22.10.1937
Efri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Ég skal láta í ljós ánægju mína yfir því, að nú hafa bætzt hér tveir nýir þm. í hóp þeirra, sem vilja, að ríkið hafi hönd í bagga með atvinnurekstrinum í landinu. Við höfum sem sagt fengið tvo þjóðnýtingarmenn í viðbót, til þess að styðja að því, að ríkið taki frekar en áður þátt í þeim framkvæmdum, þar sem einstaklingana brestur. Þetta er mikil og óvænt ánægja, einkum af því að þeir eru úr þeim flokki, sem hingað til hefir látið sér fátt um það finnast, að ríkið hafi nokkurn atvinnurekstur með höndum.

Þetta er það, sem mér verður fyrst að orði, er ég lít þetta frv., sem ég tel, að taka eigi til mjög vinsamlegrar og rækilegrar íhugunar, því að það er margt, sem mælir með því, að aukin verði afköst verksmiðju, er hagnýtt geti síldina, sem veiðist við Langanes og Sléttu og of langt er að flytja vestur á Siglufjörð eða lengra. En þá er á það að líta, hvar eigi að koma þessari verksmiðju fyrir. Ég skal ekkert um það segja, hvort um aðra staði geti verið að ræða en Raufarhöfn, en hv. flm. upplýsti, að til þess að stærri skip kæmust þangað inn, þyrfti að dýpka höfnina, og þótt hv. þm. teldi, að það mundi ekki kosta ákaflega mikið, þá er mér ekki kunnugt um, að nein kostnaðaráætlun liggi fyrir um það. En það er vitanlega hin mesta nauðsyn á því, að stærri skip geti fengið þar afgreiðslu, því að það er svo, þegar síldin veiðist þarna austur frá, að þangað fer allur flotinn, stærri skipin einnig, og þó að segja megi, að þau eigi hægra með að sigla vestur úr með sína síld. þá er samt alltaf bezt, að sem stytzt sé til bræðslustöðvar. Og svo er enn eitt, sem kemur til greina, og það eru tæki, sem ýmsar verksmiðjur eru nú farnar að hafa til þess að skipa upp síldinni, svo kölluð löndunartæki, sem eru stórvirk til þess að skipa upp úr hinum stærri skipum.

En svo er líka þriðja atriðið, sem verður að athuga, og það er, að farið sé eftir einhverri reglu um það, hvar skuli reisa nýjar verksmiðjur. Eftir velgengnina nú í sumar munu þeir ekki vera allfáir, sem hafa í huga að reisa nýjar verksmiðjur, bæði smáar og stórar, til þess að geta tryggt sér skip þau, sem þeir hafa yfir að ráða, geti sem fyrst losað sig við síldina. en á því var síðastl. sumar mjög tilfinnanlegur misbrestur, jafnvel þótt nú sé búið að reisa svo mikið af nýjum verksmiðjum sem raun er á. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt, þótt ég telji æskilegt, að þessi verksmiðja verði þarna reist, að rannsaka jöfnum höndum, hvar mest þörfin er á að koma verksmiðjum upp, og hverjar líkur séu til, að hægt sé að koma þeim upp, því að ég veit um marga menn, sem nú þykjast hafa fjárhagslega möguleika til þess að reisa nýjar verksmiðjur. Þetta þarf allt að takast til rækilegrar athugunar í sambandi við það. að ríkið byggi nýja verksmiðju, sem ég teldi ákaflega æskilegt.

En svo vildi ég að lokum segja það, að þótt síldveiðin hafi gengið vel í sumar, þá bregzt hún því miður sum árin, síldin hverfur snemma á vertíðinni, og stundum hafa síldarskipin jafnvel aldrei farið nógu snemma af stað. Það má því vara sig á því að festa allt of mikið fé í verksmiðjum, ef afturkippur skyldi koma í veiðina eða söluverð afurðanna. Við höfum nú haft hrun að því er snertir þorskveiðarnar. Á sama tíma hefir það tvennt gerzt, að markaður og afli hefir brugðizt. Það er því algert hallæri nú í mörgum sjávarþorpum, sem áður höfðu eingöngu atvinnutekjur af þorskveiðunum. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þdm., hvílíku tapi sjávarútvegurinn hefir orðið fyrir, og hvert atvinnuleysi hefir skapazt af þessu afla- og markaðsleysi undanfarinna ára. Því þurfum við í þessu sambandi að varast að festa of mikið fé í síldarverksmiðjum, sem yrðu okkur einskis nýtar, ef við síðar þyrftum að snúa okkur að einhverju nýju, eins og vel getur orðið, því að sannleikurinn er sá, að þótt einhver aflasælustu mið heimsins séu hér í kringum strendur landsins, þá er það mál allt svo lítið rannsakað, á hvern hátt við getum bezt hagnýtt okkur þann auð, sem liggur í hafinu umhverfis Ísland. Það er eiginlega alveg undursamlegt, að útgerðarmenn skuli aldrei hafa fundið hvöt hjá sér til þess að láta rannsaka, hvort ekki væri hægt að taka upp fleiri aðferðir við hagnýtingu fiskjarins og dreifa honum svo á ýmsa markaði, því að hjá þeim þjóðum, sem mjög einhæfar framleiðsluvörur hafa haft, hefir atvinnulífið fyrr eða síðar lent í rústum. Þetta er svo kunnugt, að ekki þarf að segja hv. þdm.

Ég vil sem sagt mæla með því, að þetta frv. verði athugað mjög gaumgæfilega, því að ég tel hina mestu nauðsyn á, að þessari verksmiðju verði komið upp. En ég vil, að það sé rannsakað, hvar bezt sé að reisa hana. Ég skal játa, að ég hefi tilhneigingu til þess að álíta, að mest sé þörfin fyrir hana austan Eyjafjarðar, eftir því að dæma, hvernig síldveiðin undanfarið hefir verið, þó að komið hafi ár og ár, sem veiðin hefir mest verið á Húnaflóa. En við höfum svo litla vitneskju um það, hvernig síldin hagar sér. Það er um þetta sem annað, er snertir sjávarútveginn, að við höfum ekki nægilegar rannsóknir, er gefið gæti okkur einhverja hugmynd um, hvernig síldargangan hagar sér. Þetta er nú lítilsháttar athugað fyrir forgöngu núv. ríkisstj., og verður auðvitað framhald á þeim rannsóknum. En ég álit líka, að rannsaka þurfi, eftir hvaða reglum reisa eigi nýjar verksmiðjur, til þess að auka afköst síldveiðanna og skapa meiri atvinnu. Þá kemur til að athuga, hvort skipastóli okkar Íslendinga getur fullnægt öllum þeim verksmiðjum, sem búið er að reisa og verða reistar, hvort ekki verði jafnframt að sjá fyrir auknum skipastóli. Þetta þarf að athuga. Málið er mikilsvert, og vona ég, að hv. sjútvn. gefist tækifæri til að rannsaka það eins og þarf, því að auðséð er, að um það, sem reisa á fyrir næstu vertíð, verður að taka ákvörðun nú á þessu hausti, eða fyrir áramót. Ég mæli með því, að málið verði athugað gaumgæfilega og að hv. sjútvn. athugi jafnframt aths. þær, sem fram hafa verið bornar um málið.