22.10.1937
Efri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) :

Hv. 10. landsk. tók hér til máls um þetta frv. og fór um það lofsamlegum orðum. En hann byrjaði ræðu sína svo, að hann gleddist yfir því, að hingað væru komnir tveir nýir þm., sem væru með þjóðnýtingu eða ríkisrekstri og vildu fylkja sér í þann flokkinn, sem þeim fylgdi, ef einkaframtakið brysti. Það er nú svo, að þegar ríkið hefir orðið að taka að sér framleiðslu á einhverju sviði, er einstaklingar hafa ekki megnað að standa undir henni, vegna þess að illa hefir árað og þá brostið fjármagn, þá hefir það ekki farið eftir stjórnmálaskoðunum manna, hverjir hafa leitað til ríkisins. Fyrir nokkrum árum bar ég t. d. fram hér í hv. d. till. um, að ríkinu væri heimilað að taka á leigu síldarbræðslu dr. Pauls, því að ekki voru líkindi til, að einstaklingar gætu það, en hinsvegar var álitið, að hentugt væri, að ríkið gerði þetta.

Viðvíkjandi þessu frv. er það að segja, að ég hefi það eftir góðum heimildum, að ekki sé um neina höfn að ræða, sem eins vel sé til fallin að hafa þar síldarverksmiðju og Raufarhöfn. Og þar sem ríkið á verksmiðju á þessum stað og myndi að öllum líkindum setja sig á móti því, að einstakiingar tækjust það á hendur, sem hér er um að ræða, er ekki um annað að gera en að ríkið geri þetta. Það er því svo, að þó að maður óski þess, að einstaklingar ættu allar verksmiðjur, þá getur samt farið svo stundum, að maður óski hins.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að þó að Húsavík gæti komið hér til greina, þá er þar, að kunnugra manna sögn, óljósu saman að jafna að því er hafnirnar snertir.

En um leið og hv. 10. landsk. tók með velvild á málinu, var á honum að heyra, sem hann vildi láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, áður en lengra væri gengið. Ég hefi í sjálfu sér ekkert á móti því, en vil þó beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún flýti því sem allra mest, því að full nauðsyn er á, að verksmiðja þessi komist upp fyrir næstu síldarvertíð.

Hv. 10. landsk. sagði líka, að athuga yrði almennt, hvaða reglur ætti að hafa um það, hvar síldarverksmiðjur skyldi reisa. Þetta er rétt, en ég sé ekki, að á því máli séu nema tvær hliðar. Önnur snýr að verkamönnum í landi, en hin að sjómönnum. Það er um það að ræða, hvort verksmiðjurnar eigi að reisa fyrir verkamennina eða sjómennina. Ef reisa á þær fyrir sjómennina, þá verða þær að vera sem næst síldarmiðunum. Það veitir þjóðarbúinu auk þess mestan arð. Og verkalýðurinn myndi með þessu að mestu leyti hafa þeirra sömu not, því að flestir verkamenn, sem vinna við þessi fyrirtæki, eru aðfluttir, e. t. d. fleiri en þorpsbúar sjálfir, sem við þau vinna. Ég efast ekki um, að ef hafa á einhverja ákveðna reglu um þetta, þá verði hún að vera sú, hvert stytzt sé að fara frá síldarmiðunum.

Sami hv. þm. sagði, að raddir hefðu heyrzt um það víða að, að reisa bæri margar og smáar síldarverksmiðjur. Ég veit, að margir vilja láta reisa smáar verksmiðjur, þar sem síldarsöltun er fyrir, en engin verksmiðja. Mér hefir verið sagt, að ef ekki væri hægt að reisa verksmiðjur t. d. á Hólmavík og Skagaströnd, þá væri ekki hægt að fá þangað síld til söltunar, vegna þess að mikið af henni hlyti að verða ónýtt. Það má reyndar segja, eins og hv. þm. minntist á, að búast megi við, að þegar aflaleysisár koma, muni verksmiðjurnar standa auðar. En það er nú svo um okkur Íslendinga, að við verðum að vera svo bjartsýnir og treysta því, að síldveiðin megi haldast og að svo megi fara, að síldarolía, til dæmis, verði síðar notuð til fleiri hluta en nú er. Það er engin von til, að afkoma þjóðarinnar geti orðið góð á næstunni, ef ekki er hugsað fyrir því að búa sem bezt að síldveiðunum.

Að því er snertir það atriði, sem hv. þm. minntist á, hvort ekki væri ástæða til að auka síldveiðiflotann, er það að segja, að síðustu tvö árin hefir flotinn verið svo stór, að verksmiðjurnar hafa ekki haft undan að afgreiða hann. Það vantar ekki skip, heldur verksmiðjur.

Hæstv. atvmrh. minntist á, að verksmiðjustj. hefði mál þetta til athugunar. Það getur verið, að svo sé, en ég veit til þess, að formaðurinn hafði á móti því í fyrra, að verksmiðja yrði reist á þessum stað, þegar erindi kom um það frá ýmsum félagsskap sjómanna. En ég vona, að straumhvörf þau, sem orðin eru hjá honum, verði til þess, að verksmiðjan verði reist fyrir næstu síldarvertíð. Það er ekki nóg, ef málið verður svæft, að afsaka sig með því, að maður hafi ekki viljað flana að neinu.