21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Eins og sést á nál., þá hefi ég nokkra sérstöðu í málinu. En þó að það sé rétt, sem hv. frsm. gat um, að ég hefi ekki hugsað mér að setja mig á móti samþykkt þess, þá þótti mér rétt að koma fram með mína sérstöku skoðun á málinu, og hún er og hefir ætíð verið sú, að fyrst beri að leita eftir því, hvort einstakir menn eða félög sjái sér ekki fært að fullnægja þörfinni fyrir verksmiðjur, en ríkið komi því aðeins til, að á það skorti, að einstaklingar fullnægi þessari þörf. Nú er það kunnugt, að fyrir liggja allmargar beiðnir um að byggja verksmiðjur, og nemur það allt að 25 þús. mála vinnslumagni á sólarhring. Gera má ráð fyrir, að sumir af þessum umsækjendum hafi ekki skapað sér skilyrði til að geta byggt, og því ekki líklegt, að þeir verði við því búnir allir. En mér hefði fundizt, að það mundi vera rétt, og heppilegasta leiðin í þessu máli, að rannsaka til hlítar. hverjir af þessum umsækjendum hefðu skilyrði til að byggja á næsta sumri, og veita þar frekar stuðning en að standa þar í vegi fyrir. Og að því er snertir þessa sérstöku aukningu á Siglufirði og Raufarhöfn, þá hefi ég látið þess getið í nái., að ég telji, að aðstaðan á Siglufirði sé slík, að rétt sé að vera með þeirri aukningu, hvað sem skoðun minni liður að öðru leyti um útfærslu ríkisins á þessum verksmiðjurekstri sínum. Það er ekki hægt að neita því, að eftir þeirri lauslegu áætlun, sem gerð hefir verið, er ákaflega mikill munur á, hvað þessi aukning á Siglufirði kostar og verksmiðjan á Raufarhöfn. Það er gert ráð fyrir, að öll aukningin á Siglufirði kosti um hálfa millj. kr., en þar af mundi sennilega verða að verja til gömlu verksmiðjunnar um 300 þús. kr., til þess að setja upp sjálfvirk löndunartæki og auka við lýsisgeymslu og mjölgeymslu, en það virðist vera hægt að auka vinnsluna um 2400 mál fyrir þessar 200 þús. kr., og verður ekki neitað, að þetta er mjög hagkvæmt á móti því, að gert er ráð fyrir, líka eftir lauslegri áætlun, að verksmiðja fyrir jafnmikla vinnslu, 2400 mál, kostar á Raufarhöfn eina millj. kr., — m. ö. o. 5 sinnum meira en jafnmikil aukning kostar á Siglufirði. Þar að auki er svo það, að hafnarskilyrði á Raufarhöfn eru, eins og hv. frsm. tók fram, mjög óhagstæð, og þarf að láta mjög mikið fé til hafnarbóta þar, ef þar verður byggð verksmiðja. Ég játa, að þær bætur yrði eins að gera, þótt einstaklingar byggðu verksmiðjuna, svo að það út af fyrir sig hefir ekki mikla þýðingu, en þó yrði þetta geysimikið fé, sem ríkið yrði að binda þarna í verksmiðjunni og höfninni.

Mér er kunnugt um það af viðtali við form. félagsins, sem sækir um stærsta leyfið, að ef það fengi leyfi til að byggja verksmiðju fyrir 10 þús. mál, þá mundi það gjarnan vilja byggja 2 verksmiðjur fyrir 5 þús. mál hvora, aðra á Raufarhöfn, en hina við Húnaflóa, en ef það fengi leyfi fyrir aðeins helminginn, mundi það vilja hafa hana um miðbik veiðisvæðisins, í nánd við Eyjafjörð. Mér finnst, að stj. hefði átt að athuga, hvort þessi umsækjandi gæti ekki komið upp verksmiðjubyggingu í sumar og þannig leyst þennan vanda, sem ég viðurkenni, að þarf nú að leysa, en það er, að nógar verksmiðjur verði til þess að taka á móti aflanum, þannig að skipin þurfi ekki að liggja mjög lengi og bíða afgreiðslu, og að sjálfsögðu er það hagkvæmt fyrir bátaútveginn, að verksmiðjurnar séu ekki aðeins um miðbik veiðisvæðisins. heldur líka á jörðunum, en því er ekki að neita, að á Raufarhöfn er miklu erfiðari aðstaða en við Eyjafjörð.

Ég vil svo endurtaka það, að ég vil ekki setja fótinn fyrir þetta frv., og ég hefi komið með brtt. við það, af því að mér sýnist að því stefnt, að stj. muni heldur bregðast við að veita einstaklingsleyfi, og þar af leiðandi skapast af sjálfu sér þörf fyrir, að ríkið leysi vandamálið.