðrast eftir dauðann, þ. e. a. s. þegar búið er að samþ. frv. En hvernig sem það fer, hvort sem hv. þm. G.-K. breytir um skoðun eða ekki, þá vil ég skjóta því til framsóknarmanna í þessari d., að ef hv. þm. G.–K. meinar það, sem hann sagði, að hann ætlaði að standa við allt það, sem hann sagði 1936, þá vil ég biðja Framsfl. að íhuga, hvar þeir standi með þetta nýja bandalag, og ef hinsvegar hv. þm. G.-K. meinar ekki það, sem. hann sagði, þá vil ég óska þeim til hamingju með bandamann sinn.