09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil nú þakka hv. 1. og 2. minni hl. sjútvn. fyrir afgreiðslu á þessu frv., þó að það kæmi nokkuð seint frá 2. minni bl. Og þó að afgreiðslan sé ekki eins og ég helzt hefði óskað, þá vona ég, að það verði ekki til að tefja fyrir framgangi málsins hér á þingi. Hv. 2. minni hl. leggur til, að verksmiðjan verði ekki stækkuð nema um 2400 mál, og þó að það sé alls ekki svipað því, sem kröfur okkar eru flm. með frv., og eins sjútvn. í heild, þá er það nokkur bót, sérstaklega ef verður horfið að því ráði, sem hæstv. atvmrh. gat um, að um leið væri stækkuð síldarverksmiðjan á Siglufirði um önnur 2400 mál. En mig langar ofurlítið að minnast á mótbárur þær, sem hv. 2. þm. S.-M. kom fram með á móti þessu frv. Hann er form. sjútvn. og hefir ekki sent út neitt nál. Hann taldi því aðallega til foráttu, að málið væri ekki nógu undirbúið, og engin tilraun gerð til að fá lán til byggingarinnar, og ekki væri sagt neitt um það, hve mikið fé myndi þurfa til að dýpka höfnina, sem óhjákvæmilegt væri, ef frv. þetta yrði að lögum. En nú er því til að svara, að höfnin er þannig úr garði gerð, að allir smábátar, bæði mótorbátar og línubátar. geta komizt inn á höfn og athafnað sig þar. Eins og grg. frv. sýndi, eru það aðallega þeir bátar, sem var verið að hjálpa með þessari ráðstöfun. Einnig minntist sami ræðumaður á það, að vatnsskortur væri þarna, en ég hefi fengið það upplýst, að það muni vera nægilegt vatn á þessari höfn, einungis hefði verið nokkur vatnsskortur þar í sumar, sem stafaði af því, að pípur frá vatnsbólinu voru of mjóar, og ætti að vera hægt um vik að hafa þær víðari, eða leggja auka æð, eftir því sem mönnum fyndist tiltækilegt. En það, sem var tvímælalaust þungamiðjan í ræðu þessa hv. þm.. var, að það væri ekki þörf á þessari verksmiðju, þar sem væru 2 verksmiðjur á Austfjörðum, og bar hann þar aðallega fyrir brjósti Norðfjarðarverksmiðjuna. Skal honum ekki láð það, en þetta ætti a. m. k. að sýna mönnum fram á það, að túlkun þessa þm. er ekki algerlega óhlutdræg í þessu máli, og getur maður þá fengið þarna skýringu á því, af hverju hann er svo mótfallinn því, að farið sé eftir ósk sjómanna og útgerðarmanna í þessu máli.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um málið að sinni, en vænti, að það fái þolanlega afgreiðslu, þar sem við höfum orðið á sama máli um nauðsyn þess. Verði málið afgr. á þessu þingi, verður hægt að hefjast handa með byggingu verksmiðjunnar strax á komandi sumri, enda má ekki verða neinn dráttur á framkvæmdum, ef það á ekki að koma smábátaútveginum í koll.