21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ég hefi ekki fremur en aðrir hv. þm. hlustað á þessi ræðuhöld, en ég vil þó láta sjást í þingtíðindunum, að ég get ósköp vel afsakað hv. þm. Ísaf. í þessu máli, því að þetta er hans líkræða. Hann er að reyna að halda hér uppi málþófi með margendurteknum og marghröktum ósannindum, sem hver einasti maður í þinginu veit, að hafa ekki við nokkur minnstu rök að styðjast. Þetta hefir hann endurtekið ræðu eftir ræðu yfir 1–2 þm., eingöngu í þeirri von, að hann geti þæft þetta mál, og eingöngu til þess að hann geti haldið áfram að fá þessar 5–6 þús. kr. fyrir að hafa þessa forstöðu á hendi um leið og hann tekur jafnmikið fyrir að vera formaður í annari n., og auk þess er þetta tekið af sjómönnum. Ég skil vel, að þessum manni, með því innræti, sem hann hefir. sárni að missa þetta. Það er kannske mannlegt. og ég er svo vanur að fá fúkyrði frá honum, að ég tek mér það ekki nærri. Fyrst framan af var ég að rökræða við hann, en svo sá ég, að þeir, sem lögðu sig í það, höfðu frekar vansæmd af því. Þær deilur urðu bæði pólitískar, leiðinlegar og óþinglegar, svo að ég hefi vanið mig af að vera að svara þessari illkvittni hans. En þetta er svanasöngurinn, þetta er sorgarsöngurinn yfir þessum þúsundum, sem nú eiga að hverfa úr vasa hans, þar sem þær hafa verið mjög kærkomnar, og það er það, sem honum sárnar.

Ég heyrði ekki ræðu hv. 5. þm. Reykv. nema orð og orð á stangli. Hann er ennþá að spyrja mig, hvort ég standi við það, sem ég hafi sagt. Ég vísa til þess, sem ég hefi áður um það mælt. Annars vil ég segja þessum hv. þm., að hann er ekki svo ófróður um störf í þinginu. að hann viti ekki, að þegar um er að ræða slíkt frv. sem þetta, sem 2 flokkar standa að, þá getur hvorugur flokkurinn fengið að ráða öllu. Í þessu frv. var eitt atriði, sem ég lagði verulega mikla áherzlu á, að næði fram nú þegar, og annað, sem ég var á móti. Fyrra atriðið, sem ég lagði höfuðáherzluna á og taldi meginkjarna þessa máls. var að losa þessi fyrirtæki úr höndum hv. þm. Ísaf. Ég viðurkenni, að ég tel það stærsta atriði málsíns, því að ég tel, að hann hafi verið þar til skammar og skaða. Hitt atriðið, sem ég vildi ekki ganga inn á undir neinum kringumstæðum, var það, að nema úr l. þann rétt, sem gilt hefir, að síldin væri greidd föstu verði. við gátum fengið Framsfl. til þess að gera þetta atriði ekki að skilnaðarsök í þessu máli, eins og sést á því, að Ed.-þm. felldu þetta úr. Sá af flm., sem var fyrir hönd Sjálfstfl., tilkynnti strax, að þetta gengjum við ekki inn á, og Framsfl. hefir sætt sig við það. Að öðru leyti eru í þessu ýms atriði, sem ég er andvigur. Við erum andvígir því. að það megi ekki byggja nýjar síldarverksmiðjur. Við erum andvígir því, að pólitískir spekúlantar skuli hafa aðstöðu til að hindra, að hér séu reistar verksmiðjur, eins og verksmiðjan á Hjalteyri, sem hefir veitt 3 millj. kr. inn í landið á einu sumri. Við erum á móti því, að menn eins og hv. þm. Ísaf. hafi slíka aðstöðu, eingöngu til að geta hefnt sín á pólitískum andstæðingum. Ég hefi hinsvegar neyðzt til að ganga inn á þetta ákvæði, og svo er um fleiri ákvæði í frv. En aðalatriðið í þessu máli er sem sagt það, að d. megi nú kveð,ja þennan valdamann í síldarmálunum, og ég vona, að d. endist kvöldið til þess að sjá á bak honum. Ég hugsa, að það harmi hann ekki mjög margir.